Sigurður Norland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður Norland (16. mars 188527. maí 1971) frá Hindisvík á Vatnsnesi var frumkvöðull í náttúruvernd á Íslandi. Hann var prestur í Tjarnarprestakalli en kaus að búa í Hindisvík frekar en sitja pestsetrið Tjörn. Sigurður var mikill áhugamaður um verndun sela og hvala og lét árið 1940 vernda selalátrið í Hindisvík. Sigurður var áhugamaður um hrossarækt og kom upp og ræktaði Hindisvíkurkyn.

Sigurður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1907 og sigldi til Skotlands og var þar um tíma. Þaðan fór hann til Íslendingabyggða í Kanada og dvaldi um hríð í Danmörku á heimleiðinni. Hann fór svo í Prestaskólann og var síðasti kandidatinn sem útskrifaðist þaðan. Sigurður var svo vígður sem aðstoðarprestur á Vopnafirði og dvaldi þar í eitt ár eða þangað til hann fékk Tjarnarprestakall á Vatnsnesi. Hann bjó í Hindisvík hjá móður sinni en keypti svo jörðina á uppboði árið 1919 þegar móðir hans hætti búskap. Frá 1919 var Sigurður í nokkur ár prestur á Bergþórshvoli en sótti svo aftur um Tjarnarprestakall og var þar prestur til 1955.

Sigurður vildi að í Hindisvík risi þéttbýli með útgerð og umskipunarhöfn.

Siguður var mikill tungumálamaður og hagyrðingur. Hann lauk árið 1959 B.A. prófi í grísku frá Háskóla Íslands, þá 74 ára að aldri. Sigurður bjó í Hindisvík til æviloka. Hann var ókvæntur og barnlaus. Hann er jarðaður í Tjarnarkirkjugarði á Vatnsnesi

Heimild[breyta | breyta frumkóða]