Rapprokk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rapprokk (e. rap rock) er tónlistarstefna sem myndaðist um miðjan níunda áratuginn tuttugustu aldarinnar. Hipp hopp blómstraði á þessum tíma og gat það ekki verið meiri andstæða við rokkið sem þá var í spilun en með hljómsveitum á borð við Beastie Boys, fyrrum harðkjarnapönkshljómsveit sem seinna fór svo yfir í hipp hopp, og Biohazard, sem spiluðu þungarokksriff undir rappeinkenndum söng, braust á sjónarsviðið þessi nýja tónlistarstefna, rapprokk. Stefnan einkennist af blönduðum eiginleikum úr hipp hopp og rokki og er gróf skilgreining á blönduðum stefnum, nu-metal og rappkjarna (e. rapcore). Í rapprokki er að finna vanalega hefðbundin rokkhljóðfæri líkt og gítar, bassa og trommur. Raddir geta verið sungnar, rappaðar eða bæði. Auk þess sérðu oft eletrónískan „sampling“-búnað, „scratch pads“ eða plötusnúða í för með hljómsveitum.

Nu-metal og rappkjarni[breyta | breyta frumkóða]

Nu-metal á það til að vera þyngri, harðari tónlist sem hallar meira að þungarokki og eru hljómsveitir sem falla undir þennan flokk t.d. Slipknot, KoRn, og Godsmack.

Rappkjarni (e. rapcore) er meiri blanda af rappi og harðkjarnapönki með elektrónískum eiginleikum (í staðinn fyrir þungarokks). Hljómsveitir eins og House of Pain, Limp Bizkit, Linkin Park og Rage Against the Machine eru góð dæmi um lög í rappkjarnastefnunni.

Vinsælustu rapprokkshljómsveitir eru eftirfarandi: Beastie Boys, Rage Against the Machine, Slipknot, P.O.D., Korn, Papa Roach, Limp Bizkit, Hollywood Undead, Hed-PE og Linkin Park.

Uppruni og saga[breyta | breyta frumkóða]

Jafnvel þótt uppruni rokksins sé rakinn til blússins sem á uppruna sinn í svartri menningu, þá hafa lengi öll vinsælustu rokkhljómsveitirnar verið samansett af hvítum tónlistarmönnum, á meðan hipp hopp stækkaði sífellt og beindist alltaf að mestu leiti að svörtum menningarhópum, sem hafa þá ætíð náð lengst í þeirri stefnu.

„Walk This Way“ undirbýr heiminn fyrir rapprokk[breyta | breyta frumkóða]

Ein fyrstu merki rapprokks var árið 1986 þegar Run-DMC, ein af stærstu rappgrúppum áratugarins og áttunda áratugsrokkhljómsveitin Aerosmith leiddu saman hesta sína í endurgerð af smelli (e. hit song) hljómsveitarinnar „Walk This Way“. Tónlistarmyndbandið sýndi Aerosmith og Run-DMC í sitthvoru upptökustúdíóinu að taka upp sína eigin tónlist úr andstæðum tónlistarstefnum, þ.e.a.s. hipp hopp og rokk, en um leið og Run-DMC byrjuðu að rappa textann við lagið braust Steven Tyler, aðalsöngvari Aerosmith, í gegnum vegginn til að syngja viðlagið og blandaði með því saman harðrokki og rappi. Lagið stækkaði aðdáendahóp Run-DMC í hvíta samfélaginu með meiru og ýttu sömuleiðis undir vinsældir Aerosmith sem voru í smá lægð á þessum tíma, en aðallega kynnti lagið til sögunnar nýja tónlistarstefnu: rapprokk.

The Beastie Boys og Public Enemy ýta undir rapprokk[breyta | breyta frumkóða]

Næstu ár hélt nána samband rapps og rokks áfram að blómstra en sama ár og „Walk This Way“ fór á vinsældarlista gaf hvíta hipp hopp tríóið Beastie Boys frá Brooklyn út plötuna Licensed to Ill, meiriháttar partýplötu sem naut gífulegra vinsælda og náði meðal annars platinumsölu.

Seinna samplaði Public Enemy, stærsta hipp hopp band seinni hluta níunda áratugarins, hljómsveitina Slayer við lag af plötunni þeirra, It Takes a Nation of Millions to Hold Us Back, sem kom út árið 1988 og var það tímamótakennt í sögu rappkjarna.

Rapprokk verður vinsælt[breyta | breyta frumkóða]

Rage Against the Machine

Í byrjun tíunda áratugsins voru tvær áhugaverðar metalrappshljómsveitir sem náðu miklum fjölda aðdáenda. Jaðarrokk-bandið Faith No More, með söngvarann og lagasmiðinn Mike Patton í fremstu víglínu, blandaði t.d. saman hefðbundnum söng og rappi í vinsæla laginu þeirra „Epic“ sem kom út árið 1990. Ásamt því fagnaði rapparinn Ice-T frá Los Angeles miklum árangri með harðrokkshljómsveitinni Body Count, sem gaf út samnefnda plötu árið 1992 sem innihélt lagið „Cop Killer“ sem var umdeilt.

Rapp varð vinsælasta tónlistarstefnan í Bandaríkjunum á fyrri hluta tíunda áratugarins og rokkhljómsveitir héldu áfram að samþætta hipp hopp með rokki. Rage Against the Machine, með hreinskilna söngvarann Zack de la Rocha í fararbroddi, fengu innblástur frá pólitískum hipp hopp hljómsveitum á borð við Public Enemy, héldu áfram að ýta undir beitta orðræðu en bættu við óreiðukenndum rokkgítarsólóum eftir gítarleikarann Tom Morello.

Á sama tíma voru Beastie Boys að leitast eftir því að fjarlægja sig meira frá svokallaða „frat-boy“ stílnum á plötunni þeirra Licensed to Ill og ákváð gamla pönktríóið að skipta yfir í að spila á hljóðfæri aftur, og sem fyrrverandi harðkjarnapönkhljómsveit létu þeir næstu plötu, þá uppreisnargjörnu Check Your Head (1992), verða fyrir miklum áhrifum frá því. Platan varð byltingarkennd í hjólabréttasamfélagi úthverfanna með klaufalegri blöndu af rapp, rokki, fönki, þungarokki og pönki.

Með reiða uppreisnarrokki Rage Against the Machine og afslöppuðu partýblöndu Beastie Boys af hipp hopp og rokki var kominn tími á nýja hreyfingu í tónlistinni.

Gullöld rapprokksins[breyta | breyta frumkóða]

Ef það ætti að benda á eitt tiltekið augnablik sem byltingu í rapprokki þá myndi það líklegast vera útgáfa plötunnar Significant Other sumarið 1999 með Limp Bizkit. Þessi önnur plata Florida hljómsveitarinnar, sem innihélt smellinn „Nookie“, seldi yfir sjö milljón eintaka með því einu að blanda saman aggressívu þungarokki Rage Against the Machine og hjólabretta, slakari viðhorfi Beastie Boys.

Eftir vinsældir Significant Other áttu rapprokkhljómsveitir mun auðveldara með að komast í sviðsljósið, bæði var auðveldara að ná sér í „gigg“ og ná lögum inn á almennar útvarpsstöðvar. Sem dæmi um rapprokkhljómsveit sem ætlaði sér að sigra heiminn má nefna kalifórnísku hljómsveitina Papa Roach sem gaf út lagið „Last Resort“ árið 2000. Nokkrum mánuðum seinna gaf Linkin Park, önnur hljómsveit frá Kaliforníu, út plötuna Hybrid Theory sem naut mikilla vinsælda.

Rapprokk á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Ekki eru miklar heimildir um rapprokkhljómsveitir á Íslandi, allavega ekki nema um þær sem tóku þátt í Músíktilraunum og unnu ekki. Hljómsveitin Búdrýgindi samdi nokkur lög undir rapprokkstefnunni en þau eru samin í anda lagsins „Chop Suey“ með System of a Down. Quarashi eiga nokkur lög flokkuð undir rapprokki á Íslandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]