Hótel Ísland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hótel Ísland getur líka átt við Hótel Ísland (Ármúla) sem hýsti m.a. skemmtistaðinn Broadway.

Hótel Ísland var hótel sem stóð við Aðalstræti frá 1882 til 1944 þegar það brann til grunna í eldsvoða nóttina 3. febrúar.

Hótel Ísland var í raun nokkur timburhús sambyggð og stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis þar sem nú er Ingólfstorg. Lóðin náði þá út í allan reitinn milli Austurstrætis, Aðalstrætis, Veltusunds og Vallarstrætis. Áður hafði staðið þar pakkhús frá um 1790 en eftir aldamótin 1800 var það rifið og Einar Jónsson reisti þar tvö bindingsverkshús, íbúðarhús og verslun. Jafet Johnson, sonur hans, seldi R. P. Tærgesen kaupmanni eignina 1845 og hann lét reisa vöruskemmu hinum megin við húsin á horni Vallarstrætis og Veltusunds. Í kringum árið 1860 keypti Níels Jörgensen lóðina og hóf veitingasölu í húsinu sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Hann nefndi veitingahúsið Gildaskálann. Sagan segir að hann hafi ætlað að reisa stórt hótel á lóðinni en hann lést áður en af því varð, árið 1875. Ekkja hans, Dorothea, hélt rekstrinum áfram eftir dauða Níels en um árið 1879 giftist hún Johani Halberg skipstjóra Árið 1882 létu þau reisa tvílyft stórhýsi áfast gamla húsinu Austurstrætismegin og hóf þar veitinga- og hótelrekstur 1882. Skömmu síðar var nafnið Hótel Ísland tekið upp.

Halberg byggði mikið og endurbætti á reitnum næstu árin. Hann reisti meðal annars skála út úr húsinu meðfram Vallarstræti og 1901 lét hann rífa gamla húsið Aðalstrætismegin og reisa þar þrílyft timburhús sem tengdist við húsið Austurstrætismegin með turni sem stóð á horninu. Þannig var húsið lengst af þar til það brann. Hallberg seldi húsið 1906 hópi manna sem áttu húsið í eitt ár en seldu það svo Góðtemplarastúku Reykjavíkur. 1912 hófst rekstur Nýja bíós í húsinu sem lá frá Austurstræti eftir Veltusundi og var það starfrækt þarna til 1920 þegar það flutti í eigið hús. Húsið komst svo í eigu Íslandsbanka og síðan félagsins Borg h.f.. 1928 eignaðist Alfreð Rosenberg hótelið. Hann hafði áður rekið kaffihús og tónleikastað í kjallara Nýja bíós og síðan Café Rosenberg þar sem Reykjavíkurapótek er nú.

Aðfaranótt 3. febrúar 1944 um klukkan tvö varð starfsstúlka sem svaf á efstu hæð hússins vör við að eldur var kominn upp á geymslulofti. Hún gerði viðvart og gestir hússins og fjölskylda Rosenbergs björguðust út á náttklæðunum. Húsið brann til kaldra kola á aðeins tveimur tímum. Einn maður fórst. Eftir brunann stóð reiturinn auður þar til Bifreiðastöð Steindórs kom sér þar upp aðstöðu og bílaplani sem síðar var kallað Hallærisplanið. Bifreiðastöðin hafði haft aðstöðu á svokölluðu Steindórsplani gegnt hótelinu við Hafnarstræti frá stofnun hennar 1922. 1993 voru plönin tvö sameinuð og Ingólfstorg reist. Það opnaði 4. desember 1993.

Hugmyndir hafa verið á lofti um að endurreisa Hótel Ísland til þess að endurskapa fyrri ásýnd Aðalstrætis og nágrennis.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]