Fara í innihald

Guðni Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðni Jónsson (22. júlí 19014. mars 1974) var íslenskur sagnfræðingur, doktor í sagnfræði og prófessor við Háskóla Íslands.

Guðni fæddist á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka, sonur fátækra hjóna sem áttu 17 börn alls. Hann ólst upp í Leirubakka á Landi til tólf ára aldurs, fór þá að vinna og reri seinna tvær vertíðir en tókst svo að brjótast til mennta, gekk í kvöldskóla í Reykjavík, lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg 1921 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924. Hann gegndi þar embætti forseta Framtíðarinnar, nemendafélags MR, árið 1923[1]. Hann stundaði síðan háskólanám, fyrst í guðfræði en hóf síðan nám við norrænudeild Háskólans og kenndi með námi. Hann varð magister í íslenskum fræðum 1930 og fjallaði meistaraprófsritgerð hans um Landnámu, samanburð Landnámuhandrita innbyrðis og við aðrar heimildir.

Guðni kenndi við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1928-1945 en varð þá skólastjóri sama skóla. Hann var mikilvirkur fræðimaður, einkum á sviði ættfræði og sagnfræði, og skrifaði fjölda rita, þar á meðal doktorsritgerð sína, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, sem út kom 1952 og hann varði svo ári síðar. Einnig samdi hann ritin Bergsætt, Sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka, Stokkseyringa sögu og fleiri rit. Hann annaðist einnig útgáfur fjölda fornrita, meðal annars Íslendingasagna I-XII, sem út komu 1946-1947, Fornaldarsagna Norðurlanda og margra annarra rita. Einnig annaðist hann útgáfu á ritum Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi og fleiri alþýðufræðimanna og gaf út Íslenska sagnaþætti og þjóðsögur I-XII.

Guðni varð prófessor í sagnfræði 1957 og gegndi þeirri stöðu til 1967 en þá fékk hann heilablóðfall. Hann dó 4. mars 1974.

Fyrri kona hans var Jónína Margrét Pálsdóttir. Hún dó 1936 og tveimur árum síðar kvæntist hann Sigríði Hjördísi Einarsdóttur.


Fyrirrennari:
Sigurkarl Stefánsson
Forseti Framtíðarinnar
(19231923)
Eftirmaður:
Sigurjón Guðjónsson


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Forsetar Framtíðarinnar frá 1883“. Menntaskólinn í Reykjavík.