Fara í innihald

Walt Rostow

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Walter Rostow)
Walt Rostow
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna
Í embætti
1. apríl 1966 – 20. janúar 1969
ForsetiLyndon B. Johnson
ForveriMcGeorge Bundy
EftirmaðurHenry Kissinger
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. október 1916
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
Látinn13. febrúar 2003 (86 ára) Austin, Texas, Bandaríkjunum
MakiElspeth Davies
Börn2
MenntunYale-háskóli (BA, MA, PhD)
Balliol College, Oxford (BLitt)

Walt Whitman Rostow (7. október 1916 – 13. febrúar 2003) var bandarískur hagfræðingur, prófessor og stjórnmálafræðingur. Hann skrifaði 34 bækur á sínum ferli og óhætt að segja að sú þekktasta hafi verið The Stages of Economic Growth: A Non-Communist Manifesto (1960), en hún var notuð á sviði félagsvísinda.[1]

Í seinni heimsstyrjöldinni starfaði hann fyrir Office of Strategic Services (síðar nefnt CIA) í Washington og var síðar ráðgjafi fyrir utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og ræðuritari forsetans John F. Kennedy frá 1961 til 1963 og síðar Lyndon B. Johnson, forseta Bandaríkjanna frá 1966 til 1969. Kenningar Rostow voru álitlegar í augum margra embættismanna á tímum Johnson- og Kennedy-stjórnanna sem mögulegt mótsvar við auknum vinsældum kommúnisma í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. Hann var áberandi fyrir hlutverk sitt í mótun utanríkisstefnu Bandaríkjanna í Suðaustur-Asíu á sjöunda áratugnum.[2]

Rostow er þekktur fyrir að hafa trúað á virkni kapítalisma og studdi hann við bandaríska hernaðarþátttöku í Víetnamstríðinu og taldi það mikilvægt að stöðva áframhaldandi uppgang kommúnismans með valdi ef á því þyrfti að halda. Rostow sá aldrei eftir afstöðu sinni og þáttöku í innrás Bandaríkjanna í Víetnam. Hann baðst aldrei afsökunar á gjörðum sínum sem reyndist vegartálmi milli hans og starfa í virtum bandarískum háskólum eftir að hann hafði lokið störfum hjá ríkinu. [3]

Walt Whitman Rostow fæddist í New York inn í gyðinga innflytjendafjölskyldu af rússneskum uppruna en hann var skírður í höfuðið á Walt Whitman, sem er af mörgum talinn eitt áhrifamesta skáld sem bandaríkin hafa átt.[4] Faðir Walt, Victor Rostowsky tók þátt í rússnesku sósíalistahreyfingunni sem ungur maður og gaf hann út vinstri sinnað dagblað úr kjallara heimilis síns þar sem krafist var að Nikulási II keisara yrði steypt úr stóli. Árið 1904 þá aðeins 18 ára gamall sigldi Victor um borð á skipi frá heimabæ sínum Odessa til Glasgow og þaðan til New York, þar sem hann settist að og „amerískaði“ eftirnafn sitt í Rostow.[5] Þann 22. október 1912 giftist hann Lillian Helman, hæfileikaríkri dóttur rússneskra gyðingainnflytjenda sem þráðu að fara í háskóla, en þar sem fjölskylda hennar var of fátæk til að hafa efni á háskólanámi, hvatti hún syni sína til að afla sér æðri menntunar sem hún vildi sjálf.[5]

Námsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Walt gekk í Yale háskóla og fékk B.A. gráðu árið 1936. Eftir útskrift hélt Rostow áfram námi sínu, fyrst sem Rhodes-fræðimaður við Baillol College, Oxford háskóla, árin 1936-1938, og síðar sem framhaldsnemi við Yale háskóla, árin 1938-1940. Eftir að hafa hlotið Ph.D. í hagfræði frá Yale háskóla árið 1940 kenndi Rostow í eitt ár sem kennari í hagfræði við virta Columbia háskólann.[6]

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Bandaríkin lýstu yfir stríði á hendur Japan í kjölfar árásinnar á Perluhöfn (e. Pearl Harbor) í desember 1941, og blönduðu sér þar með í seinni heimsstyrjöldina, hóf Rostow störf fyrir OSS (Office of Strategic Services) sem var þá undir forystu William Joseph Donovan. Í verkahring Rostow var meðal annars að velja skotmörk fyrir bandarískar sprengjuárásir.

