Fara í innihald

RARIK

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
RARIK ohf
Rekstrarform Opinbert hlutafélag í ríkiseigu
Hjáheiti Upphaflegt nafn var: Rafmagnsveitur ríkisins
Stofnað 1. janúar 1947,
breytt í RARIK ohf 1. ágúst 2006
Stofnandi Alþingi
Staðsetning Dvergshöfða 2, 110 Reykjavík
og víða um land
Lykilpersónur Forstjóri: Magnús Þór Ásmundsson
Starfsemi Dreifing á raforku og dreifing og sala á heitu vatni
Dótturfyrirtæki Orkusalan ehf og RED
Vefsíða www.rarik.is

RARIK ohf (áður Rafmagnsveitur ríkisins) er opinbert orkufyrirtæki.

Ný raforkulög tóku gildi 1. janúar 1947. Í þeim fólst meðal annars að: [1]

  1. Rafmagnsveitur ríkisins voru settar á fót um leið og Rafveitur ríkisins sem stofnaðar höfðu verið 5 árum áður voru lagðar niður. Hlutverk rafmagnsveitnanna var meðal annars að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku, veita henni um landið og selja hana í heildsölu til héraðsrafmagnsveitna.
  2. Héraðsrafmagnsveitur ríkisins voru stofnaðar meðal annars til að selja notendum rafmagn á þeim svæðum landsins þar sem ekki voru starfandi rafveitur í eigu sveitarfélaga. Skipuleg rafvæðing sveitanna var þannig hafin. Rafmagnsveitur ríkisins önnuðust rekstur Héraðsrafmagnsveitna ríkisins, en fyrirtækin voru fjárhagslega aðskilin.
  3. Raforkusjóður sem stofnaður hafði verið árið 1942 var efldur og hlutverk hans aukið.
  4. Embætti raforkumálastjóra var stofnað ásamt Raforkumálaskrifstofu og var hlutverk hans meðal annars að vera ráðunautur ríkisstjórnarinnar í raforkumálum og hafa yfirumsjón með Rafmagnsveitum ríkisins, rekstri þeirra og framkvæmdum.

RAfmagnsveitur RÍKisins fengu fljótlega símnefnið RARIK, sem sló í gegn og þótti mun þjálla í munni heldur en fullt nafn. Voru kefli undir rafmagnsvír og aðrar vörur fluttar inn til uppbyggingar raforkukerfisins gjarnan merktar RARIK. Var viðurnefnið RARIK því mun meira notað heldur en opinbera nafnið.

Á fyrstu árum RARIK var hafist handa við nokkrar virkjanir og árið 1954 var lögfest rafvæðingaráætlun (10 ára áætlun) og var þá gert átak í rafvæðingu dreifbýlis. RARIK reisti m.a. Rjúkandavirkjun, Mjólkárvirkjun I, Þverárvirkjun, Gönguskarðsárvirkjun, Grímsárvirkjun, Smyrlabjargaárvirkjun, Laxárvatnsvirkjun og síðar Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun II sem báðar voru teknar í notkun 1975. RARIK tók við rekstri Kröfluvirkjunar í ársbyrjun 1979 og sá um uppbyggingu og rekstur hennar þar til Landsvirkjun tók við þeim rekstri.

Landsvirkjun var stofnuð 1965 og árið 1967 voru raforkulög endurskoðuð og breytt í orkulög, en með þeim lögum voru RARIK og Héraðsrafmagnsveiturnar sameinaðar í eitt fyrirtæki sem heyrði undir þann ráðherra sem fór með orkumál. RARIK var jafnframt skilið frá Raforkumálskrifstofunni, sem var breytt í Orkustofnun.

Árið 1972 hófust framkvæmdir við fyrsta hluta byggðalínu en með henni var ætlað að hringtengja raforkukerfi landsins og sameina raforkukerfi einstakra landshluta. RARIK sá um það verkefni en Landsvirkjun tók svo yfir byggðalínuna 1983 og var þá samið um að RARIK lyki við byggingu Suðurlínu frá Hornafirði til Sigölduvirkjunar. Þessari hringtengingu raforku var lokið 1984 og var þá búið að tengja alla þéttbýlisstaði saman í hringveg raforku sem var 1.057 km.

