Edith Hamilton

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Edith Hamilton (12. ágúst 1868 í Dresden í Þýskalandi31. maí 1963) var fornfræðingur og rithöfundur. Frægustu rit hennar eru The Greek Way (1930) og Mythology (1942). Mythology er enn til á prenti rúmum sex áratugum eftir að hún kom fyrst út og er enn notuð í kennslu.

Edith Hamilton fæddist í Dresden í Þýskalandi en ólst upp hjá foreldrum sínum í í Fort Wayne í Indiana í Bandaríkjunum. Faðir hennar byrjaði að kenna henni latínu þegar hún var sjö ára gömul og bætti fljótlega við frönsku, þýsku og grísku. Hún gekk í skóla í Farmington í Connecticut og í Bryn Mawr College í Pennsylvaníu þaðan sem hún brautskráðist með MA-gráðu árið 1894. Næsta ár urðu Edith og systir hennar, Alice, fyrstu kvenkyns nemendurnir í háskólunum í Leipzig og München.

Þegar Edith sneri aftur til Bandaríkjanna árið 1896 tók hún við stöðu skólastjóra Bryn Mawr School for Girls í Baltimore í Maryland og gegndi þeirri stöðu þar til hún settist í helgan stein árið 1922. Þegar hún látið starfi sínu lausu flutti hún til New York ásamt lífsförunautu sínum Doris Fielding Reid og helgaði sig skrifum um forngríska leikritun. Hún nálgaðist gríska goðafræði alfarið í gegnum forngrískar bókmenntir. The Greek Way kom út árið 1930. Í bókinni bar Hamilton saman lífsstíl Forn-Grikkja og nútímamanna. Bókinni fylgdi hún eftir með The Roman Way sem kom út árið 1932 og bar saman á svipaðan hátt líf Rómverja og nútímamanna. Hún hélt áfram að gefa út bækur um klassíska fornmenningu næstu þrjá áratugina. Árið 1957 var Hamilton gerð að heiðursborgara í Aþenu. Hún var einnig gerð að meðlim í American Academy of Arts and Letters.

Bréfasafn Hamilton er varðveitt á bókasafni Princeton-háskóla. Lífsförunautur hennar Doris Fielding Reid skrifaði ævisögu hennar, Edith Hamilton: An Intimate Biography.

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

 • „Bókmenntir þjóðar er uppspretta raunverulegrar þekkingar á henni. Þær sýna verðleika þjóðarinnar á þann hátt sem sagnfræðileg umfjöllun er ófær um að gera.“
 • „Mér hefur ætíð þótt það undarlegt að í endalausum umræðum okkar um menntun sé svo lítil áhersla lögð á ánægjuna sem hlýst af því að verða menntuð manneskja, hversu áhugavert hún gerir líf okkar.“

Helstu ritverk Edith Hamilton[breyta | breyta frumkóða]

 • The Greek Way (1930).
 • The Roman Way (1932).
 • The Prophets of Israel (1936).
 • Three Greek Plays (1937).
 • Mythology: Timeless Tales of Gods and Heroes (1942).
 • The Golden Age of Greek Literature (1943).
 • Spokesmen for God (1949).
 • Witness to the Truth: Christ and His Interpreters (1949).
 • Echo of Greece (1957).
 • Ritstj. ásamt Huntington Cairns. Collected Dialogues of Plato, Including the Letters (1961).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni