Óskipt bú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Óskipt bú er í íslenskum erfðarétti réttarástand þar sem maki hins látna hefur óskað eftir og fengið frestun á skiptingu hjúskaparbúsins. Það er gert með því að afla leyfis um setu í óskiptu búi frá sýslumanni. Hjúskaparbúinu er þá ekki skipt fyrr en langlífari makinn óskar eftir því að búinu sé skipt, makinn gengur í nýtt hjónaband, við andlát hans, eða forsendur viðkomandi fyrir setu í búinu eru brostnar. Inn í óskipt bú renna ekki séreignir hjónanna en séreignir hins látna renna þá þegar í dánarbú hans (nema til staðar séu fyrirmæli um að séreign breytist í hjúskapareign við andlát). Þegar skipti fara fram á óskipta búinu rennur hlutur hins látna í hjúskaparbúinu inn í dánarbú hans og skipti þess halda áfram.

Þau sem sitja í óskiptu búi er langlífari makinn ásamt þeim sem standa til að fá skylduarf eftir skammlífari makann. Niðjar langlífari makans sitja því ekki í óskipta búinu nema þegar þau séu einnig niðjar hins skammlífari. Við tilteknar aðstæður geta erfingjar er sitja í óskipta búinu krafist síns hluta úr búinu. Oft er misskilið að synjun eins stjúpniðja geti komið í veg fyrir að langlífari maki geti fengið leyfi fyrir setu í óskiptu búi. Þar sem erfðalögin minnast á samþykki stjúpniðja og viðkomandi stjúpniðja veitir það ekki, þá eru áhrifin þau að sá stjúpniðji situr þá ekki í óskipta búinu og á því rétt á greiðslu síns hluta. Langlífari makinn situr þá í óskiptu búi með öðrum þeim sem koma til greina. Eina undantekningin frá þessu er að ef enginn yrði þá eftir fyrir langlífari makann til að sitja með í óskipta búinu, þá séu forsendurnar fyrir því brostnar.

  Þessi lögfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.