Fara í innihald

Karl Popper

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Popper)
Karl Raimund Popper
Karl Raimund Popper
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. júlí 1902Vínarborg í Austurríki)
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 20. aldar
Skóli/hefðGagnrýnin rökhyggja
Helstu ritverkLogik der Forschung, The Open Society and Its Enemies, The Poverty of Historicism, Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge
Helstu kenningarLogik der Forschung, The Open Society and Its Enemies, The Poverty of Historicism, Conjectures and Refutations: The Growth of Scientific Knowledge
Helstu viðfangsefnivísindaheimspeki, þekkingarfræði, stjórnspeki

Karl Raimund Popper (28. júlí 190217. september 1994) var austurrísk-enskur vísinda- og stjórnmálaheimspekingur, kunnur fyrir kenningu sína um rannsóknaraðferðir vísindamanna og ádeilu á alræðisstefnu nasista og kommúnista. Hann var einn áhrifamesti heimspekingur 20. aldar.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Popper fæddist í Vínarborg og var af Gyðingaættum. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá Vínarháskóla 1928 og var gagnfræðaskólakennari í heimalandi sínu 1930-1936. Fyrsta bók hans, Logik der Forschung (Rökfræði vísindalegra rannsókna), birtist 1934. Popper fluttist til Nýja Sjálands 1937, þar sem hann gerðist heimspekikennari í Christchurch. Eftir að stjórnmálarit hans, The Open Society and Its Enemies (Opið skipulag og óvinir þess) kom út 1945 og vakti mikla athygli, varð hann kennari í rökfræði og aðferðafræði vísinda í Hagfræðiskólanum í Lundúnum (London School of Economics) 1946 og prófessor 1949. Bretadrottning sæmdi hann riddaratitli 1965, svo að hann varð Sir Karl Popper. Hann hætti kennslu 1969, en hélt áfram að birta heimspekiverk til dánardags. Popper hlaut fjölda verðlauna og nafnbóta, meðal annars Sonning-verðlaunin dönsku 1973 (en Halldór Kiljan Laxness hafði fengið þau 1969). Popper var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna, 1947.

Vísindaheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni Logik der Forschung, sem kom út aukin og mjög betrumbætt á ensku 1959 undir heitinu „Logic of Scientific Discovery'', hafnaði Popper þeirri algengu lýsingu á aðferð vísindamanna, að þeir söfnuðu fróðleiksmolum og reyndu síðan að alhæfa um þá. Þetta kallaði hann berjatínslukenninguna. Gallinn á henni er auðvitað alkunnur. Af þeirri staðreynd, að allir svanir, sem maður einn hefur séð, eru hvítir, er óleyfilegt að draga þá ályktun, að allir svanir séu hvítir (enda eru til svartir svanir í Eyjaálfu). Popper hélt því fram, að vísindamenn hlytu þess í stað að kasta fram djarflegum tilgátum, jafnvel hugdettum, og reyna síðan að hrekja þær. Þetta kallaði hann ljóskastarakenninguna. Í myrkri vanþekkingarinnar þreifuðu vísindamenn sig áfram með tilgátum og tilraunum, ágiskunum og afsönnunum. Viðtekin vísindaleg kenning væri sú, sem væri enn óhrakin, en til þess að hún gæti talist vísindaleg, yrði hún að vera hrekjanleg. Popper sagði, að hugmyndir Marx og Freuds væru óvísindalegar, af því að þær væru óhrekjanlegar, mynduðu lokað kerfi, skýrðu út öll frávik frá sjálfum sér. Vísindin eru samkvæmt kenningu Poppers umfram allt frjáls samkeppni hugmynda.

Stjórnmálaheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni The Open Society and Its Enemies hélt Popper því fram, að margir vestrænir menntamenn hefðu orðið fyrir óhollum áhrifum af þremur hugsuðum, Platóni, Hegel og Marx. Krafa Platóns um vitringaveldi væri gölluð, meðal annars vegna þess að erfitt væri að hafa upp á vitringunum. Það skipti ekki heldur eins miklu máli, hverjir stjórnuðu, og hverju stjórnað væri. Vandi stjórnmálanna væri ekki að finna þá, sem best væru fallnir til að stjórna, heldur að lágmarka skaðann af þeim, sem af einhverjum ástæðum hefðu fengið völd og kynnu ekki með þau að fara. Lýðræði væri umfram allt friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa. Popper deildi í bókinni harkalega á Hegel og rakti margar hugmyndir alræðissinna, nasista og kommúnista, til hans. Hann var mildari í dómum um Marx, en kvað hugmyndir hans fæstar standast tímans tönn. Kenning hans um, að verðgildi vöru færi eftir þeirri vinnu, sem lögð hefði verið í framleiðslu vörunnar, væri röng, og spádómur hans um, að verkamenn iðnríkjanna yrðu sífellt fátækari, uns þeir hlytu að rísa upp og hrinda kúgurum sínum að höndum sér, hefði bersýnilega ekki ræst. Með því að grafa í sífellu undan því skipulagi frelsis og framfara, sem hefði þrátt fyrir alla galla sína verið að myndast á 19. öld, hefðu kommúnistar og jafnvel jafnaðarmenn búið í haginn fyrir nasista.