Að seinni heimstyrjöldinni lokinni kenndi hann bandaríska sögu í eitt ár við Cambridge háskóla og Oxford háskóla í Englandi. Hann tók svo við stöðu prófessors í sögu hagfræðinnar (e. economic history) við Tækniháskólann í Bandaríkjunum, betur þekktur sem Mississippi Institute of Technology, og sinnti því starfi frá árunum 1950 til 1961. Það var einmitt þar sem hann skrifaði sína merkustu bók, The Stages of Economic Growth. Rostow var skipaður í stöðu aðstoðarmanns þjóðaröryggisráðgjafa (e. deputy national security advisor) af John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna, árið 1961 en hann gerðist síðan forseti State Department‘s Policy Planning Council innan árs og hélt þeirri stöðu til ársins 1966. Þá skipaði Lyndon B. Johnson, forseti Bandaríkjanna á þeim tíma, hann í stöðu þjóðaröryggisráðgjafa en þar var hann ábyrgur fyrir stefnumyndun Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu.[7] Stefnumyndun og hlutverk Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu breyttust mikið frá upphafi stríðsins árið 1955 og fram til að því lauk árið 1973.

Framlag til hagfræðinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Hagvaxtarstig Rostows

[breyta | breyta frumkóða]

Hagvaxarstig Rostow (e. Rostow‘s stages of growth) er hagfræðilegt líkan sem reynir að útskýra hvernig efnahagslegur vöxtur allra samfélaga á sér stað. Rostow þrepaskiptir efnahagslegum vexti þjóða og samfélaga í fimm þrep. Þau eru:

  1. Hið hefðbundna þjóðfélag (e. Traditional society)
  2. Forsendur flugtaks (e. Preconditions for take-off)
  3. Flugtakið (e. Take-off)
  4. Drifið til fullvaxtar (e. Drive to maturity)
  5. Tími mikillar fjöldaneyslu (e. Age of High mass consumption)

Rostow hélt því fram að þjóðir fari þessi þrep á nokkuð línulegan máta og setti fram skilyrði sem væru líkleg til þess að eiga sér stað á hverju þrepi. Þau eru fjárfesing, neysla og félagslegur tíðarandi (e. social trend). Ekki er öruggt að allir þessir þættir komi við sögu á hverju þrepi og jafnramt er mismunandi eftir þjóðum, og jafnvel svæðum, hversu löngum tíma þær dvelja á hverju þrepi og tími breytingaskeiðsins er misjafnt.[8]

Í líkani Rostow talar hann um efnahagslegt flugtak sem mikilvægan þátt í vexti þjóða. En það þarf upphaflega að byggjast á nokkrum vel völdum atvinnugeirum. Þar finnur hann sameiginlegan grundvöll með David Ricardo og kenningum hans um hlutfallslega yfirburði en á sama tíma fer hann á skjön við kenningar Karl Marx um efnahagslega sjálfbærni þjóða.

Áhrif kenningar Rostows

[breyta | breyta frumkóða]

Framlag Walt Rostow til þróunarrannsókna, sérstaklega í gegnum The Stages of Economic Growth, hefur verið hælt og gagnrýnt. Hann lagði til að samfélög þróuðust í gegnum mismunandi línuleg stig sem leiða til iðnvæðingar, með sérstakri áherslu á skynsamlega ákvarðanatöku. Hins vegar hafa þessar hugmyndir staðið frammi fyrir gagnrýni frá fræðimönnum eins og Gunder Frank, sem benti á takmarkanir þess við að takast á við margbreytileika þróunar á mismunandi svæðum. Gagnrýnendur hafa bent á hugsanlega þjóðernishyggju í líkani Rostows, sem bendir til þess að hún gæti verið undir miklum áhrifum frá efnahagslegum ferli Bandaríkjanna og því ekki almennt við hæfi þegar litið er til annara ólíkra þjóða í öðruvísi umhverfi. Annað ágreiningsefni er áhersla Rostow á efnahagslega þætti sem aðal drifkrafta þróunar. Þó að hann viðurkenndi tilvist óefnahagslegra hvata, hélt hann því fram að ákvarðanir væru almennt að miklu leyti undir áhrifum efnahagslegra áhrifa þeirra. [9]

