Thor Vilhjálmsson
Thor Vilhjálmsson (fæddur í Edinborg, 12. ágúst 1925 – 2. mars 2011) var íslenskur rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi. Thor var, ásamt Guðbergi Bergssyni og Svövu Jakobsdóttur, talinn einn af höfundum nýju skáldsögunnar í módernískum anda sem kom fram um 1965 á Íslandi. Thor hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þ.á m. hlaut hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1988 fyrir bók sína Grámosinn glóir. Auk þess hefur hann tvisvar verið tilnefndur af íslands hálfu til sömu verðlauna. Árið 1992 hlaut hann Norrænu bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf sín. [1] Thor hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1998 fyrir skáldsöguna Morgunþula í stráum. Hann fékk svo Norðurlandaverðlaun sænsku akademíunnar árið 1992, en þau eru stundum kölluð litlu nóbelsverðlaunin. Verk Thors hafa verið þýdd á fjölmörg erlend tungumál.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Faðir Thors var Guðmundur Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Eimskipafélagsins, sem fæddist á Undirvegg í Kelduhverfi. Móðir hans var Kristín Thors Vilhjálmsson, systir Ólafs Thors forsætisráðherra.[2] Eiginkona Thors var Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri Útvarpsins og áttu þau tvo syni: rithöfundinn og alþingismanninn Guðmund Andra Thorsson og Örnólf Thorsson forsetaritara.
Störf og viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]Thor lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944, stundaði nám við norrænudeild Háskóla íslands 1944-1946, við Háskólann í Nottingham í Englandi 1946-1947 og við Sorbonne-háskóla í París 1947-1952. Thor var bókavörður við Landsbókasafnið 1953-55 og starfsmaður Þjóðleikhússins frá 1956-1959. Hann var einnig leiðsögumaður og fararstjóri Íslendinga erlendis.
Fyrsta bók Thors, Maðurinn er alltaf einn, kom út árið 1950 en hann skrifaði fjölda bóka, skáldsögur, ljóð, leikrit og greinasöfn. Auk þess hafa komið út eftir hann þýðingar úr ýmsum málum, m.a. frönsku, spænsku, portugölsku og ítölsku. Hann fékkst einnig við myndlist, hélt málverkasýningar og skrifaði um íslenska myndlistarmenn, þar á meðal bækur um Jóhannes Kjarval og Svavar Guðnason. Thor var einn af stofnendum menningartímaritsins Birtings 1955 og í ritstjórn þess til 1968.
Árið 1992 sendi Thor frá sér fyrsta bindi endurminninga sinna, Raddir í garðinum og hélt áfram á sömu braut með bókinni Fley og fagrar árar, sem út kom 1996. Hann hlaut tvisvar sinnum bókmenntaverðlaun DV. Árið 1992 hlaut Thor bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar fyrir ritstörf (sem oft eru nefnd Litlu nóbelsverðlaunin). Hann fékk fleiri erlendar viðurkenningar, m.a. er hann varð heiðursborgari í franska bænum Rocamadour, hlaut frönsku orðuna Chévalier de l'art et des lettres og ítalska orðu, Cavaliere dell'Ordine dello Merito.
Stílbrögð Thors
[breyta | breyta frumkóða]Ritstíll Thors var mjög sérstakur og fáum öðrum líkur. Áhrifin eru víða að komin. Thor varð til dæmis fyrir miklum áhrifum frá miðevrópskum rithöfundum og kvikmyndaverkum um miðja 20. öld, en um leið hafði hann tekið við áhrifum úr skáldsögum bandaríska rithöfundarins William Faulkner án þess þó að vera jafn dimmur og jarðbundinn og hann. Stíll Thors hafði líka í sér mark myndlistar því oft er Thor rennandi og flæðandi í lýsingum rétt eins og þegar myndlistarmenn notast við liti og abstrakt myndbyggingu í verkum sínum. Stundum mætti tala um vitundarflæði í stíl Thors, en hann minnti þó lítið á James Joyce eða Samuel Beckett, heldur notaðist hann við sitt eigið séríslenska vitundaflæði, stundum tengt málbeitingu fornsagna Íslendinga, því þó hann láti þessar skynjanir sínar stökkva á milli ólíkra hluta er hann of klassískur í anda til að tapa þræði, ólíkt algjöru vitundarflæði. Thor er líka jafnvel chaplínskur um leið og hann er allt hitt í sömu mund:
Og hann tók sér staf í hönd og svo gengu þau svolítinn spöl um stéttina og hann dró annan fótinn og hún tiplaði stuttum skrefum og náðu takti sem hafði enzt alla ævina, aldrað fólk og orðin svo furðu lík á svipinn, sama glettnin í augunum sem stafaði náttúrlega af því hvað þeim var dillað að hafa trúlofazt daginn áður, lofazt hvort öðru fyrir meira en hálfri öld. Og sólin hlúði að sveipnum í grasinu á túnunum sem náðu alla leið niður á veg og langleiðina að Hamrahlíðinni, og sendi geisla í hárlokkinn sem fauk til á skallanum hans þegar hann tók af sér hattinn og hélt honum einsog kórónu sem maður er ekkert að hampa og hún seildist með sínum stuttu fingrum til að laga lokkinn og strjúka hann yfir skallann meðan hann setti festulegan stút á munninn svo að stuttklippta yfirskeggið hans færðist upp að víðum nösunum og hornin á flibbanum misstu takið á slakri húðinni fyrir neðan sterka hökuna. | ||
— Raddir í garðinum, 1992.
