Hindisvík
Hindisvík er eyðibýli á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar var áður prestsetur. Bærinn stendur við samnefnda vík. Hindisvík var mikil hlunnindajörð og er þar stórt selalátur sem hefur verið friðað lengi.
Sigurður Norland og Hindisvík
[breyta | breyta frumkóða]Sigurður Norland fæddist í Hindisvík og ólst þar upp og þegar hann varð prestur í Tjarnarprestakalli á Vatnsnesi kaus hann ekki að sitja prestsetrið Tjörn heldur bjó í Hindisvík. Hann keypti svo jörðina á uppboði árið 1919 þegar móðir hans hætti búskap. Sigurður var áhugamaður um verndun sela og hvala og uppgang Hindisvíkur sem þéttbýlis. Hann lét friða selalátrið í Hindisvík árið 1940. Sigurður sá fyrir sér að í Hindisvík yrði verslunarstaður og umskipunarhöfn. Hindisvík var verslunarstaður 1924.
Örnefnið Hindisvík
[breyta | breyta frumkóða]Í Auðunarmáldögum frá 1318 er nafnið skrifað „hamdisvyk“ Í Ólafsmáldögum frá 1461 er nafnið skrifað „hanndis vik“ . Bærinn er nefndur Vík á Vatnsnesi í Sjávarborgarannál fyrir árið 1686. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er jörðin nefnd Vijk en tekið fram að sumir noti forna heitið Hindisvijk. Bæði nöfnin Vík og Hindisvík eru í Jarðatali Johnsens en Hindisvík á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar árið 1844. Í jarðatalinu frá 1861 er nafnið Hindingsvík. Í sóknarlýsingu 1840 notar sr.Ögmundur Sigurðsson ýmist myndina Hindingsvík eða Vík.