Fara í innihald

José Manuel Barroso

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá José Manuel Durão Barroso)
José Manuel Barroso
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Í embætti
22. nóvember 2004 – 31. október 2014
ForveriRomano Prodi
EftirmaðurJean-Claude Juncker
Forsætisráðherra Portúgals
Í embætti
6. apríl 2002 – 17. júlí 2004
ForsetiJorge Sampaio
ForveriAntónio Guterres
EftirmaðurPedro Santana Lopes
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. mars 1956 (1956-03-23) (68 ára)
Lissabon, Portúgal
ÞjóðerniPortúgalskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
Evrópski þjóðarflokkurinn
MakiMaria Margarida Sousa Uva (g. 1980; d. 2016)
Börn3
HáskóliHáskólinn í Lissabon
Háskólinn í Genf
Háskólinn í Georgetown
Undirskrift

José Manuel Durão Barroso (f. 23. mars 1956) er portúgalskur stjórnmálamaður sem vinnur sem formaður og ráðgjafi hjá bandaríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs.[1] Barroso var forsætisráðherra Portúgals frá 2002 til 2004 og forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2004 til 2014.

Barroso varð formaður portúgalska Jafnaðarmannaflokksins árið 1999. Eftir þingkosningar árið 2002 hlaut Jafnaðarmannaflokkurinn nógu mörg þingsæti til þess að stofna samsteypustjórn með hægrisinnaða Þjóðarflokknum. Barroso gerðist forsætisráðherra og beitti sér sem slíkur fyrir því að draga úr fjárhagshalla á portúgölskum ríkisútgjöldum svo þau samræmdust 3% viðmiði Evrópusambandsins. Niðurskurður Barrosos í ríkisútgjöldum varð honum ekki til vinsælda meðal vinstrimanna og opinberra starfsmanna.

Í mars árið 2003 tók Barroso á móti George W. Bush Bandaríkjaforseta, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og José María Aznar forsætisráðherra Spánar á Terceira í Asóreyjum. Leiðtogarnir fjórir funduðu þar og skipulögðu innrásina í Írak sem gerð var sama ár.

Barroso lauk ekki kjörtímabili sínu sem forsætisráðherra því árið 2004 tilnefndi Evrópski þjóðarflokkurinn hann í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hann hlaut einróma stuðning leiðtoga aðildarríkja Evrópusambandsins í embættið og tók við embætti af Romano Prodi þann 22. nóvember.[2] Barroso var endurkjörinn í embættið eftir kosningar á Evrópuþingið árið 2009 og varð þar með annar forseti framkvæmdastjórnarinnar sem hefur setið í tvö kjörtímabil, á eftir Jacques Delors. Sem forseti framkvæmdastjórnarinnar tók Barroso þátt í samningu Lissabon-sáttmálans, sem kom á ýmsum breytingum á stjórnskipulagi Evrópusambandsins. Stuttu eftir endurkjör sitt fór Barroso í heimsókn til Írlands til þess að hvetja Íra til þess að samþykkja Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Barroso lét af forsetaembættinu eftir að seinna kjörtímabili hans lauk árið 2014 og hóf störf hjá Goldman Sachs tæpum tveimur árum síðar. Ráðning hans hjá Goldman Sachs var mjög umdeild, ekki síst þar sem Goldman Sachs er bandarísk stofnun sem lék vafasamt hlutverk í kreppunni sem reið evrunni næstum að fullu fáeinum árum fyrr. Eftirmaður Barrosos, Jean-Claude Juncker, skipaði sjálfstæða rannsókn á því hvort Barroso hefði brotið siðareglur með því að þiggja starfið.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Vilja ekki Barroso til Goldm­an Sachs“. mbl.is. 13. júlí 2016. Sótt 20. júlí 2018.
  2. „Duglegur mannasættir“. Morgunblaðið. 1. júlí 2004. Sótt 20. júlí 2018.


Fyrirrennari:
António Guterres
Forsætisráðherra Portúgals
(6. apríl 200217. júlí 2004)
Eftirmaður:
Pedro Santana Lopes
Fyrirrennari:
Romano Prodi
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
(22. nóvember 200431. október 2014)
Eftirmaður:
Jean-Claude Juncker