Fara í innihald

Edward Rydz-Śmigły

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Edward Śmigły-Rydz)
Edward Rydz-Śmigły
Rydz-Śmigły árið 1937.
Yfireftirlitsmaður pólska hersins
Í embætti
12. maí 1935 – 7. nóvember 1939
ForsetiIgnacy Mościcki
ForveriJózef Piłsudski
EftirmaðurWładysław Sikorski
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. mars 1886
Brzeżany, Austurríki-Ungverjalandi (nú Berezjany, Ternopílfylki, Úkraínu)
Látinn2. desember 1941 (55 ára) Varsjá, Póllandi
ÞjóðerniPólskur
MakiMarta Zaleska
Undirskrift

Edward Rydz-Śmigły marskálkur (11. mars 1886 – 2. desember 1941) var pólskur herforingi sem naut mikilla áhrifa í öðru pólska lýðveldinu á millistríðsárunum. Rydz-Śmigły varð æðsti maður pólska hersins eftir andlát Józefs Piłsudski árið 1935 og var í reynd valdamesti maður Póllands í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar.

Rydz-Śmigły stýrði vörnum Pólverja í innrásinni í Pólland árið 1939 en bað ósigur gegn innrásarherjum Þjóðverja og Sovétmanna. Eftir ósigurinn flúði Rydz-Śmigły til Rúmeníu en sneri síðar aftur til Póllands til að taka þátt í andspyrnu gegn hernáminu. Hann lést á sóttarsæng stuttu síðar, þann 2. desember 1941.

Edward Rydz-Śmigły fæddist 11. mars 1886 í litlu þorpi í Galisíu. Hann var snemma áhugasamur um myndlist og ljóðlist og gekk að loknu stúdentsprófi í listaháskólann í Kraká, auk þess sem hann nam heimspeki. Verk hans einkenndust af þemum úr sjálfstæðisbaráttu Póllands.[1]

Rydz-Śmigły komst ungur í kynni við Józef Piłsudski, einn aðalleiðtoga pólsku sjálfstæðishreyfingarinnar, og gekk árið 1908 í leynilegan hernaðarháskóla sem Piłsudski hafði stofnað til að þjálfa uppreisnarmenn. Piłsudski og fylgjendur hans biðu þess að rússneska keisaradæmið drægist inn í Evrópustyrjöld svo Pólland gæti neytt tækifærisins til að losa sig undan rússneskri stjórn.[1]

Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 gengu pólsku sveitirnar til liðs við Miðveldin og börðust með þeim á móti Rússlandi. Rydz-Śmigły var þá foringi 3. fylkingar í 1. herdeild en árið 1915 varð hann majór, árið 196 ofursti og nokkru síðar varð hann æðstráðandi 1. herdeildarinnar. Pólsku hersveitirnar tóku þátt í harðskeyttum og banvænum orrustum gegn Rússum og áunnu sér virðingu þýskra og austurrískra bandamanna sinna.[1]

Árið 1917 létu Þjóðverjar handtaka Piłsudski og settu hann í varðhald í Magdeburg. Rydz-Śmigły tók þá við stjórn pólsku hersveitanna í hans stað.[2] Hann lét flytja stjórn pólsku sveitanna til Varsjár og hóf þar undirbúning að stofnun nýs pólsks lýðveldis sem ætti að fá sjálfstæði eftir ósigur Miðveldanna í stríðinu. Rydz-Śmigły lét bjóða Piłsudski velkominn með glæsibrag þegar hann sneri heim til Varsjár til að taka við stjórn Póllands þann 11. nóvember 1918.[1]

Rydz-Śmigły var yfirforingi annars pólska hersins þegar stríð Sovétríkjanna og Póllands skall á árið 1919.[3] Her undir forystu Rydz-Śmigły tók Vilníus í áhlaupi í apríl 1919 og þegar rauði herinn nálgaðist Varsjá sneri her Rydz-Śmigły við og stöðvaði framsókn hans.[1]

Rydz-Śmigły studdi Piłsudski þegar hann framdi valdarán gegn borgaralegum stjórnvöldum Póllands árið 1926. Hann varð einn nánasti samverkamaður Piłsudski, sem lýsti því ítrekað yfir að hann vildi að Rydz-Śmigły tæki við af sér ef eitthvað henti hann. Það var Piłsudski sem gaf Rydz nafnbótina Śmigły, sem var ekki hluti af fæðingarnafni hans heldur viðurnefni sem merkir „hinn djarfi“ eða „hinn snarráði“.[3]

Piłsudski lést árið 1935 og Ignacy Mościcki, forseti Póllands, útnefndi Rydz-Śmigły þá yfireftirlitsmann pólska hersins í samræmi við hinstu óskir hans.[2] Næsta ár var því jafnframt lýst yfir að líta bæri á Rydz-Śmigły sem næstæðsta mann ríkisins á eftir forsetanum. Rydz-Śmigły var í reynd valdamesti maður Póllands í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar en gætti þess að mestu að blanda sér ekki í deilur milli stjórnmálaflokka.[3]

Vinsældir og völd Rydz-Śmigły í Póllandi jukust mjög í aðdraganda stríðsins eftir því sem samskipti Pólverja við Þýskaland Hitlers versnuðu og stríðsæsingur jókst. Rydz-Śmigły talaði mjög upp getu pólska hersins og lagði mikla áherslu á notkun skriðdreka ef Pólland yrði fyrir innrás.[3]

Þjóðverjar hófu innrás í Pólland þann 1. september 1939 og Sovétmenn gerðu einnig innrás úr austri þann 17. september. Pólski herinn var ekki eins nútímalega útbúinn og sá þýski og tókst því ekki að veita Þjóðverjum árangursríka mótspyrnu.[4]

Eftir að varnir Pólverja voru brotnar á bak aftur flúði Rydz-Śmigły ásamt fleiri pólskum ráðamönnum yfir landamærin til Rúmeníu en var kyrrsettur þar. Vegna handtöku sinnar hlaut Rydz-Śmigły ekki sæti í útlegðarríkisstjórn Póllands. Hann komst síðan undan og lét sig hverfa. Rydz-Śmigły sneri aftur til Póllands til að taka þátt í andspyrnuaðgerðum gegn hernámsliði Þjóðverja en lést stuttu síðar úr veikindum. Ekki var fyllilega upplýst um afdrif hans fyrr en árið 1957.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Herstjórnendur Póllands og Þýskalands“. Heimilisblaðið. 1. október 1939. bls. 167-171.
  2. 2,0 2,1 „Edward Rydz-Smigly hershöfðingi“. Rökkur. 1. desember 1935. bls. 190-191.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Sigurður Einarsson (20. nóvember 1939). „Eduard Smigly-Rydz yfirhershöfðingi Pólverja“. Alþýðublaðið. bls. 3.
  4. Ólafur Hansson (1945). Heimsstyrjöldin 1939-1945. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs Reykjavíkur. bls. 36.
  5. „Smigly-Ryds dó á sóttarsæng“. Vísir. 8. ágúst 1957. bls. 5.