Sophus Bugge

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sophus Bugge, 1901.

Sophus Bugge – fullu nafni Elseus Sophus Bugge – (5. janúar 18338. júlí 1907) var norskur málvísindamaður, textafræðingur og þjóðfræðingur.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Sophus Bugge fæddist í Larvik. Foreldrar: Alexander Bugge (1790–1854) timburkaupmaður og Maren Kirstine Sartz (1798–1836).

Sophus Bugge varð stúdent í Kristjaníu 1848 og tók embættispróf í textafræði 1857. Meðal kennara hans voru P. A. Munch og Rudolf Keyser. Næstu ár fékk hann styrk til námsdvalar erlendis. Árið 1860 varð hann styrkþegi í samanburðarmálfræði og sanskrít, 1864 lektor og 1866 prófessor í indóevrópskum málvísindum og fornnorsku við Háskólann í Kristjaníu.

Meginframlag Bugges er á svið norrænna málvísinda og menningarþróunar, en frá hendi hans komu einnig markverð verk í samanburðarmálvísindum, einkum í latneskri textafræði, fornítölsku, etrúsku, armensku, rómanskri orðsifjafræði og sígaunamáli.

Árið 1852 birti Sophus Bugge fyrstu vísindagrein sína: Om Consonant-Overgange i det norske Folkesprog. Á stúdentsárunum fór hann til Þelamerkur til þess að safna fornkvæðum. Hann átti umtalsverðan hlut í útgáfuverkinu Danmarks gamle Folkeviser, sem Svend Grundtvig hóf að gefa út 1853. Þetta verk er mikilvægasta safn norrænna þjóðkvæða; lokabindið (XII. bindi) kom út 1976. Sophus Bugge gaf sjálfur út Gamle norske Folkeviser (1858) sem var talin góð fyrirmynd um vísindalega útgáfu. Þó að bindin yrðu ekki fleiri, er Bugge án efa sá einstaklingur sem safnað hefur flestum norskum fornkvæðum.

Bugge vann mikið að rannsóknum á norrænum rúnaristum, og gaf út Norges indskrifter med de ældre runer. Árið 1865 gaf hann út stutta grein (sem var aðeins 23 línur) um rúnirnar á gullhornunum dönsku. Þar lagði hann fram nýja túlkun á áletruninni, með þýðingu á gotnesku, norrænu og fornensku. Bugge vildi bíða með að rökstyðja túlkunina, en með því að birta þýðingarnar sýnir hann fram á, án þess að segja það beint, að áletrunin er ekki á gotnesku, eins og P. A. Munch og fleiri höfðu haldið fram, og þar með var eðlilegt að líta svo á að málið á henni væri frumnorræna, það er undanfari norrænu málanna.

Sem textafræðingur er hann kunnastur fyrir útgáfu sína á Eddukvæðum (1867). Önnur kunn verk hans eru Studier over de nordiske Gude- og Heltesagns Oprindelse (1881–1889) og rit á sviði rúnafræði.

Sophus Bugge var fremsti textafræðingur og málvísindamaður Norðmanna um sína daga. Hann var einnig góður kennari, og mikill persónuleiki sem hafði áhrif á samtíð sína. Hann var tekinn í Vísindafélagið í Kristjaníu 1858, og Konunglega norska vísindafélagið 1865, auk þess sem hann var í mörgum erlendum vísindafélögum. Hann varð heiðursdoktor í Uppsala-háskóla á 400 ára afmæli hans 1877, og riddari af St. Ólafs-orðunni 1877, stórriddari 1890 og stórkross 1896.

Kona Sophusar Bugges (gift 6.7.1869 í Kristjaníu) var Karen Sophie Schreiner (25.4.1835–3.7.1897). Sonur þeirra var Alexander Bugge (1870–1929) prófessor í sagnfræði. Dóttir Bugges, Johanna Bugge Berge, giftist Rikard Berge, og myndskreytti tvær útgáfur þeirra Bugges og Berges af norskum ævintýrum.

Nokkur rit[breyta | breyta frumkóða]

 • Gamle norske Folkeviser. Christiania 1858. [Endurútgefið: Norsk Folkeminnelags skrifter 106. Oslo 1971.]
 • Studier over de nordiske Gude- og Heltesagns Oprindelse. Christiania 1881, 1889, 1896.
 • Norges Indskrifter med de ældre Runer. Christiania 1891, 1893, 1895, 1902, 1903, 1904, 1905, 1906.
 • Bidrag til den ældste Skjaldedigtnings Historie. Kristiania 1894.
 • Torsvisen i sin norske Form .... Festskrift til Hs. Maj. Kong Oscar II ved Regjerings-Jubilæet den 18de Sept. 1897. II. D. 5. Kristiania 1897. — Með Moltke Moe.
 • Populær-videnskabelige foredrag. Efterladte arbeider. H. Aschehoug & Co. (W. Nygaard). Kristiania 1907.
 • Norske Eventyr og Sagn. Med Indledning av Moltke Moe. Illustreret med Norsk Folkekunst av Johanna Bugge Berge. Gyldendalske Boghandel Nordisk Forlag. Kristiania 1909. — Með Rikard Berge.
 • Norske Eventyr og Sagn. Anden Samling. Illustreret med Norsk Folkekunst av Johanna Bugge Berge. Gyldendalske Boghandel Nordisk Forlag. Kristiania 1913. — Með Rikard Berge.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Jens Braage Halvorsen: Elseus Sophus Bugge. Norsk Forfatter-Lexikon 1814–1880 I, 510–518. Kristiania 1885.
 • Moltke Moe: Sophus Bugge. Norden 1902, 14–28. — Einnig í: Moltke Moes samlede skrifter II, Oslo 1926.
 • Sproglige og historiske afhandlinger viede Sophus Bugges minde, H. Aschehoug & Co, Kristiania 1908. — Viðaukar: To ungdomsbreve fra Sophus Bugge. / Fortegnelse over Sophus Bugges trykte arbeider.
 • Svale Solheim: Sophus Bugge (1833–1907). Dag Strömbäck (ritstj.): Leading Folklorists of the North, 313–322. Universitetsforlaget, Oslo 1971.
 • Fyrirmynd greinarinnar var „Sophus Bugge“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. júlí 2011.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]