Drangar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bærinn Drangar á Ströndum er nokkuð norðan við Drangaskörð. Þar var föst búseta allt til ársins 1966 og fjölskyldan sem síðast bjó á Dröngum dvelst þar enn sumarlangt. Á Dröngum standa mörg merkileg hús, m.a. mjög forn hákarlahjallur sem nýverið var lagfærður. Enginn akvegur liggur að Dröngum en vegurinn norður strandir endar við Hvalá í Ófeigsfirði sem þó er brúuð mönnum og kindum 10 -15 km sunnar.

Yfir bænum gnæfir Bæjarfjall. Hlunnindi eru gríðarmikil á Dröngum, selveiði, æðarvarp og viðarreki. Bænhús var forðum á Dröngum, enda langt að sækja næstu kirkju. Skammt norðan við Dranga fellur Húsá til sjávar, á henni er göngubrú. Vestur af ánni er Laugamýri þar sem heitt vatn er að finna.

Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða, var landnámsmaður á Dröngum. Er sagt að hann sé heygður að Meyjarseli, sem er nokkuð norðan við Dranga. Þar eru miklar tóftir á Meyjarselstanga. Upp af tanganum eru þrír Selhólar og á Þorvaldur að hvíla í einum þeirra. Fram af Meyjarselstanga er Tólfmannaboði. Þar eiga að hafa farist 12 menn sem voru á leið til messu á Dröngum á gamlársdag.

Friðlýsing[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2021 var svæðið friðlýst, þ.e. 105 km2, þar af 9 km2 í hafi. Það var gert að frumkvæði landeiganda og gerð í minningu hjónanna Önnu Jakobínu Guðjónsdóttur og Kristins Halls Jónssonar er voru síðustu bændur à Dröngum[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Drangar á Ströndum UTS.is skoðað 8/12 2021