Fara í innihald

Anna Agnarsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Anna Agnarsdóttir (f. 14. maí 1947) er fyrrum prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

Hún hóf störf sem stundakennari við Háskólann upp úr 1980, var skipuð dósent í sagnfræði árið 1990 og árið 2004 varð hún fyrst kvenna til að gegna stöðu prófessors í þeirri grein.[1] Hún lét af störfum sökum aldurs 1. júní 2017.[2]

Anna lauk BA (Hons.) prófi í sagnfræði frá University of Sussex árið 1970 og prófi í Íslandssögu við Háskóla Íslands 1972. Hún varði doktorsritgerð (PhD) í alþjóðasagnfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1989 sem bar heitið “Great Britain and Iceland 1800-1820.”[3] Fjallaði ritgerðin um samskipti Íslands og Bretlands á tímabilinu 1800-1820, með áherslu á stjórnmála- og verslunarsögu.[1]

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Meginrannsóknarsvið Önnu eru á sviði utanríkissögu, samskipti Íslands við umheiminn, einkum Bretland, og sögu Íslands á tímabilinu 1750-1830, m.a. rannsóknarleiðangra erlendra manna til landsins og verslun.[4] Markmið rannsókna hennar hefur m.a. verið að varpa ljósi á að Ísland var aðeins einangrað land á þessum tíma í landfræðilegum skilningi. Til Íslands bárust almennt straumar frá Evrópu og Íslandssagan tengist Evrópusögunni.[5] Um þessar mundir rannsakar hún samskipti Frakka og Íslands á 18. öld, þegar áhugi vaknaði hjá Frökkum að skipta á Íslandi og Louisiana.

Viðamesta rannsóknarrit hennar er Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic. Journals, Letters and Documents 1772-1820 Geymt 22 september 2021 í Wayback Machine (Routledge, 2016). Hún skrifaði um tímbilið 1800 til 1830 í Sögu Íslands (IX. bindi) og er meðal höfunda ritsins Líftaug landsins) (2017 sem fjallar um sögu utanlandsverslunar Íslands 900-2010. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.[6] Meðal nýlegra verka er kafli um Ísland í öðru bindi Cambridge History of Scandinavia (2016).

Anna hefur skrifað fjölda greina og bókarkafla í innlendum og erlendum fræðiritum, um hundadagadrottninguna og heimildaútgáfur, frönsku og íslensku stjórnarbyltingarnar og tengsl Grænlands og Íslands svo að dæmi séu nefnd.[7] Hún hefur flutt marga fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis, m.a. nokkrum sinnum í boði The Royal Society, London.

Ýmis störf og verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Anna hefur ritstýrt tímaritunum Sögu Geymt 22 júní 2019 í Wayback Machine og Nýrri sögu og allmörgum bókum ásamt öðrum. Má þar nefna Kvennaslóðir[óvirkur tengill], en í þá bók rituðu allir starfandi kvensagnfræðingar árið 2000, og Ferðadagbækur Magnúsar Stephensen 1807-1808 ásamt Þóri Stephensen (Reykjavík, 2010).

Hún hefur gegnt ýmsum félagsstörfum í fræðasamfélagi sagnfræðinga bæði innan og utan háskólans. Hún var forseti Heimspekideildar á árunum 2002-2004,[1] fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði 2008-2012, forseti Sögufélags 2005-2011, fyrst kvenna,[8] og er nú formaður stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands.[9] Ennfremur situr hún í stjórn The Banks Archive Project og er fulltrúi Íslands í The Hakluyt Society og the Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation.[10]

Anna er nú einn margra ritstjóra í alþjóðlega verkefninu The Hakluyt Edition Project Geymt 6 ágúst 2019 í Wayback Machine. Hér er um að ræða fræðilega útgáfu af frumheimildasafni Richards Hakluyt The Principal Navigations … of the English Nation (1598), sem Oxford University Press mun gefa út á næstu árum.

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Anna er heiðursfélagi Sögufélags[11] og kjörinn meðlimur í Det Kongelige Danske Selskab for Fædrelandets Historie[12] og Vísindafélagi Íslendinga (Societas scientiarum Islandica). Árið 2017 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til sagnfræðirannsókna.[13]

Æska og einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Anna er fædd í Reykjavík. Foreldrar Önnu voru Ólöf Bjarnadóttir (1919-1999) og Agnar Kl. Jónsson (1909-1984) sendiherra og ráðuneytisstjóri. Hún var alin upp í London og París 1951-1961 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967.[14] Anna er gift Ragnari Árnasyni prófessor emeritus í hagfræði. Þau eiga tvær dætur og Anna eina stjúpdóttur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 „Sigurðar Nordals fyrirlestur Norræna húsinu, 14. sept. 2018, kl. 17.00“. Sótt 14. ágúst 2019.
 2. Háskóli Íslands. Anna Agnarsdóttir prófessor emeritus. Sótt 14. ágúst 2019
 3. Skrá um doktorsritgerðir Íslendinga. Anna Agnarsdóttir. Sótt 14. ágúst 2019
 4. “Iceland in the Eighteenth Century: An Island Outpost of Europe?”, Sjuttonhundratal. Nordic Yearbook for Eighteenth-Century Studies, Lund, 2013, pp. 11-38.
 5. Vísindavefurinn. (2018). Hvaða rannsóknir hefur vísindamaðurinn Anna Agnarsdóttir stundað? Sótt 14. ágúst 2019
 6. Háskóli Íslands. (2017). Fræðafólk tilnefnt til bókmenntaverðlauna. Sótt 14. ágúst 2019
 7. Háskóli Íslands. Anna Agnarsdóttir prófessor emeritus. Ritaskrá. Sótt 14. ágúst 2019
 8. Sögufélag. (2017). Anna Agnarsdóttir nýr heiðursfélagi Sögufélags. Sótt 14. ágúst 2019
 9. Stjórnarráð Íslands. Þjóðskjalasafn. Stjórnarnefnd 2018-2022. Sótt 14. ágúst 2019
 10. The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation. Board. Sótt 14. ágúst 2019
 11. Sögufélag. (2017). Anna Agnarsdóttir nýr heiðursfélagi Sögufélags. Sótt 14. ágúst 2019
 12. Det Kongelige Danske Selskab for Fædrelandets Historie. Forstanderskabet. B. Udenlandske medlemmer Geymt 20 ágúst 2019 í Wayback Machine. Sótt 14. ágúst 2019
 13. Forseti Íslands. Orðuhafaskrá Geymt 26 ágúst 2019 í Wayback Machine. Sótt 14. ágúst 2019
 14. “Í fótspor feðranna. Ævisögubrot kvensagnfræðings á síðari hluta 20. aldar”, Íslenskir sagnfræðingar. Viðhorf og rannsóknir, ritstj. Loftur Guttormsson et al. (Reykjavík, 2002) II