Sr. Hjörleifur Guttormsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Sr. Hjörleifur Guttormsson. Teikning eftir mynd Arngríms málara en hann var tengdasonur Hjörleifs.

Hjörleifur Guttormsson (f. 31. maí 1807 á Hofi í Vopnafirði, d. 1. ágúst 1887 á Lóni í Kelduhverfi) var prestur víða á norðurlandi um miðja 19. öld.

Foreldrar Hjörleifs voru sr. Guttormur Þorsteinsson sem lengi var prestur á Hofi og kona hans Oddný Guttormsdóttir. Hjörleifur varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1832. Hann var vinur og skólabróðir Jónasar Hallgrímssonar sem orti um hann furðulegar vísur „Hjörleifs reiði ríður mér á slig“... Hjörleifur hlaut prestvígslu 8. júní 1835 og gerðist aðstoðarprestur sr. Björns Vigfússonar í Kirkjubæ í Hróarstungu og gekk sama ár að eiga Guðlaugu dóttur hans.

Eftir fjögur ár í Kirkjubæ fluttu þau á Galtastaði ytri og bjuggu þar í 10 ár en í ársbyrjun 1849 var Hjörleifi veittur Skinnastaður í Axarfirði. Þar þjónaði hann í 21 ár, eða til 1870. Síðustu sjö árin embættaði hann einnig á Garði í Kelduhverfi. Eftir þetta flutti hann með skyldulið sitt í Svarfaðardal. Hann var prestur á Tjörn til 1878 en flutti sig þá yfir í Velli og sat þar þangað til hann hætti prestsskap 1884. Sr. Hjörleifur þótti glaðvær maður og jafnlyndur, gestrisinn og vinsæll, kennimaður sæmilegur. Maddama Guðlaug var fædd á Eiðum 1813. Hún var sögð gáfuð rausnarkona, læknir góður og var fræg ljósmóðir. Mest orð fór þó af tónlistargáfum hennar og söngrödd og þótti það lengi koma fram í afkomendum hennar. Hún lést á Tjörn 26. október 1875. Þau hjón áttu átta börn sem á legg komust:

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hjörtur E. Þórarinsson (1992). Tjarnarkirkja 100 ára, 1892-1992. Sóknarnefnd Tjarnarkirkju.
  • Kristján Eldjárn (1983). Arngrímur málari. Iðunn, Reykjavík.