Út frá kenningum Rostow áttu forsvarsmenn stefnugerðar í Bandaríkjunum að geta flýtt fyrir þróun þróunarlanda með því að aðstoða þau við að tileinka sér gildi frjálslynds og lýðræðislegs kapítalisma í stað sósialsisma og kommúnisma. Þessum hugmyndum hans var hrint í framkvæmd til að mynda í ráðagerð Kennedy sem kallaðist Bandalag um framþróun (e. Alliance for Progress) en hún átti að hjálpa til við framþróun latnesku Ameríku. Hins vegar áttuðu forsvarsmenn stefnugerðar í Bandaríkjunum sig fljótt á að alþjóðleg og einsleit túlkun Rostow á þessum vanda gat ekki reynst vera lækning sem hentaði öllum þjóðum til jafns. Af þessum ástæðum reyndist strembið að framfylgja kenningum Rostows í raunveruleikanum.[10]

Niðurstaðan er sú að kenningar Rostows í þróunarfræðum hafa haft áhrif og vakið miklar umræður. Þótt þær hafi að mörgu leyti verið á grundvallarstigi, hefur henni verið mætt með mikilli gagnrýni, sem hefur leitt til ríkari skilnings á margþættu eðli samfélagsþróunar. Það getur verið erfitt að segja til hvort síðustu áratugir hafi staðfest eða hrakið helstu hugtök Rostows sem hann setti fram í áðurnefndri bók sinni, The Stages of Economic Growth. Leiðir þjóða til þróunar hafa verið misjafnar og hafa þær almennt verið minna sjálfvirkar en ella. Tíminn sem þarf til fullrar iðnaðaruppbyggingar hefur reynst lengri í mörgum tilfellum en gert var ráð fyrir. [9]

Þáttaka í opinberu lífi

[breyta | breyta frumkóða]

Walt Rostow hóf störf hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu árið 1945 og gegndi upphaflega hlutverki aðstoðardeildarstjóra í þýsk-austurrískum málum. Síðar lagði hann sitt af mörkum við að búa til Marshall-áætlunina. Árið 1958 hóf Rostow að skrifa ræður fyrir Dwight Eisenhower, sem þá var forseti Bandaríkjanna.

Kennedy-stjórnin

[breyta | breyta frumkóða]
John F. Kennedy hittir þingmenn. Walt W. Rostow er fjórði til vinstri.

Í kosningabaráttunni 1960 var Rostow lykilráðgjafi í utanríkisstefnu frambjóðanda demókrata, John F. Kennedy en þeir höfðu þekkst síðan 1958. Í kosningabaráttu Kennedy var Rostow á bak við eftirminnilegt kosningaslagorð Kennedys: „Let's Get This Country Moving Again“ og „The New Frontier“. Frá því um miðjan fimmta áratuginn hafði Kennedy lagt mikla áherslu á utanríkisstefnu og ástríðu fyrir því að sigra kalda stríðið. Sem forseti, deildi Kennedy trú Rostow á getu Bandaríkjanna til að endurmóta þróunarlönd í líkingu við Bandaríkin. Þetta sjónarmið sýndi sig í verkefnum eins og að efla hagvöxt og koma í veg fyrir byltingar í Suður Ameríku. Þessi áhersla varð sérstaklega mikilvæg fyrir Kennedy-stjórnina í kjölfar misheppnaðrar tilraunar hennar til að stöðva byltingarstjórn Fidels Castro í Kúbu.[11]

Fyrir framlag sitt til Kennedy-stjórnarinnar var Rostow skipaður aðstoðarráðgjafi McGeorge Bundy, þjóðaröryggisráðgjafa Kennedys. Hann sneri athygli sinni hratt að Víetnam, sem á seinni hluta fimmta áratugarins var oft skoðað sem vettvangur fyrir Bandaríkin til að undirstrika sín áhrif á ríki í þróun. Rostow var óhagganlegur í skoðun sinni á notkun hermáttar til að standa gegn uppreisnarmönnum og hindra útbreiðslu kommúnismans. Hann taldi að herinn gæti valdið tímabundnum erfiðleikum sem gæfu kommúnistahreyfingum ekki færi á að vaxa og styrkjast og þess vegna væri nauðsynlegt að beita herafla gegn þeim.[12]

