Séreign

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Inntak séreignarfyrirkomulagsins[breyta | breyta frumkóða]

Séreignarformið er algengasta eignarformið, en í því felst að eigandi fer einn með þær heimildir sem í eignarrétti felast. Séreignarfyrirkomulagið veitir rétthöfunum ríkastar heimildir og sætir minnstum takmörkunum í samanburði við önnur eignarform, þótt heimildum eigandans séu vissulega settar margvíslegar skorður á grundvelli laga og óbeinna eignarréttinda annarra. Einnig geta slíkar takmarkanir átt rót sína að sekja til fyrirmæla í erfðaskrá, sbr. Hrd. 509/2015 (Tunguás) en þar hafði maður gefið fimmtán börnum sínum landið Tunguás úr jörðinni Hallgeirsstöðum í Jökulárshlíð. Gjöfin var bundin þeim skilyrðum að landspildan væri sameign gjafþega, enginn gæti selt hlut sinn í henni og að gjafþegar ættu forkaupsrétt að mannvirkjum sem reist yrðu á svæðinu. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annar fram að þegar túlkuð væru þau skilyrði sem tilgreind væru í gjöfinni yrði að taka tillit til þess að um væri að ræða einhliða skilyrði fyrir gjöf, sem gjafþegar samþykktu með því að þiggja hana. Á hinn bóginn þótti sannað að þrautreynt hafði verið, án árangurs, að ná samkomulagi um skiptingu afnotaréttar og meðferð á landinu, auk þess sem ekki væri skýrlega lagt bann við því í gjafaafsalinu að sameigninni yrði slitið. Var því fallist á kröfu hluta erfingjanna um að skipta mætti landinu.[1]

Almennt séð hvíla ekki skyldur á séreignareigendum, en á þessu eru þó undantekningar, sérstaklega þegar kemur að eigendum fasteigna. Þær skyldur sem geta hvílt á eigendum lausafjármuna hafa það yfirlieitt að markmiði að tryggja að varkárni sé gætt við meðferð hlutarins þannig að hætta stafi ekki af notkun hans. Til dæmis má nefna að í 21. gr. vopnalaga nr. 16/1998 hvílir skylda á þeim sem fer með eða notar skotvopn að gæta ætíð fyllstu varúðar. Þær skyldur sem hvíla á eigendum fasteigna skýrast aftur á móti yfirleitt af grenndarréttarlegum sjónarmiðum og mögulegum sameignarhagsmunum séreignareigenda. Skýrasta dæmið að þessu leyti eru lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en vegna þess nábýlis sem er í fjöleignarhúsum hvíla nokkuð ríkar skyldur á séreignareigendum um að haga nýtingu eigna sinna þannig að aðrir verði ekki fyrir meira ónæði en gengur og gerist í nábýli af þessu tagi.[1]

Séreign á öðrum réttarsviðum[breyta | breyta frumkóða]

Hjúskaparréttur[breyta | breyta frumkóða]

Séreign í íslenskum hjúskaparrétti er tiltekin eignarréttarleg staða eignar og eignarhluta maka í hjúskap. Þessi staða er undantekning á þeirri meginreglu í hjúskap að eignir hjóna teljist hjúskapareignir hvors um sig. Haldi einhver því fram að eign í hjúskap sé séreign ber viðkomandi sönnunarbyrðina hvað það varðar. Eignir hjóna geta verið sameignir og getur eignarhlutur hvors um sig verið séreign eða hjúskapareign, eða sitt hvort.

Eignir geta verið séreignir vegna lagafyrirmæla, ákvæða í séreignarkaupmála eða vegna kvaða frá arfleifanda í erfðaskrá, frá gefanda gjafar, eða yfirlýsingar langlífari maka í óskiptu búi að tiltekin gjöf eða arfur renni ekki í hið óskipta bú. Meginreglan er að arður af séreign verður séreign og hið sama gildir um verðmæti sem koma í hennar stað, og kallast sú regla ígildisreglan. Til að mynda ef séreign er seld verður greiðslan fyrir hana að séreign. Ef séreign er tryggð og hún verður fyrir skemmdum, myndu bæturnar vegna skemmdanna teljast séreign. Sé bætt við séreign með hjúskapareign annars hvors makans á makinn sem á ekki séreignina rétt á endurgjaldi.

  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  1. 1,0 1,1 Axelsson., Karl. Eignaréttur--I. Almennur hluti. ISBN 978-9935-9433-6-1. OCLC 1184015579.