Skandinavíuskagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skandinavíuskaginn)
Stökkva á: flakk, leita
Skandinavía og Fennóskandía

Skandinavíuskagi er skagi á norðurhluta meginlands Evrópu. Skaginn er hluti af Fennóskandíuskaga. Engin gefin mörk eru þar sem Skandinavíuskagi hefst en yfirleitt er hann skilgreindur eftir hugsaðri línu frá Kirkenes í Noregi suður að norðurströnd Helsingjabotns. Þar með lendir rák af Finnlandi á skaganum. Annars eru það Noregur og Svíþjóð sem skipta skaganum á milli sín.

Skandinavíuskagi er um 1850 km að lengd og milli 370 og 805 km að breidd og um 770 000 km² að flatarmáli. Skaginn er umlukinn hafi nema þar sem hann tengist Kólaskaga. Að norðan liggur Barentshaf; að vestan Noregshaf; að suðvestan Norðursjór ásamt Kattegat og Skagerrak; að austan Eystrasalt með Botníuflóa.

Mikill fjallgarður, Skandinavíufjöll, gengur suður allan skagann og er hann hæstur vestanmegin, á landsvæði Noregs. Hæstu tindar eru Glittertind sem er 2.470 m að hæð og Galdhøpiggen sem er 2.469 m að hæð. Stærsti jökull á meginlandi Evrópu er Jostedalsbreen í Noregi. Um fjórðungur skagans er norðan við heimskautsbaug. Nyrsti oddi skagans er Nordkapp í Finnmörku og sá syðsti er Smygehuk á Skáni.