Fara í innihald

Pedro Castillo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pedro Castillo
Castillo árið 2022
Forseti Perú
Í embætti
28. júlí 2021 – 7. desember 2022
ForsætisráðherraGuido Bellido
Mirtha Vásquez
Héctor Valer
Aníbal Torres
Betssy Chávez
VaraforsetiDina Boluarte
ForveriFrancisco Sagasti
EftirmaðurDina Boluarte
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. október 1969 (1969-10-19) (55 ára)
Puña, Cajamarca, Perú
ÞjóðerniPerúskur
StjórnmálaflokkurFrjálst Perú
MakiLilia Paredes
Börn2
HáskóliCésar Vallejo-háskóli
StarfKennari, verkalýðsforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

José Pedro Castillo Terrones (f. 19. október 1969) er perúskur grunnskólakennari, verkalýðsforingi og stjórnmálamaður sem er fyrrverandi forseti Perú. Hann var kjörinn forseti í perúsku forsetakosningunum árið 2021 eftir að hann vann nauman sigur í seinni umferð á móti Keiko Fujimori.[1] Castillo er meðlimur í sósíalistaflokknum Frjálsu Perú og hefur verið borið saman við aðra popúlíska vinstrileiðtoga í Rómönsku Ameríku á borð við Evo Morales, Rafael Correa og Cristinu Kirchner. Hann tók við embætti þann 28. júlí.

Castillo er sonur tveggja ólæsra bænda frá bænum Puña í Tacabamba-sýslu í Chota-héraði í fylkinu Cajamarca.[2][3] Þrátt fyrir að stærsta gullnáma Suður-Ameríku sé í Cajamarca er svæðið eitt hið fátækasta í Perú.[2][3] Castillo var hið þriðja af níu börnum foreldra sinna.[2]

Á átakatímanum í Perú á níunda áratugnum vann Castillo sem vaktmaður fyrir öryggissveitir bænda (sp. Ronda Campesina) á móti kommúnísku skæruliðasamtökunum Skínandi stíg.[4][5][6] Fyrrum nemandi Castillo, Nilver Herrera, fylgdi honum í öryggissveitirnar og sagði um hann að Castillo hafi „alltaf viljað hjálpað fólki, [...] Ef við þurftum að byggja veg var hann þar, ef við þurftum að vinna eitthvað verkefni var hann til staðar og ef við þurftum að hjálpa veikri manneskju sem átti ekki peninga, þá var hann til staðar.“[6] Þessar sveitir aðhylltust ákveðnar vinstrisinnaðar stefnur en börðust þó á móti kommúnískum hryðjuverkum á svæðum sem ríkisstjórn Perú hafði ekki stjórn á.[7]

Castillo lauk gagnfræða- og menntaskólanámi við uppeldisstofnunina Octavio Matta Contreras de Cutervo og útskrifaðist með BA-gráðu í kennslufræði og mastersgráðu í menntunarsálfræði frá César Vallejo-háskólanum.[8]

Frá árinu 1995 vann Castillo sem grunnskólakennari við skóla 10465 í bænum Puña, þar sem hann eldaði jafnframt og hreinsaði eftir nemendurna í kennslustofu sinni.[2][3][8]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Castillo varð þjóðþekktur fyrir að leiða verkfall grunnskólakennara árið 2017. Hann bauð sig fram til forseta fjórum árum síðar fyrir vinstriflokkinn Frjálst Perú. Forsetakosningarnar voru haldnar á tíma mikils pólitísks og samfélags óróa. Perú hafði haft fjóra forseta á aðeins þremur árum, efnahagur landsins var í molum vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins og dauðsfall vegna Covid-19 í Perú var það hæsta í heimi miðað við höfðatölu.[9]

Í forsetakosningunum lofaði Castillo að gera róttækar breytingar á stjórnarskrá Perú, gerbreyta auðlindakerfi landsins og stofna sérstakt vísindaráðuneyti.[10] Hann hafði um skeið komið einræðisstjórn Nicolásar Maduro í Venesúela til varnar en dró síðar í land með þau ummæli og sagði að „enginn chavismi“ væri í hreyfingu hans. Flokksmenn Castillo höfðu jafnframt verið sakaðir um tengsl við kommúníska skæruliðahópinn Skínandi stig auk þess sem bent var á marx-lenínísk áhrif í stefnuskrá flokksins.[9] Castillo hefur þó lýst því yfir að hann hyggist ekki leiða kommúníska ríkisstjórn og að róttækari flokksfélagar hans muni ekki hafa nein úrslitaáhrif á ákvarðanatöku í stjórninni.[11]

Í upphafi kosningabaráttunnar var Castillo ekki spáð góðu gengi en hann lenti óvænt í fyrsta sæti í fyrri umferð forsetakosninganna með 18,92 prósent atkvæðanna, meðal annars þar sem pólitíska landslagið var margklofið og kosið var á milli átján frambjóðenda.[9] Í seinni kosningaumferðinni keppti Castillo við Keiko Fujimori, frambjóðanda hægrisinnaða Alþýðuvaldsins og dóttur fyrrum einræðisherrans Alberto Fujimori. Castillo vann nauman sigur í seinni umferð kosninganna með 50,126 prósent atkvæðanna gegn 49,874 prósentum sem Fujimori hlaut.[12] Í kosningunum naut Castillo yfirgnæfandi fylgis á fátæku dreifbýli landsins en Fujimori meira fylgis meðal Perúmanna erlendis.[13] Fujimori neitaði lengi að viðurkenna ósigur og hélt því fram að svindlað hefði verið í kosningunum[14] en erlendir eftirlitsaðilar töldu að kosningarnar hefðu farið sómasamlega fram og fundu ekki ummerki um svindl.[15]

