Sögufélag
Sögufélag er íslenskt útgáfufélag fræðibóka um söguleg efni. Félagið var stofnað árið 1902 um útgáfu á frumheimildum, en fór fljótlega að gefa út frásagnarheimildir og sögulegan fróðleik og er í dag einn helsti útgefandi sögulegra rita á Íslandi, auk þess sem það stendur fyrir málþingum og bókakvöldum um sagnfræði og söguleg efni.
Á árunum 1918-1953 gaf Sögufélag úr tímaritið Blöndu. Saga tók svo við af Blöndu og hefur komið út frá árinu 1949. Á árunum 1987-2001 gaf Sögufélag út Nýja Sögu.
Aðalhvatamennirnir að stofnun félagsins voru Jósafat Jónasson ættfræðingur, betur þekktur sem Steinn Dofri, Hannes Þorsteinsson ritstjóri (og síðar þjóðskjalavörður) og Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður sem var jafnframt fyrsti forseti félagsins.
Saga Sögufélags
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun félagsins
[breyta | breyta frumkóða]Aðdragandinn að stofnun Sögufélags var sá að Jósafat Jónasson ættfræðingur (Steinn Dofri) kom að máli við dr. Jón Þorkelsson landsskjalavörð og Hannes Þorsteinsson, sem þá var ritstjóri Þjóðólfs, um að endurreisa tímaritið Huld, eða gefa út nýtt þjóðsagna- og þjóðfræðitímarit með svipuðu sniði. Það þótti ekki ákjósanlegt, en úr varð að reynt skyldi að stofna félag til þess að gefa út heimildarit að sögu Íslands. Þann 11. janúar 1902 gáfu þremenningarnir út áskorun sem var sýnd mönnum til undirtekta og áskrifta. Um miðjan febrúar 1902 höfðu sjötíu menn skrifað undir og hétu að gerast meðlimir félagsins yrði það stofnað. Fundur var haldinn á Hótel Íslandi 17. febrúar 1902 þar sem samþykkt var að stofna „félag til að gefa út heimildarrit að sögu Íslands, og í sambandi við þau ættfræði og mannfræði.“[2]
Bóka- og heimildaútgáfa
Fyrstu áratugina fór mestur þungi í heimildaútgáfu félagsins. Fyrsta ritið sem kom út var Aldarfarsbók Páls lögmanns Vídalíns 1700-1709 árið 1904, fleiri rit fylgdu næstu árin og báru þar hæst Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal og Æfisaga Jóns prófasts Steingrímssonar.[3]
Á árunum 1912-1914 hófst umfangsmesta heimildaútgáfa sem Sögufélag hefur staðið fyrir þegar fyrsta bindi Alþingisbóka Íslands kom út.[2] Þær komu út í sautján bindum, það síðasta árið 1990. Árið 1916 hófst útgáfa á Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenzkum málum og lauk henni árið 1990.
Útgáfa á þjóðsögum Jóns Árnasonar hófst árið 1925 og var lokið stuttu fyrir seinna stríð. Hún var mikil lyftistöng fyrir félagið. Þjóðsögurnar voru vinsælar en þar sem þær voru eingöngu seldar til félagsmanna var til mikils að vinna að gerast félagi og mátti merkja umstalsverða aukning á félögum eftir að útgáfa þjóðsaganna hófst.
Ritraðir
[breyta | breyta frumkóða]Auk stakra fræðirita um sagnfræði gefur Sögufélag út ýmsar ritraðir:
- Safn Sögufélags er ritröð sem inniheldur þýdd rit síðari alda um Ísland og Íslendinga. Í henni hafa komið út rit eins og Crymogæa eftir Arngrím Jónsson lærða í þýðingu Jakobs Benediktssonar og Frásagnir af Íslandi eftir Johann Anderson(de).
- Smárit Sögufélags eru stuttar bækur sem fjalla hver um sig um afmörkuð efni. Þar eru ýmist birtar frumheimildir eða rannsóknir í sagnfræði og skyldum greinum. Smáritin eru oft byggð á lokaverkefnum í háskólum hér heima og erlendis sem fjalla um sögu Íslands.
- Alþingisbækur Íslands komu út í sautján bindum og eru gjörðir Alþingis við Öxará 1570-1800
- Safn til sögu Reykjavíkur kom út í sex bindum og flutti lesendum grundvallarheimildir um sögu Reykjavíkur
- Landsnefndin fyrri 1770-1771 eru skjöl Landsnefndarinnar fyrri sem Sögufélag gefur út í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og stendur útgáfa þeirra yfir. Út eru komin fjögur bindi og verða þau alls sex talsins.
- Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum
Tímarit
[breyta | breyta frumkóða]Forgöngumenn Sögufélags áttuðu sig fljótlega á því að heimildaútgáfa félagsins, þó þörf væri, náði misvel til almennra lesenda. Því var ákveðið að gefa út tímarit þar sem lesendur gætu nálgast læsileg frásagnarheimildir.