Árið 1961 í oktbóber mat Rostow, ásamt Maxwell D. Taylor hvernig ástandið væri í Víetnam. Þeir lögðu til að skipt yrði úr ráðgefandi hlutverki í „takmarkað samstarf“ við Víetnam. Þeir einnig mæltu með aukinni efnahagsaðstoð og stungið var upp á því að senda 8.000 bandaríska hermenn á vettvang. Þó að flestar tillögur þeirra hafi verið samþykktar, var tillaga bardagahersins það ekki.[11]

Johnson-stjórnin

[breyta | breyta frumkóða]
Forseti Lyndon B. Johnson og Walt Rostow

Eftir morðið á Kennedy var það Lyndon B. Johnson sem tók við forseta sætinu. Lyndon fékk Walt Rostow til að taka við af McGeorge Bundy eftir að Rostow var höfundur að ræðu Johnsons á Stöðu ríkjasambandsins. Þó Kennedy hafi að mestu hlustað á ráðleggingar Rostows byrjaði Johnson að meta framlag hans, sérstaklega eftir að Rostow skrifaði greinargerð í febrúar 1964 þar sem hann mældi með því að markviss loftárás gegn Norður-Víetnam gæti ein og sér tryggt sigur í stríðinu. Þetta var í andstöðu við afstöðu William H. Sullivan, sendiherra Bandaríkjanna í Laos, sem sama mánuð taldi slíka árás ekki líklega til að skila árangri, meðal annars vegna innri styrks Viet Cong. Rostow gagnrýndi skoðun Sullivans harkalega, hélt því fram að Viet Cong væri eingöngu við lýði vegna aðstoðar frá Norður-Víetnam og neitaði fyrir að þeir byggju yfir neinum stuðningi innan Suður-Víetnams. Rostow var algjörlega andvígur þeirri hugmynd að kommúnismi gæti haft einhverja aðlaðandi krafta fyrir nokkurn hluta íbúa Suður-Víetnams, og hélt því fram að átökin væru ekki borgarastyrjöld, heldur beinir árekstrar milli Norður- og Suður-Víetnams. Rostow þjónaði undir Johnson frá 1966 til 1969 og hélt áfram að hafa áhuga á þróunarlöndum og á því hvernig Bandaríkin gætu haft áhrif þar, rétt eins og hann hafði gert meðan hann starfaði fyrir Kennedy-stjórnina.[5]

Aðkoma að Víetnamstríðinu

[breyta | breyta frumkóða]

Kenningar Walters Rostow um efnahagslega þróun og embættistími Lyndon B. Johnson áttu sinn þátt í stefnumótun og hlutverk Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu. Þessar hugmyndir voru byggðar á sannfæringunni um að styrking efnahagslegs vaxtar og pólitísks stöðugleika í Suður-Víetnam myndi draga úr freistingum kommúnismans og hindra útbreiðslu uppreisnarhreyfinga eins og Viet Cong, sem naut stuðnings frá Norður-Víetnam. Ein af lykilhugmyndum í stefnu Rostows, sem Johnson síðan framkvæmdi, var kenningin um hagvaxtarskeið. Samkvæmt henni færu samfélög í gegnum ákveðin áfangaskipt stig í hagvexti, þróuðust frá hefðbundnum samfélögum og yfir í nútímasamfélög. Hugmyndin var sú að með því að örva efnahagslega þróun gætu samfélög orðið stöðugri og minna næm fyrir áhrifum kommúnismans.

