Fara í innihald

Carl Richard Unger

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Carl Richard Unger. Úr Skilling-Magazin 1867.

Carl Richard Unger (f. 2. júlí 1817, d. 30. nóvember 1897) var norskur málfræðingur og textafræðingur, prófessor við Háskólann í Kristjaníu, nú í Ósló.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

C. R. Unger fæddist í Kristjaníu og ólst þar upp að mestu. Foreldrar hans voru Johan Carl Jonassen Unger (1757–1840) og síðari kona hans Anne Marie Wetlesen (1777–1864).

Unger varð stúdent 1835 og hóf nám í málfræði, en lauk aldrei embættisprófi vegna lélegrar frammistöðu í stærðfræði. Hann varð styrkþegi við Háskólann í Kristjaníu 1841, og fór fyrst til Kaupmannahafnar til þess að rannsaka forn handrit. Komst hann brátt að því að prentaðar útgáfur voru oft ónákvæmar og gáfu villandi upplýsingar um orðmyndir og texta handritanna. Gerði hann þá nákvæmar uppskriftir af mörgum handritum. Á árunum 1843–1845 var hann í París og London til þess að rannsaka og skrifa upp handrit sem til voru í fornum norsk-íslenskum þýðingum. Vorið 1845 hóf Unger að flytja fyrirlestra við Háskólann í Kristjaníu. Árið 1851 varð hann lektor í germanskri og rómanskri málfræði og prófessor 1862. Hann hélt einkum fyrirlestra um málfræði norrænna mála, handritalestur og textafræði. Á löngum kennsluferli brúaði hann bilið milli frumherjanna í norrænum fræðum í Noregi og þeirra sem tóku við og voru virkir fram um miðja 20. öld.

Unger hóf um 1841 undirbúning að fornnorskri (og forníslenskri) orðabók, en þegar hann komst að því að Johan Fritzner væri kominn vel á veg með slíkt verk, afhenti hann honum gögn sín og veitti honum leiðsögn. Þegar Fritzner varð svo frá að hverfa, á bls. 384 í þriðja bindi verks síns: Ordbog over det gamle norske Sprog 1–3 (1886–1896), tók Unger við og lauk útgáfunni.

Árið 1861 stofnaði Unger Det norske Oldskriftselskab (Norska fornritafélagið), ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum, svo sem Rudolf Keyser, P. A. Munch, Sophus Bugge, Oluf Rygh o.fl. Margar af textaútgáfum Ungers voru á vegum þess félags, en aðrar voru boðsrit á vegum Háskólans í Kristjaníu.

Hinn 1. janúar 1897 gáfu nokkrir nemendur og samstarfsmenn Ungers út rit honum til heiðurs, í tilefni af því að þá var hálf öld frá því hann hóf útgáfustarf sitt, auk þess sem hann var þá á 80. aldursári:

  • Sproglig-historiske studier tilegnede professor C. R. Unger.

Hann varð félagi í Konunglega norska vísindafélaginu frá 1853, í Vísindafélaginu í Kristjaníu frá stofnun þess 1857, og í ýmsum erlendum fræðafélögum.

Unger sagði af sér prófessorsembætti vorið 1897; nokkrum mánuðum síðar var hann allur. Hann var ógiftur.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Helstu útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

Unger var afkastamikill og nákvæmur útgefandi sagnfræðiheimilda og rita frá gullöld Noregs og Íslands, og eru flestar þessar útgáfur enn í fullu gildi. Meðal þeirra eru:

Með tímanum varð Unger svo handgenginn máli handritanna, að hann réðist í að þýða á „fornnorsku“ nokkra kafla úr Þiðriks sögu, sem glatast höfðu úr norsku handriti sögunnar, en voru varðveittir í fornsænskri þýðingu.

Nokkur önnur rit[breyta | breyta frumkóða]

  • Oldnorsk læsebog med tilhørende glossarium, Christiania 1847. Með P. A. Munch. Unger sá einn um endurskoðaða útgáfu 1863.
  • Det oldnorske sprogs eller norrønasprogets grammatik, Christiania 1847. Með P. A. Munch.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Norsk biografisk leksikon 9, Oslo 2005.
  • Ludvig Holm-Olsen: Lys over norrøn kultur. Oslo 1981.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Carl Richard Unger“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 23. janúar 2008.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]