Árnýöld
Útlit
Árnýöld er heiti sem sagnfræðingar nota stundum yfir ákveðið tímabil í sögu Vestur-Evrópu og fyrstu evrópsku nýlendnanna og nær yfir þrjár aldir frá lokum miðalda fram að iðnbyltingunni. Þetta tímabil einkennist af síauknu mikilvægi raunvísinda, uppgangi fyrstu kapítalísku hagkerfanna og þjóðríkishugmynda. Tímabilið nær yfir síðari hluta endurreisnarinnar, siðbreytinguna og upplýsinguna.
Mismunandi höfundar telja ólíka atburði marka upphaf árnýaldar. Þeir helstu eru:
- 1447 - Johann Gutenberg fann upp prentverkið.
- 1453 - Tyrkjaveldi lagði Konstantínópel undir sig. Formleg endalok Rómaveldis.
- 1485 - Síðasti Englandskonungur af Plantagenet-ættinni, Ríkharður 3., var drepinn og Túdorættin komst til valda.
- 1492 - Kristófer Kólumbus kom til Ameríku.
- 1494 - Karl 8. Frakkakonungur réðist inn í Ítalíu og hóf þannig röð styrjalda sem einkenndu ítölsku endurreisnina.
- 1513 - Furstinn eftir Niccoló Machiavelli kom út.
- 1517 - Siðbreytingin hófst.
- 1545 - Kirkjuþingið í Trentó markar endalok miðaldakirkjunnar í kaþólskum löndum.
Lok tímabilsins eru yfirleitt miðuð við frönsku byltinguna 1789 eða upphaf iðnbyltingarinnar um aldamótin 1800.