Hrekjanleiki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hrekjanleiki eða afsannanleiki er mikilvægt hugtak innan vísindaheimspeki. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að sé staðhæfing eða kenning ekki gædd þeim eiginleikum að vera afsannanleg, þá sé hún tvímælalaust óvísindaleg. Til að staðhæfing teljist hrekjanleg þarf að vera möguleiki á því að athugun leiði í ljós að staðhæfingin sé ósönn. Til að mynda er setningin; „allar krákur eru svartar“ hrekjanleg því að ein athugun getur leitt í ljós að til sé hvít kráka, sem gerir þá staðhæfinguna ósanna.

Hrakhyggjumenn fullyrða að hver sú kenning sem ekki er hrekjanleg sé algjörlega óvísindaleg. Til að mynda halda fylgjendur Karls Popper því fram að sálkönnunarkenningin sé dæmi um hugmyndafræði frekar en vísindi. Sálkönnuður gæti talið sjúkling sinn vera í afneitun varðandi kynhneigð sína og talið afneitunina vera sönnun þess að hann sé samkynhneigður; stundi hann kynlíf með konum er það einfaldlega talinn máttarstólpi afneitunarinnar. M.ö.o., það er engin leið fyrir sjúklinginn að sýna sálkönnuðnum, á sannfærandi hátt, að hann sé ekki samkynhneigður. Þetta er það sem að Popper kallaði lokaðan hring. Slík staðhæfing, að sjúklingurinn sé samkynhneigður, er ekki hrekjanleg innan sálkönnunarinnar.

Staðhæfingar sem ekki eru hrekjanlegar teljast því, samkvæmt hrakhyggjumönnum, ekki til vísinda heldur hjáfræða.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Falsifiability“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. október 2005.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

„Hvað er heimspekihugtakið sannreynsla, eða það sem er kallað verification á ensku?“. Vísindavefurinn.