Blanda (1918-1953)
Blanda var fyrsta tímarit Sögufélags og kom út á árunum 1918-1953. Ritið flutti lesendum ýmsan heimildafróðleik auk stakra greina og naut töluverðra vinsælda. Nafnið Blanda er þýðing á latneska lýsingarorðinu miscellenae sem oft er notað um bækur og handrit þar sem ægir saman efni úr ólíkum áttum. Flest efni Blöndu var skrifað af stjórnarmönnum Sögufélags. Árið 1945 var tekin ákvörðun um að hætta útgáfu Blöndu og kom síðasta heftið út 1953. Öll útgáfa Blöndu er aðgengileg á tímarit.is.
Saga (1950- )
Saga tók við af Blöndu og var markmiðið að gefa út tímarit með innihaldi sem lyti strangari kröfum um fræðileg vinnubrögð og væri meira í takt við viðtekna starfshætti í sagnfræði og skyldum greinum á þessum tíma. Fyrsta heftið kom út árið 1949 en fyrst um sinn kom hver árgangur út í nokkrum heftum; þannig kom fyrsti árgangur Sögu út í fjórum heftum á árunum 1949-1953, annar á árunum 1954-1958 og sá þriðji 1960-1963. Frá og með árinu 1968 kom nýr árgangur Sögu út á hverju ári og síðan 2002 hafa árlega komið út tvö tölublöð, eitt að vori og eitt að hausti. Saga er ritrýnt tímarit og ritstjórar Sögu eru sagnfræðingarnir Kristín Svava Tómasdóttir og Vilhelm Vilhelmsson. Frá upphafi útgáfu hefur Saga verið kjölfesta í starfsemi Sögufélags og jafngildir áskrift að henni því að gerast meðlimur í Sögufélagi. Hægt er að lesa Sögu á tímarit.is
Ný Saga (1987-2001)
Árið 1987 hóf Sögufélag að gefa út nýtt tímarit samhliða Sögu, Nýja Sögu. Upphaf þeirrar útgáfu á rekja til tímaritsins Sagna, sem sagnfræðinemar hófu að gefa út árið 1980. Ný Saga var verk ungra sagnfræðinga sem margir höfðu tekið þátt í því að koma Sögnum á fót.[1] Ný saga átti, líkt og Sagnir, að vera aðgengilegri en Saga; innihalda auðmeltanlegra efni með ríkulegum myndskreytingum. Einnig voru ýmsir nýir flokkar kynntir til leiks þar sem áhersla var lögð á skoðanaskipti og rökræður um söguleg efni. Útgáfu Nýrrar Sögu var hætt árið 2001 og í stað þess ákveðið að gefa Sögu út tvisvar á ári.[3] Ný saga er aðgengileg á tímarit.is
Húsnæði
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu 73 árin hafði Sögufélag ekki fastan samastað. Það breyttist árið 1975 þegar félagið fékk inni í Fischersundi 13B og efldist starfsemi félagsins töluvert í kjölfarið, ekki síst vegna elju Ragnheiðar Þorláksdóttur, starfsmanns Sögufélags, sem varð í huga margra tákngervingur félagsins. Í kjallara hússins var Sögufélag með bóksölu sem Ragnheiður bar hitann og þungann af og fljótlega varð Sögufélag við Fischersund eins konar félagsmiðstöð félaga og annarra áhugamanna um sögu.[1] Árið 2012 flutti Sögufélag úr Fischersundi og fluttist í húsnæði Hins íslenska bókmenntafélags í Skeifunni.[4] Árið 2016 flutti félagið þaðan og fékk inni í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, hjá Rithöfundasambandi Íslands þar sem það hefur aðsetur í dag.[5]
Forsetar Sögufélags
[breyta | breyta frumkóða]Til þessa dags hafa tólf gegnt embætti forseta Sögufélags.[6]
- Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörður (1902-1924)
- Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður (1924-1935)
- Einar Arnórsson, ráðherra (1935-1955)
- Þorkell Jóhannesson, háskólarektor og landsbókavörður (1955-1960)
- Guðni Jónsson, prófessor (1960-1965)
- Björn Þorsteinsson, prófessor (1965-1978)
- Einar Laxness, skjalavörður (1978-1988)
- Heimir Þorleifsson, sögukennari (1988-2001)
- Loftur Guttormsson, prófessor (2001-2005)
- Anna Agnarsdóttir, prófessor (2005-2011)
- Guðni Th. Jóhannesson, prófessor og forseti Íslands (2011-2015)
- Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður (2015-)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Íris Ellenberger. Saga Sögufélags (vinnutitill - óbirt handrit).
- ↑ 2,0 2,1 Loftur Guttormsson. „Sögufélag í hundrað ár“. Morgunblaðið.
- ↑ 3,0 3,1 Ný Saga 1. bls. 1.
- ↑ Guðni Th. Jóhannesson (2012). Af aðalfundi 2012. bls. 204.
- ↑ „Um félagið“.
- ↑ „Um Sögufélag“. Sótt 2019.