Norska vísindaakademían

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hús Norsku Vísindaakademíunnar á Drammensveien 78.

Norska vísindaakademían – (norska: Det Norske Videnskaps-Akademi, skammstafað DNVA), – er sjálfstætt, þverfaglegt vísindafélag í Osló, sem hefur að markmiði að efla norsk vísindi og rannsóknir með fundum, fjárstyrkjum og útgáfu fræðirita.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Norska vísindaakademían (DNVA) var stofnuð 3. maí 1857 og hét þá Vísindafélagið í Kristjaníu (norska: Videnskabsselskabet i Christiania), en skipti um nafn 1924 þegar nafni Kristjaníu hafði verið breytt í Osló. Vísindaakademían fagnaði 150 ára afmæli sínu 2007.

Annað vísindafélag, Konunglega norska vísindafélagið, er Þrándheimi, og er það nær öld eldra en Norska vísindaakademían, stofnað 1760. Eftir að Kristjanía (Ósló) varð miðstöð æðri menntunar í Noregi, hafa vísindamenn þar talið þörf á sérstöku vísindafélagi í höfuðborginni.

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Í Norsku vísindaakademíunni eru 487 norskir og 408 erlendir félagsmenn, sem skiptast í tvær megindeildir: stærðfræði- og náttúruvísindadeild og sögu og heimspekideild. Innan hvorrar deildar starfa 8 faghópar sem hver um sig hefur sína stjórn. Norskir og erlendir félagsmenn eru tilnefndir eftir mat á heildarframlagi þeirra til viðkomandi vísindagreinar. Ákvörðun um nýja félagsmenn er tekin einu sinni á ári og takmarkast við að sæti losni við fráfall eða að félagsmaður fari á eftirlaun, 67 ára. Fjöldi norskra félagsmanna á starfsaldri takmarkast við 219, og erlendra við 183. Vísindaakademían er undir stjórn forseta, varaforseta og aðalritara (skrifstofustjóra), auk formanns, varaformanns og ritara í hvorri deild. Skrifstofa Akademíunnar er í Osló, á Drammensveien 78, og sér skrifstofustjórinn um daglega rekstur hennar.

Markmið og starfsemi[breyta | breyta frumkóða]

Norska vísindaakademían kemur fram fyrir hönd norskra vísinda gagnvart erlendum vísindafélögum og alþjóðasamtökum og er jafnframt gestgjafi í alþjóðlegum vísindalegum ráðstefnum og vinnufundum. Akademían efnir einnig til fyrirlestra, svo sem Fridtjof Nansen Minneforelesning.

Vísindaakademían gefur út árbók (Årbok), og ritraðirnar Minnetaler og Fridtjof Nansen Minneforelesning. Akademían gefur einnig út Zoologica Scripta í samvinnu við Konunglegu sænsku vísindaakademíuna, og Physica Scripta með Konunglega danska vísindafélaginu.

Vísindaakademían veitir viðurkenningar og verðlaun, svo sem Abelverðlaunin (alþjóðleg stærðfræðiverðlaun), Holmboeverðlaunin fyrir stærðfræðikennslu og Kavliverðlaunin fyrir rannsóknir. Akademían styrkir einnig verkefni sem miða að því að efla þekkingu og áhuga skólabarna á vísindalegum efnum.

Norska vísindaakademían hefur frá 1985 unnið með Statoil að því að efla rannsóknir sem tengjast olíu-, jarðgasi og samfélagsþróun.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]