Orrustan við Dybbøl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Barist við Dybbøl

Orrustan við Dybbøl (danska: Slaget ved Dybbøl) var eina orrustan í þýsk / danska stríðinu 1864 en henni töpuðu Danir. Barist var um yfirráðin yfir héraðinu Slésvík sem Danir höfðu áður innlimað. En fyrir vikið innlimuðu prússar héraðið.

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

Héraðið Slésvík var í gegnum aldirnar nyrsta svæði þýska ríkisins. Á hinn bóginn voru Danakonungar hertogar héraðsins. Í raun má segja að stjórnkerfið væri í höndum Danakonunga en skatturinn rann til keisarans. Í þjóðarvakningunni á 19. öld kröfðust þýskumælandi íbúar héraðsins sameiningu við þýska ríkið, það er að segja Prússland. Kristján IX Danakonungur ásældist að sama skapi héraðið og neitaði íbúum réttinn um kosningu. Aftur á móti löggilti hann dönsk lög í héraðinu, þrátt fyrir að Slésvík og Holtsetaland voru meðlimir í þýska sambandinu. Þetta gat Bismarck kanslari ekki sætt sig við. Hann setti Dönum úrslitakosti um að leyfa kosningu og taka lögin aftur. Þegar því var ekki sinnt sögðu Prússland og Austurríki Dönum stríð á hendur. Fram kemur í bók Sverris Kristjánssonar sagnfræðings að í örvæntingarfullri tilraun Dana við að halda í Slésvík hafi þeir boðið Bismarck að skipta á Íslandi og hluta af Slésvík, en því var hafnað.

Orrustan[breyta | breyta frumkóða]

Þegar úrslitakostum Bismarcks var ekki sinnt fóru prússneskir og austurrískir herir yfir ána Egðu, sem þá markaði landamæri ríkjanna. Þetta gerðist 1. febrúar 1864. Austurríkismenn áttu að ráðast á Dani við Danavirki en Prússar að sneiða framhjá og ráðast á Dani að aftan. Þetta misheppnaðist þar sem danski herforinginn sá hvað verða vildi og veik með danska herinn á eyjuna Als. Ekki þótti ráðlegt að elta Dani þangað sjóleiðina. Prússar gengu því landleiðina áleiðis til Sønderborg, sem liggur við sundið til Als. Á meðan bjuggu Danir sig undir orrustu við Dybbøl, rétt vestan við Sønderborg. Prússar komu þangað 7. febrúar og urðu einhverjar skærur milli herjanna. Þegar Austurríkismenn voru komnir á vettvang hófst stórsóknin 18. apríl. Sameiginlega voru þeir um 37 þúsund talsins, en Danir aðeins um 11 þúsund. Fyrsta sóknin hófst kl. 2 um morguninn með byssuskothríð. Kl. 10 gengu hermenn fram í bardaga og stóð hann til 13:30. Þá gáfust Danir upp. Í orrustunni létust um 1200 Prússar en tæplega 5000 Danir.

Eftirmáli[breyta | breyta frumkóða]

Með sigri Prússa og Austurríkismanna við Dybbøl hertók Bismarck hertogadæmin Slésvík og Lauenburg en Austurríki hlaut Holtsetaland. Á þeim tíma náði Slésvík lengra í norður en í dag. 1867 varð Holtsetaland einnig prússneskt. Það var ekki fyrr en eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri að Danir hlutu norðurhluta Slésvíkur á ný og voru þá sett þau landamæri sem enn eru í gildi í dag.

Annað markvert[breyta | breyta frumkóða]

Dybbøl í dag
  • Í orrustunni við Dybbøl var Rauði krossinn í fyrsta sinn viðstaddur stríðsátök.
  • Eftir sigurinn reistu Prússar minnisvarða við Dybbøl en danskir andspyrnumenn sprengdu hann í loft upp átta dögum eftir lok heimstyrjaldarinnar síðari 1945.
  • 18. apríl halda Danir árlega minningarathöfn við Dybbøl til að minnast hinna föllnu í orrustunni. Menn klæðast herklæðum eins og þau voru 1864 og leggja krans við grafir danskra hermanna. Síðan 2002 taka þýskir hermenn þátt í þessari athöfn.
  • Meðan á orrustunni stóð var prússnesk hljómsveit látin spila þýska marsa til hvatningar liði sínu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist