Fara í innihald

Tálknafjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tálknafjörður er þéttbýli á Vestfjörðum við samnefndan fjörð. Þar bjuggu 255 manns árið 2022. Fjörðurinn er kenndur við Þorbjörn tálkna úr Suðureyjum við Skotland, sem fyrstur manna nam þar land. Tálknafjarðahreppur var sjálfstætt sveitarfélag til ársins 2024 þegar hann sameinaðist nágrannasveitarfélaginu Vesturbyggð.

Tálknafjörður stendur í landi Tungu, það byggðist í kringum bryggju og hafnaraðstöðu sem byrjað var að reisa um 1945 og var viðurkennt sem kauptún árið 1967. Í Tálknafirði er matvöruverslun, tvö vélaverkstæði og bensínsala auk veitingahússins Hópsins sem dregur nafn sitt af innri hluta fjarðarins.

Sundlaugin og íþróttahúsið standa í landi Eyrarhúsa á ofanverðum Sveinseyraroddanum ásamt skólahúsinu sem vígt var 1967 og stækkað fyrir nokkrum árum. Sundlaugin sem var upphaflega byggð upp úr 1930 og stækkuð 1987, er 25 m löng með tveimur heitum pottum. Við hana er tjaldstæði.

Fyrir ofan tjaldstæðið er Guðmundarlundur, skógarreitur sem byrjað var að gróðursetja í fyrir 1940 af börnum í Tálknafirði, þar eru margar plöntutegundir og sumar sjaldgæfar á Vestfjörðum eins og til dæmis bláklukkan sem vex alla jafna ekki villt á Vestfjörðum. Skógaráhugamenn í Tálknafirði hafa haldið gróðursetningarstarfi áfram og nú nær skógræktin upp undir Bæjarfjall fyrir ofan tjaldstæðið og upp að Hólsá sem rennur framhjá þorpinu. Frá tjaldstæðinu og upp í þorp liggur göngustígur sem kallaður er Brynjólfsbraut, til heiðurs Brynjólfi Gíslasyni sem var sveitarstjóri í Tálknafjarðarhrepp í mörg ár og mikill áhugamaður um skógrækt.

Pollurinn er náttúrulaug í hlíð Sveinseyrarhlíðar rétt utan þorpsins. Heita vatnið kemur úr borholu sem boruð var þar 1977, var leitt í sundlaugina og er vatnið einnig notað til að hita upp íþróttahúsið og skólann.

Tálknafjör

[breyta | breyta frumkóða]

Tálknafjör er bæjarhátíð Tálknfirðinga sem haldin er síðustu helgina í júlí annað hvert ár (síðan 2016). Tálknafjör var haldið í fyrsta sinn árið 2006.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.