Bandamenn (seinni heimsstyrjöldin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hinir „þrír stóru“: Jósef Stalín, Franklin D. Roosevelt og Winston Churchill, leiðtogar bandamanna í heimsstyrjöldinni.

Bandamenn í Síðari heimsstyrjöldinni voru þau ríki sem börðust gegn Öxulveldunum. Til bandamanna teljast aðallega Bretland, Frakkland, Sovétríkin, Kína og Bandaríkin en fleiri smærri þjóðir voru líka hluti af bandalaginu.

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1904 höfðu Frakkland og Bretland gengið í hernaðarbandalag sem var í fullu gildi við upphaf Seinni heimsstyrjaldarinnar. Á fjórða áratugnum voru blikur á lofti í evrópskum stjórnmálum. Ríkisstjórnir Breta og Frakka óttuðust báðar aukinn hernaðarmátt Þýskalands og höfðu fullan hug á að standa saman ef til stríðs við Þjóðverja kæmi.

Frakkar voru líka bandamenn Pólverja. Bretar og Pólverjar voru ekki í bandalagi en forsætisráðherra Bretlands, Neville Chamberlain, hafði heitið Pólverjum stuðningi, ef Þjóðverjar réðust á þá. Sovétmenn höfðu á árinu 1939 gert samning við Þjóðverja um að ríkin tvö myndu ekki ráðast á hvort annað.

Bandamenn í stríðinu[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Þjóðverjar réðust á Pólland þann 1. september 1939 stóðu Bretar og Frakkar við skuldbindingar sínar gagnvart Pólverjum og sögðu Þjóðverjum stríð á hendur á næstu dögum. Margar nýlendur Breta sögðu Þjóðverjum sömuleiðis stríð á hendur fáum dögum síðar.

Það reyndist Þjóðverjum auðvelt að hernema Pólland og hvorki Bretar né Frakkar veittu Pólverjum neinn verulegan hernaðarstuðning í baráttu þeirra Þjóðverja.

Bretar sendu her til Frakklands til að hjálpa Frökkum að verjast hugsanlegri þýskri innrás en þegar sú innrás kom reyndust franski og breski herinn þess lítt megnugir að stöðva Þjóðverja. Frakkland beið mikinn ósigur og ríkisstjórn Frakklands gafst upp. Hópur franskra herforingja fór í útlegð til Lundúna þar sem þeir mynduðu útlagastjórn.

Eftir að Þjóðverjar réðust á Sovétríkin 1941 hófu Bretar og Sovétmenn náið samstarf gegn Þýskalandi. Bandaríkjamenn voru hlutlausir fyrstu mánuði stríðsins en höfðu þá stutt Breta og síðar Sovétmenn leynt og ljóst. Eftir að stríð Bandaríkjamanna við Japani hófst tóku þeir að beita sér beint gegn Japan og Þýskalandi og bandamönnum þeirra.

Ríki sem á einhverjum tímapunkti voru hluti af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni[breyta | breyta frumkóða]

Bandamenn í grænum lit, Öxulveldin í bláum. Ríki sem gengu í lið með bandamönnum eftir árásina á Perluhöfn eru í ljósgrænum lit.

Fyrir utan þau ríki sem komu fram áður eru mjög mörg sem teljast hluti af bandamönnum. Þess ber þó að geta að eftir að ljóst var orðið að Þjóðverjar myndi tapa stríðinu í Evrópu og Japanir í Kyrrahafi og ákveðið hafði verið a stofna Sameinuðu þjóðirnar voru sett þau inngönguskilyrði að viðkomandi ríki lýsti Öxulveldunum stríð á hendur. Flest löndin á listanum lögðu ekkert fram til stríðsrekstursins.