Skandinavíuskaginn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Skandinavíuskagi í samhengi við Fennóskandíuskagann

Skandinavíuskaginn er skagi út frá norðausturhluta meginlands Evrópu. Skaginn er hluti af Fennóskandíuskaganum. Engin gefin mörk eru þar sem Skandinavíuskagi hefst en yfirleitt er það skilgreint eftir hugsaðri línu frá Kirkenes í Noregi suður að norðurströnd Botníuflóa. Þar með lendir rák af Finnlandi á skaganum. Annars er það Noregur og Svíþjóð sem skipta skaganum á milli sín.

Skandinavíuskagi er um 1 850 kílómetra langur og milli 370 og 805 kílómetra breiður eða um 770 000 km². Skaginn er umlukinn hafi nema þar sem hann tengist inn á Kolaskaga. Að norðan Barentshaf; að vestan Noregshaf; að suðvestan Norðursjór ásamt Kattegat og Skagerak; að austan Eystrasalt með Botníuflóa.

Mikill fjallgarður gengur suður allan skagann og er hann hæstur vestanmeginn, á landsvæði Noregs. Hæstu tindar eru Glittertinden sem er 2.470 m hár og Galdhøpiggen sem er 2.469 metrar. Stærsti jökull á meginlandi Evrópu er Jostedalsbreen í Noregi. Um fjórðungur skagans er norðan við heimskautsbaug. Nyrsti oddi skagans er Nordkap í Finnmark fylki í Noregi og sá syðsti er Smygehuk í Skáni í Svíþjóð.