Efnahags- og hernaðaraðstoð, þar sem að Bandaríkin veittu ríkisstjórn Suður-Víetnam umtalsverðan hernaðarlegan stuðning sem faldi í sér fjármagn til uppbyggingar innviða.[13] Bandaríkin studdu áætlun um að vinna tryggð landsbyggðarfólks þar sem sveitaþorp voru flutt og víggirt til að vernda þau gegn áhrifum frá Víet Kong .[14] Borgaralegur rekstur og byltingarkenndur þróunarstuðningur (CORDS) var alhliða áætlun miðuð að því að samræma og innleiða ýmsa þætti bandarísku stefnunnar svo sem borgaraleg málefni og dreifbýlisþróunaraðgerðir.[15] Bandaríkjamenn fóru einnig í herferð með það að sjónarmiði að vinna hug og hjörtu víetnömsku þjóðarinnar með t.d. bætingu lífsgæða, með það til hliðasjónar að draga úr stuðningi við Víetkong.[16]

Auk þessara kenninga og herferða sem Bandaríkin fóru í með Walt Rostow og Lyndon B. Johnson í forystu, fjölgaði Johnson bandarískum hermönnum sem sendir voru til Víetnam til stuðnings við hersveitir Suður-Víetnams ásamt þess að stunda umfangsmiklar sprengjuherferðir gegn Norður-Víetnam til að veikja getu norðursins til að styðja Víet Kong og þrýsta til samningaviðræðna.[17]

Þrátt fyrir þessar aðgerðir varð Víetnamstríðið langvarandi og dýrt fyrir Bandaríkjamenn, og stefnur sem Rostow og Johnson settu fram náðu ekki að skila þeim árangri sem stefnt var að í upphafi. Á endanum, árið 1973, hörfaði bandaríski herinn frá Víetnam og stríðinu lauk með því að Víetnam var sameinað undir kommúnískri stjórn árið 1975, þrátt fyrir viðleitni Rostow og Johnson til að forðast þann úrslitakost.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „About: Walt Rostow“. dbpedia.org. Sótt 9. september 2023.
  2. „Rostow, W. W. (Walt Whitman), 1916-2003 - Social Networks and Archival Context“. snaccooperative.org. Sótt 9. september 2023.
  3. „About: Walt Rostow“. dbpedia.org. Sótt 9. september 2023.
  4. „Rostow, W. W. (Walt Whitman) | Wilson Center Digital Archive“. digitalarchive.wilsoncenter.org. Sótt 9. september 2023.
  5. 5,0 5,1 5,2 Milne, David (2008). America's Rasputin: Walt Rostow and the Vietnam War (1st ed. útgáfa). New York, NY: Hill and Wang. ISBN 978-0-374-10386-6.
  6. „Walt Whitman Rostow | Encyclopedia.com“. www.encyclopedia.com. Sótt 22. september 2023.
  7. „Walt Rostow | Wilson Center“. www.wilsoncenter.org (enska). Sótt 22. september 2023.
  8. Rostow, W. W. (1959). „The Stages of Economic Growth“. The Economic History Review. 12 (1): 1–16. doi:10.2307/2591077. ISSN 0013-0117.
  9. 9,0 9,1 Solivetti, Luigi M. (2020). „W.W. Rostow and His Contribution to Development Studies: A Note“. SSRN Electronic Journal. doi:10.2139/ssrn.3738937. ISSN 1556-5068.
  10. Kimber Charles Pearce (1999). „Narrative Reason and Cold War Economic Diplomacy in W. W. Rostow's Stages of Economic Growth“. Rhetoric & Public Affairs. 2 (3): 395–414. doi:10.1353/rap.2010.0140. ISSN 1534-5238.
  11. 11,0 11,1 „Rostow, Walter Whitman ("Walt") | Encyclopedia.com“. www.encyclopedia.com. Sótt 6. október 2023.
  12. „Walt Rostow | Wilson Center“. www.wilsoncenter.org (enska). Sótt 6. október 2023.
  13. Emily Vega. „Friend or Foe: Failings of the United States' Modernization Theory in Vietnam“ (PDF). Sótt 3. nóvember 2023.
  14. „Strategic Hamlet Program“, Wikipedia (enska), 18. september 2023, sótt 6. október 2023
  15. „CORDS: A New Pacification Program for Vietnam – Association for Diplomatic Studies & Training“. adst.org. Sótt 6. október 2023.
  16. Ngo Vinh Long (27.júni 2014). „Hearts and Minds: Moving the People“. The Criterion Collection. Sótt 3. nóvember 2023.
  17. Col Anthony C. Cain (2005). „Vietnam 1964-65: Escalation versus Vietnamization“ (PDF). Air University Maxwell AFB. Sótt 3. nóvember 2023.