Sólmyrkvinn 12. ágúst 2026
Sólmyrkvinn 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sem gengur yfir Norðurslóðir, austanvert Grænland, Ísland, Atlantshaf og Spán. Almyrkvi verður þegar tunglið gengur á milli jarðarinnar og sólar þannig að það hylur algerlega sólina frá jörðu séð. Myrkvinn verður í hámarki yfir hafinu skammt vestan Látrabjargs kl. 17:45.53. Almyrkvinn verður sá fyrsti sem sést frá Íslandi síðan almyrkvi gekk yfir meðfram suðurströndinn 30. júní 1954 en næsti almyrkvi sem gengur yfir Ísland verður ekki fyrr en árið 2196.[1] Almyrkvinn gengur svo yfir Atlantshaf og nær aftur landi á Spáni þar sem hann gengur þvert yfir landið norðanvert til Miðjarðarhafs og yfir Baleareyjar. Almyrkvi á sólu sást síðast á Spáni 30. ágúst 1905. Sólmyrkvinn sést sem deildarmyrkvi sem hylur hluta af sólinni í Evrópu, Norður-Afríku og Norður-Ameríku. Deildarmyrkvinn hylur meira en 90% af sólinni á þeim hlutum Íslands og Spánar sem almykrvinn gengur ekki yfir og einnig á Grænlandi, Færeyjum, Bretlandseyjum, Portúgal, N-Afríku við Miðjarðarhaf, Frakklandi, Sviss, Ítalíu og Balkanskaga.
Á Íslandi gengur almyrkvinn yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Mýrar, Reykjavík og Suðurnes. Hámark myrkvans gengur eftir línu í hafinu vestur af landinu og lengd hans verður meiri eftir því sem farið er nær þeirri línu. Á Látrabjargi stendur almyrkvinn í 2 mínútur og 13 sekúndur en eina mínútu í Reykjavík þar sem hann hefst 17:48. Utan þess svæðis sem almyrkvinn gengur yfir verður deildarmyrkvi sem hylur t.d. 97,9% af sólinni á Akureyri og 95,2% í Neskaupstað.
Staður | Land | Upphaf deildarmyrkva | Upphaf almyrkva | Lok almyrkva | Lok deildarmykrva | Lengd almyrkva | Stærð |
---|---|---|---|---|---|---|---|
Ísafjörður | Ísland | 16:43:17 | 17:44:06 | 17:45:37 | 18:43:56 | 1m 31s | 1.005 |
Látrabjarg | Ísland | 16:43:39 | 17:44:28 | 17:46:41 | 18:44:55 | 2m 13s | 1.014 |
Ólafsvík | Ísland | 16:45:05 | 17:45:53 | 17:47:57 | 18:46:07 | 2m 3s | 1.011 |
Borgarnes | Ísland | 16:46:30 | 17:47:40 | 17:48:23 | 18:46:53 | 43s | 1.001 |
Akranes | Ísland | 16:46:49 | 17:47:51 | 17:48:57 | 18:47:17 | 1m 6s | 1.002 |
Reykjavík (Lækjartorg) | Ísland | 16:47:12 | 17:48:16 | 17:49:15 | 18:47:37 | 59s | 1.002 |
Mosfellsbær | Ísland | 16:47:16 | 17:48:32 | 17:49:02 | 18:47:35 | 30s | 1.000 |
Sandgerði | Ísland | 16:47:03 | 17:47:54 | 17:49:39 | 18:47:47 | 1m 45s | 1.007 |
La Coruña | Spánn | 19:30:52 | 20:27:37 | 20:28:51 | 21:21:55 | 1m 14s | 1.004 |
Bilbao | Spánn | 19:31:43 | 20:27:17 | 20:27:49 | sólsetur 21:19 | 32s | 1.001 |
Zaragoza | Spánn | 19:34:36 | 20:28:57 | 20:30:22 | sólsetur 21:08 | 1m 25s | 1.007 |
Palma de Mallorca | Spánn | 19:37:59 | 20:31:00 | 20:32:36 | sólsetur 20:49 | 1m 36s | 1.015 |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Sólmyrkvar á Íslandi fram til 2200“. Almanak Háskólans. [skoðað 08-03-2015].