Hótel Valhöll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hótel Valhöll árið 2007.

Hótel Valhöll var gistihús á Þingvöllum sem upphaflega var reist árið 1898 við svonefnda Kastala, sem eru hólar niður af gamla veginum sem liggur úr Almannagjá. Veturinn 1928-1929 var húsið hlutað sundur og dregið á sleðum vestur yfir Öxará í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Í áranna rás var byggt við hótelið og það endurbætt. Hótelið stóð gegnt Þingvallakirkju og Þingvallabænum. Það brann til kaldra kola þann 10. júlí 2009.

Hið upphaflega hótel Valhöll teiknaði Sigfús Eymundsson bóksali og var það reist við Kastala. Tvisvar var byggt við húsið á þeim stað og einnig voru reist tvö minni hús til viðbótar í grendinni tengd því. Í upphafi þriðja áratugar 20. aldar var byrjað að ræða um að færa hótelið, enda þótti hótelið ekki augnayndi þar sem það stóð og auk þess mjög „illa byggt“, „óvandað í alla staði“ og „svefnherbergin flest óboðleg til gistingar þeim sem góðum húsum eru vanir“, að áliti Þingvallanefndar árið 1925. Árið 1930 var hótelið svo endurreist gegnt Þingvallakirkju og Þingvallabæ.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.