Fara í innihald

Amon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Amon-Ra)
Lágmynd af Amon-Ra frá hofrústunum í Karnak

Amon eða Amún (fornegypska: ymn, gríska: Ἄμμων) var fornegypskur guð frá Þebu. Til eru heimildir um hann og konu hans Amonet frá tímum Gamla ríkisins. Frá 11. konungsættinni varð hann höfuðguð Þebu í stað fálkans Montjú.

Þegar Þeba gerði uppreisn gegn Hyksos-konungunum á öðru millitímabilinu og 18. konungsættin tók völdin varð Amon höfuðguð konungsættarinnar. Hann rann saman við sólguðinn Ra og var dýrkaður sem Amon-Ra. Hann hélt þeirri stöðu sinni allan þann tíma sem Nýja ríkið varði (fyrir utan stutt villutrúarskeið þegar Akenaten gerði sólskífuna Aten að höfuðguð ríkisins). Dýrkun Amon-Ra varð svo mikil að það nálgaðist eingyðistrú þegar aðrir guðir voru sagðir birtingarmyndir hans. Á þriðja millitímabilinu ríktu æðstuprestar Amons í Þebu yfir Efra Egyptalandi en átrúnaðinum tók að hnigna eftir því sem völd þeirra minnkuðu á 10. öld f.Kr.

Amon var líka dýrkaður utan Egyptalands. Véfréttir hans voru í Líbýu og í Núbíu og styttur af honum voru reistar í Þebu og Spörtu. Í Grikklandi var hann samsamaður Seifi og kallaður Seifur Ammon. Þar var hann sýndur með hrútshorn.

Ammonía og ammoníti eru orð sem dregin eru af grísku heiti Amons.