Árásin á Perluhöfn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Árásin á Pearl Harbor)
Mynd tekin út japanskri flugvél.

Árásin á Perluhöfn var skyndiárás sem Japanir gerðu á Perluhöfn, flotastöð bandaríska hersins á Hawaii þann 7. desember 1941. Ágreiningur milli þjóðanna hófst þegar Japanir réðust inn í Kína árið 1937 og Bandaríkjamenn sendu vopn til Kína til að reyna að hjálpa þeim að verjast innrás Japana. Reynt var að semja um frið en þegar samningaviðræður sigldu í strand hófu Japanir að skipuleggja árás á bandaríska flotann því þeir stefndu að því að verða stórveldi við Kyrrahafið. Vopn voru sérútbúin og flugmenn og sjóliðar sérstaklega þjálfaðir fyrir árásina.

Í árásinni á Perluhöfn náðu Japanir að eyðileggja 188 flugvélar bandaríska hersins og skemma 159, einnig sökktu þeir eða ollu stórtjóni á 18 herskipum. Afleiðingar árásarinnar voru þær að Bandaríkjamenn voru nú orðnir þátttakendur í seinni heimsstyrjöldinni og hefndu sín á Japönum í orrustunni við Midway og með því að sprengja tvær kjarnorkusprengur yfir japönsku borgunum Hiroshima, þar sem rúmur þriðjungur íbúa lét lífið, og Nagasaki.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Reykur stígur frá orrustuskipum bandaríska flotans.

Aðdraganda árásar Japana á Perluhöfn má rekja til ársins 1937, þegar Japanir réðust inn í Kína og stríð braust út, Vesturveldin studdu Kína í stríðinu og sendu þeim vopn sem gerði innrásina miklu erfiðari fyrir Japan.[1] Japanir reyndu að stöðva vopnasendingar Vesturveldanna til Kína með því að leggja undir sig frönsku nýlendurnar í Indókína en núna heita þær Víetnam, Laos og Kambódía. Á sama tíma gengu þeir í bandalag með Öxulveldunum Þýskalandi og Ítalíu. Bandaríkin, Bretland og Holland eða hin svokölluðu Vesturveldi svöruðu með því að banna allan innflutning á olíu til Japans.[2]

Í ágúst árið 1941 sendu Japanir beiðni um að halda samningafund með Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna til að reyna leysa þennan ágreining, en svar Roosevelt við fundarbeiðninni var á þann hátt að ef hann skyldi mæta á fund með Japönum þyrftu þeir fara með her sinn burt úr Kína. Japanir tóku það ekki í mál og virtist nú fátt geta stöðvað stríð milli þjóðanna. Það var svo ekki löngu síðar eða í byrjun nóvem er Hirohito Japanskeisari lýsti yfir stríði gegn Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi.[3]

Undirbúningur[breyta | breyta frumkóða]

Japan hafði stefnt að því í einhvern tíma að verða stórveldi við Kyrrahafið og var Bandaríski flotinn mikil ógn við áætlunum þeirra. Þess vegna ákváðu þeir að fyrsta skref stríðs væri að ráðast á Bandaríska flotann.[4]

Japanir voru í raun búnir að undirbúa sig fyrir árásina á Perluhöfn áður en samningarviðræður sigldu í strand og lýst var yfir stríði. Allir þátttakendur árásarinnar, flugmenn og sjóliðar, fengu sérstaka þjálfun bara fyrir þessa árás. Einnig voru sérútbúin vopn sem hentuðu vel fyrir aðstæður eins og var í Perluhöfn.[5]

Til að vekja sem minnstar grunsemdir fóru öll skipin úr höfn eitt og eitt í einu úr höfn frá Japan, en notaður var stærstur hluti flota Japana í árásinni og samanstóð árásarfloti þeirra af sex flugmóðurskipum, sem alls fluttu 432 flugvélar, tveimur tundurspillum, þremur kafbátum og átta olíuskipum. Kom flotinn sér svo fyrir 1.600 km norðan við Hawaii. Það var þann 1. desember að yfirvöld í Japan komust að þeirri niðurstöðu að árásin yrði að veruleika og var hún dagsett þann 7. desember, á sunnudegi sem þýddi að margir hermenn voru í leyfi og menn áttu síst von á.[6]

Árásin[breyta | breyta frumkóða]

Sprengja springur í vopnageymslu orrustuskipsins Arizona

Árás Japanska flotans hófst klukkan 06:00 með því að flugvélar fyrri árásarhrinu hófu flugtak, klukkan var svo um 07:55 þegar fyrstu flugvélarnar komu að höfninni. Þar skiptu hópurinn sem samanstóð af 183 flugvélum sér í tvennt og fór annar hópurinn beint að flugvélum bandaríska hersins til að koma í veg fyrir að þeir gætu varið sig í loft, hinn hópurinn fór beint að skipaflota Bandaríkjamanna. Með seinni árásahrinunni meðtalinni sem saman stóð af 170 flugvélum náðu Japanir á rúmlega einni klukkustund og fjörtíu og fimm mínútum að eyðileggja 188 flugvélar Bandaríska hersins og skemma 159, einnig sökktu þeir eða ollu stórtjóni á 18 herskipum.

