Fara í innihald

Látur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Selalátur)
Útselsurta með kóp á spena

Látur eða sellátur er svæði nærri sjó, þar sem selir kæpa (eignast kópa). Sellátur er að finna víðast hvar þar sem selir halda sig, og eru meðal annars allvíða við strendur Íslands. Látur eru yfirleitt nærri flæðarmálinu, og selirnir liggja þar á fjöru en svamla í sjónum á flóði. Í einu látri geta verið allt frá fáeinum dýrum upp í mörg hundruð. Það hefur löngum verið talið til hlunninda, ef látur voru í námunda við bæi, enda hafa selir verið veiddir frá fornu fari, fyrst vegna kjöts og skinna, en í seinni tíð einkum vegna skinna (þá aðallega kópar) og til að halda hringormi í skefjum.

Hvallátur eru einnig til, og setti Bjarni Einarsson þá tilgátu fram að þau væru kennd við rosmhvali, það er að segja rostunga. Sú tilgáta þykir mjög sennileg, en er erfitt að sannreyna þar sem rostungar eru orðnir sárasjaldgæfir við Ísland.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Sellátur fyrirfinnast víða við strandlengju Íslands. Landselir eru flestir á svæðinu frá Ströndum til Skaga við Húnaflóa

Í nágrenni Reykjavíkur þykir látur við Stokkseyri og Eyrarbakka einna best til þess að skoða seli, þótt ekki haldi margir þeirra til þar. Hindisvík á Vatnsnesi er sögð vera besti staður landsins til að skoða seli, en látrið þar var friðað um 1940 fyrir atbeina Sigurðar Norland (1885-1971), sem þar bjó.

Fengitími sela

[breyta | breyta frumkóða]

Selir halda mest til í látrum frá fengitíma og þangað til kóparnir eru orðnir vel syndir. Tvær selategundir kæpa við Ísland, landselur og útselur, og er yfirleitt betra að komast að landselslátrum ef menn eru forvitnir eða í veiðihug.

Fengitími landsela er í ágúst og september og þeir kæpa á vorin, í maí og júní, í látrunum. Kóparnir liggja fyrstu vikuna en taka svo til sunds. Þegar kóparnir eru byrjaðir að braggast, þá byrja fullorðnu selirnir að fara úr hárum, seinni hluta sumars, áður en fengitíminn hefst að nýju, en þá halda selirnir sig frekar til sjós.

Útselir byrja að kæpa á haustin og stendur kæpingin yfir frá október fram í febrúar. Kópar útsels halda til á þurru landi þangað til þeir hafa skipt um feld, og þegar þeir eru byrjaðir að stálpast, á vorin, þá hefst fengitími fullorðnu selanna.

Látur í örnefnum

[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem látur eru koma þau gjarnan fyrir í örnefnum. Þannig eru til Sellátur í Tálknafirði og Sellátranes í Rauðasandshreppi, Hvallátur og Látrabjarg í Vestur-Barðastrandarsýslu. Látrar eru til (og hafa bæði þekkst sem Sellátur og Hvallátur að fornu) og Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu og Sellátur er bæði til í Breiðuvíkurhreppi í Snæfellsnessýslu og í Helgustaðahreppi í Suður-Múlasýslu. Hvallátur heitir eyjaklasi á Breiðafirði, og Hvallátradalur er í Lambadalshlíð í Dýrafirði.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]