Úlfur skjálgi Högnason
Úlfur skjálgi Högnason var íslenskur landnámsmaður sem nam Reykjanes milli Þorskafjarðar og Hafrafells. Hann er í Landnámu sagður einn af ættgöfgustu landnámsmönnum í Vestfirðingafjórðungi; hann var af ætt Hörðakonunga, frændi Geirmundar heljarskinns og kom í samfloti með honum til Íslands. Þeir komu í Breiðafjörð og lögðu skipum sínum við Elliðaey. Þar fréttu þeir að sunnan fjarðar væri allt land numið. Geirmundur hélt þá inn að Skarðsströnd og nam þar land en Úlfur skjálgi til norðurs og nam Reykjanes. Úlfur átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns systur Helga magra.
Einn sona Úlfs var Jörundur, faðir Þjóðhildar, konu Eiríks rauða og móður Leifs heppna. Kona Jörundar var dóttir Gils er nam Gilsfjörð.
Annar var Atli rauði er átti Þorbjörqu dóttur Steinólfs lága. Sonur þeirra var Már á hólum er átti Þórkötlu dóttur Hergils hnappras. Sonur þeirra Ari er sigldi til Hvítramannalands sem var sunnan Vínlands.
Faðir Högna var Óblauður Ótryggsson. Faðir Ótryggs var Hjörleifur Hörðakonungur. Kona Hjörleifs var Æsa hin ljósa. Hálfbróðir Ótryggs samfeðra var Hálfur faðir Hjörrs faðir Geirmundar og Hámundar. Móðir Hálfs var Hildur hin mjóa dóttir Högna í Njarðey.