Í árásunum fórust alls 2.403 Bandaríkjamenn, þar af fórust 1.177 bandarískir sjóliðar þegar sprengja sprakk í vopnageymslu orrustuskipsins Arizona. Sprengingin var svo öflug að brak úr skipinu dreifðist um höfnina og höggbylgjan fannst í mörg hundruð metra fjarlægð. Hinsvegar misstu Japanir aðeins 29 flugvélar og nokkra kafbáta.[7]

Klukkan 11:00 lenti Mitsuo Fuchida flugstjórinn sem stjórnaði fyrstu árásahrinunni á flugmóðurskipinu Akagi, og vildi hann halda árásinni áfram og senda þriðju árásahrinuna af stað og klára árásina fullkomlega, því enn voru mikilvæg svæði ennþá heil, svo sem slippurinn, eldsneytisbirgðastöðin og rafstöðvar hafnarinnar. Yfirmenn japanska flotans ákváðu hins vegar að láta þar við standa og voru ánægðir með árangur árásarinnar, jafnvel þótt mikilvægustu skip bandaríska flotans hefðu ekki verið í höfn eins og áætlað var. Voru það flugmóðurskip tvö sem áttu eftir að gegna stóru hlutverki í komandi orrustum við Japani.[8]

Afleiðingar[breyta | breyta frumkóða]

Degi eftir árásina á Perluhöfn, þann 8. desember 1941, skrifaði Franklin D. Roosevelt undir stríðsyfirlýsingu gegn Japönum og var strax hafist handa við að skipuleggja árás gegn Japönum og var hún gerð hálfu ári síðar í orrustunni við Midwayeyju. Þó að Bandaríkjamenn hafi stutt Bandamenn í seinni heimstyrjöldinni með hergögnum, má segja að ástæðan fyrir því að þeir tóku þátt í seinni heimstyrjöldinni beint, sé að mestu leyti útaf árásinni á Perluhöfn.[9]

Í ágústmánuði árið 1945 sprengdu Bandaríkjamenn tvær kjarnorkusprengjur í Japan, sú fyrri yfir Hiroshima og sú seinni yfir Nagasaki. Rúmur þriðjungur íbúa í Hiroshima létu lífið eða særðust í sprengjunni og til viðbótar komu hinar varanlegu afleiðingar geislavirkninnar. Sama morgun réðust sovéskar hersveitir inn í Mandsjúríu og í kjölfarið gáfust Japanir upp.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sagan öll, 29; Skúli Sæland.
  2. Poulsen, 210-211; Sagan öll, 29; Skúli Sæland.
  3. Poulsen, 210-211; Sagan öll, 29.
  4. Jordan og Wiest, 175; Skúli Sæland.
  5. Skúli Sæland.
  6. Jordan og Wiest, 175; Skúli Sæland.
  7. Sagan öll, 24; Zich, 55-57.
  8. Sagan öll, 25; Skúli Sæland.
  9. Poulsen, 213; Sagan öll, 26.
  10. Poulsen, 260; Sagan öll, 27.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Pearl Harbor attack.“ Encyclopædia Britannica Online. 2011. http://www.britannica.com/EBchecked/topic/448010/Pearl-Harbor-attack. (Skoðað. 29.1.2011.)
  • Jordan, David og Andrew Wiest. 2004. Atlas of World War II: over 160 detailed battle & capain maps. London: Amber Books Ltd.
  • Poulsen, Henning. 1995. Saga mannkyns: Stríð á stríð ofan 1914-1945, ritröð AB. 13. bindi. Gunnar Stefánsson íslenskaði. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
  • Pearl Harbor: árás Japana á flotastöð Bandaríkjamanna. 2010. Sagan öll. 2: 22-29.
  • Skúli Sæland. „Hvað gerðist í Perluhöfn (Pearl Harbor) í seinni heimsstyrjöldinni?“.Vísindavefurinn 11.9.2003. http://visindavefur.is/?id=3727. (Skoðað 28.1.2011).
  • Zich, Arthur. 1980. Heimsstyrjöldin 1939 – 1945. Sókn Japana. Björn Bjarnason íslenskaði. Reykjavík: Almenna bókafélagið.