|
Ritstíl Thors er þó ekki hægt að slíta í sundur frá sýn hans á efnið, en sýn hans sjálfs er síkvik og margbrotin, svona eins og margra þeirra meginlandsbúa Evrópu sem fengust við nýskáldsöguna um miðja síðustu öld. Stíll Thors er þó meira í ætt við eldfjall en stórborg, en honum ferst þó jafnvel að lýsa ítölsku smátorgi rétt eins og stórbrotnu íslensku landslagi.
Ritverk
[breyta | breyta frumkóða]Skáldsögur
[breyta | breyta frumkóða]- Fljótt, fljótt sagði fuglinn (1968)
- Óp bjöllunnar (1970)
- Folda: þrjár skýrslur (1972)
- Fuglaskottís (1975)
- Mánasigð (1976)
- Turnleikhúsið (1979)
- Grámosinn glóir (1986)
- Náttvíg (1989)
- Tvílýsi: myndir á sýningu (1994)
- Morgunþula í stráum (1998)
- Sveigur (2002)
Smásögur
[breyta | breyta frumkóða]- Maðurinn er alltaf einn (1950)
- Dagar mannsins (1954)
- Andlit í spegli dropans (1957)
- Skuggar af skýjum (1977)
Ljóð
[breyta | breyta frumkóða]- Ljóð mynd (1982)
- Spor í spori (1986)
- Sporrækt (1988)
- Snöggfærðar sýnir (1995)
- Stríðsmenn andans (1997) (með Tolla)
Leikþættir
[breyta | breyta frumkóða]- Ætlar blessuð manneskjan að gefa upp andann? (1963)
- Allt hefur sinn tíma, (ópr. 1967)
- Vikivaki (óperuhandrit, 1988)
Ferðasögur
[breyta | breyta frumkóða]- Undir gervitungli - ferðaþættir úr Sovétferð (1959)
- Regn á rykið - ferðaþættir og fleira (1961)
- Svipir dagsins og nótt - ferðasaga úr Evrópuferð (1961)
- Hvað er San Marino? - ferðaþættir og fleira (1973)
Greinasöfn
[breyta | breyta frumkóða]- Fiskur í sjó, fugl úr beini (1974)
- Faldafeykir (1979)
- Eldur í laufi (1991)
Þýðingar
[breyta | breyta frumkóða]- Dáið þér Brahms, eftir Francoise Sagan (1959)
- Hlutskipti manns, eftir André Malraux (1983)
- Nafn rósarinnar, eftir Umberto Eco (1984)
- Hús andanna, eftir Isabel Allende (1987)
- Júlíus, eftir Anne-Marie Chapouton (1991)
- Austurlenskar sögur, eftir Marguerite Yourcenar. (Smásögur) (1991)
- Alkemistinn, eftir Paulo Coehlo (1999)
- Lát hjartað ráða för, eftir Susanna Tamaro (1995)
Leikritaþýðingar
[breyta | breyta frumkóða]- Horfðu reiður um öxl, eftir John Osborne (1959)
- Á yztu nöf, eftir Thornton Wilder. (ópr. 1959)
- Saga úr dýragarðinum, eftir Edward Albee. (1963)
- Ótrygg er ögurstund, eftir Edward Albee. (1973)
- Dagleiðin langa inn í nótt, eftir Eugene O'Neill (1983)
Ævisögur
[breyta | breyta frumkóða]- Kjarval (1964)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Norrænu bókmenntaverðlaunin til Thors Vilhjálmssonar; grein í DV 1992
- ↑ Guðmundur Vilhjálmsson; grein í DV 2002
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Thor Vilhjálmsson; af Bókmenntavefnum
- Undir gervitungli; grein í Morgunblaðinu 1960
- Talað við Thor Vilhjálmsson; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1967
- Við suðurgluggann; um Thor Vilhjálmsson; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1970
- Samvizkuspurningar mannkynsins eru allstaðar hinar sömu; grein í Tímanum 1973
- Vangaveltur yfir verkum Thors Vilhjálmssonar; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1975
- Vangaveltur yfir verkum Thors Vilhjálmssonar; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1975
- Klifinn kjölur; um skáldskap Thors Vilhjálmssonar; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1985
- Heimurinn er alltaf einn; grein í Alþýðublaðinu 1995
- Meistari Thor; grein í Morgunblaðinu 1998
- Strákurinn hennar Stínu eða vargur í véum; grein í DV 1992
- Hvar sem andinn kom yfir hann; grein á DV.is 2011 Geymt 10 mars 2011 í Wayback Machine
Verk Thors á netinu