Orkubú Vestfjarða (OV) var stofnað 1978 og tók það við starfsemi RARIK á Vestfjörðum. Árið 1985 keypti Hitaveita Suðurnesja flutningskerfi og markað RARIK á Reykjanesi og þar með markað Varnarliðsins á Miðnesheiði. RARIK keypti árið 1991 Hitaveitu Hafnar í Hornafirði, Skeiðfossvirkjun og Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar og hóf þá í fyrsta skipti rekstur jarðhitaveitu. RARIK keypti Hitaveitu Seyðisfjarðar 1992, Dreifikerfi Rafveitu Borgarness og Rafveitu Hvanneyrar árið 1995, Rafveitu Hveragerðis árið 2000, Rafveitu Sauðárkróks árið 2001, Hitaveitu Dalabyggðar 2003, Hitaveitu Blönduóss 2005 og Rafveitu Reyðarfjarðar 2020. RARIK á og rekur dreifikerfi á 43 þéttbýlisstöðum. Meirihluti af dreifikerfum í sveitum eða um 90 % eru í umsjá RARIK og undanfarin ár hefur verið gert átak í að endurnýja dreifikerfið með því að leggja jarðstrengi í stað loftlína.

Í byrjun árs 2005 urðu breytingar á raforkuviðskiptum en þá voru samþykkt raforkulög þar sem stærstu raforkukaupendur gátu valið raforkusala og í ársbyrjun 2006 voru öll viðskipti með raforku gefin frjáls. Landsnet hf tók til starfa 1. janúar 2005 en því er ætlað að sinna meginflutningi rafmagns í landinu. Með stofnun Landsnets lauk þætti RARIK í heildsölu rafmagns og stundar fyrirtækið nú eingöngu smásöluviðskipti. Meirihluti stofnlínukerfis RARIK var seldur til Landsnets og var helmingur söluverðs greiddur sem hlutafé í Landsneti en RARIK á tæpan fjórðung í Landsneti. 3. apríl 2006 voru samþykkt lög þar sem Rafmagnsveitum ríkisins var breytt í opinbert hlutafélag og tók RARIK ohf við öllum rekstrinum. Í árslok 2006 færðust eignarhlutir í fyrirtækinu frá Iðnaðarráðuneyti til Fjármálaráðuneytis.

Dótturfyrirtæki

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra (6. júní 1997). „Ársfundur RARIK: Stefnumótun í orkumálum“. www.stjornarradid.is. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Sótt 12.mars 2020.

Heimildir og ítarefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Afl í okkar þágu: Rafmagnsveitur ríkisins 1947-1987. Rafmagnsveitur ríkisins. 1987.
  • Helgi Kristjánsson (1997). Birta, afl og ylur: Saga Rafmagnsveitna ríkisins í 50 ár 1947-1997. Rafmagnsveitur ríkisins.
  • „Traust þjónusta í 60 ár“, Blaðið 6. mars 2007
  • Helgi M. Sigurðsson (2002). Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, Reykjavík.
  • Sveinn Þórðarson. „Rafmagnsveitur ríkisins“. Afl í segulæðum: Saga rafmagns á Íslandi í 100 ár. Verkfræðingafélag íslands, Reykjavík, 2004: . .
  • Tinna guðbjartsdóttir. „Straumur í æðum: Rafvæðing Íslands með tilliti til verka sjálfmenntaðra manna“ (PDF). Skemman.is janúar 2014. bls. 47–57. Sótt 11, mars 2020.
  • Valgarð Thoroddsen (5. maí 1965). „Stórvirkjun og rafvæðing“. Timarit.is. Morgunblaðið. bls. 13. Sótt 12. mars 2020.
  • Þórólfur Árnason: „Rafvæðing í Vestur-Skaftafellssýslu – Þáttur hugvitsmanna í héraði", Dynskógar, Rit Vestur-Skaftfellinga 1983, bls. 37 – 116.