Castillo var lýstur sigurvegari kosninganna af kjörstjórn landsins þann 20. júlí 2021, sex vikum eftir að seinni umferðin fór fram.[16]

Forseti Perú

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Castillo tók við embætti forseta útnefndi hann Guido Bellido í embætti forsætisráðherra. Valið á Bellido var mjög umdeilt þar sem hann sætti þá rannsókn um það hvort hann hefði varið hryðjuverk með yfirlýsingum þar sem hann hafði komið stuðningsmönnum Skínandi stígs til varnar. Castillo fór fram á afsögn Bellido í október 2021, þegar hann hafði setið aðeins um tvo mánuði í embætti.[17]

Þann 7. desember 2022 reyndi Castillo að leysa upp perúska þingið og tilkynnti að hann hygðist stýra Perú með stjórnartilskipunum. Þingið neitaði að viðurkenna þingrofið og varaforseti Perú, Dina Boluarte, fordæmdi útspil Castillos sem tilraun til valdaráns. Í kjölfarið kom þingið saman og kaus að leysa Castillo úr embætti fyrir „siðferðislegt vanhæfi“ hans til að stýra landinu.[18] Boluarte sór embættiseið sem nýr forseti og Castillo var í kjölfarið handtekinn.[19]

Eftir að Castillo var vikið úr embætti brutust út mótmæli í hlutum landsins. Stuðningsmenn Castillos hafa krafist þess að Boluarte segi af sér og að Castillo verði forseti á ný. Þann 16. janúar 2023 höfðu 43 mótmælendur fallið í valinn í átökum við yfirvöld.[20]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Peru Libre: Ideario y Programa“ (PDF). 2021. bls. 8.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Students' struggles pushed Peru teacher to run for president“. Associated Press. 18. apríl 2021. Sótt 22. apríl 2021.
  3. 3,0 3,1 3,2 Santaeulalia, Inés; Fowks, Jacqueline (12. apríl 2021). „Perú se encamina a una lucha por la presidencia entre el radical Pedro Castillo y Keiko Fujimori“. El País (spænska). Sótt 13. apríl 2021.
  4. „Pedro Castillo: Habrá minería «donde la naturaleza y la población la permitan»“. Energiminas (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 14. apríl 2021. Sótt 13. apríl 2021.
  5. Acosta, Sebastián (8. apríl 2021). „Pedro Castillo cerró su campaña con un mitin en la Plaza Dos de Mayo“. RPP (spænska). Sótt 13. apríl 2021.
  6. 6,0 6,1 „Buenos Aires Times | Inequality fuels rural teacher's unlikely bid to upend Peru“. Buenos Aires Times. Bloomberg. 3. júní 2021. Sótt 4. júní 2021.
  7. Allen, Nicolas (1. júní 2021). „Pedro Castillo Can Help End Neoliberalism in Peru“. Jacobin (bandarísk enska). Sótt 3. júní 2021.
  8. 8,0 8,1 PERÚ, Empresa Peruana de Servicios Editoriales S. A. EDITORA. „Elecciones 2021: Conoce el perfil de Pedro Castillo, candidato del partido Perú Libre“. andina.pe (spænska). Sótt 3. febrúar 2021.
  9. 9,0 9,1 9,2 Þorgrímur Kári Snævarr (8. júní 2021). „Hnífjöfn kosning milli umdeildra frambjóðenda í Perú“. Fréttablaðið. Sótt 22. júlí 2021.
  10. Árni Sæberg (7. júní 2021). „Mjótt á munum í Perú“. Vísir. Sótt 22. júlí 2021.
  11. „Pedro Castillo arremete contra Nicolás Maduro: 'que primero arregle sus problemas internos y que se lleve a sus compatriotas que vinieron a delinquir'. Diario Expreso. 22. apríl 2021. Sótt 23. apríl 2021.
  12. OFICINA NACIONAL DE PROCESOS ELECTORALES, Hacemos que tu voto cuente. „PRESENTACIÓN DE RESULTADOS, (SEGUNDA ELECCIÓN PRESIDENCIAL 2021)“. onpe.gob.pe. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2021. Sótt 23. júlí 2021.
  13. Róbert Jóhannsson (10. júlí 2021). „Castillo lýsir sig forseta en Fujimori ýjar að svindli“. RÚV. Sótt 22. júlí 2021.
  14. Atli Ísleifsson (10. júní 2021). „Castillo lýsir yfir sigri en Fujimori vill ógilda fjölda atkvæða“. Vísir. Sótt 22. júlí 2021.
  15. Ævar Örn Jósepsson (12. júní 2021). „„Jákvæðar og vel heppnaðar kosningar" í Perú“. RÚV. Sótt 22. júlí 2021.
  16. Róbert Jóhannsson (20. júlí 2021). „Castillo lýstur forseti Perú“. RÚV. Sótt 22. júlí 2021.
  17. Róbert Jóhannsson (7. október 2021). „Forsætisráðherra hættir að beiðni forseta“. RÚV. Sótt 7. október 2021.
  18. „Castillo steypt af stóli í Perú“. mbl.is. 7. desember 2022. Sótt 7. desember 2022.
  19. Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (7. desember 2022). „Forseta Perú steypt af stóli“. RÚV. Sótt 8. desember 2022.
  20. Markús Þ. Þórhallsson (16. janúar 2023). „Fjölmenn mótmæli fyrirhuguð í Líma“. RÚV. Sótt 21. janúar 2023.


Fyrirrennari:
Francisco Sagasti
Forseti Perú
(28. júlí 20217. desember 2022)
Eftirmaður:
Dina Boluarte