Púðursamsærið
Púðursamsærið var samsæri um að drepa Jakob 1. Englandskonung og þingheim með því að sprengja Westminsterhöllina í loft upp með 36 tunnum af byssupúðri sem samsærismenn komu fyrir í kjallaranum undir þingsalnum í byrjun nóvember 1605. Sprengingin átti að verða við þingsetningu 5. nóvember. Eftir sprenginguna ætluðu samsærismennirnir sér að ræna börnum konungs og koma af stað byltingu í Midlands.
Púðursamsærið kom í kjölfar Samsæris Watsons og Maine-samsærisins 1603. Aðalástæðan fyrir þeim var sú að kaþólskir Englendingar vildu steypa Jakobi af stóli þar sem hann hafði ekki tekið aftur andkaþólska löggjöf sem Elísabet 1. hafði komið á líkt og vonir höfðu staðið til, þar sem hann var sonur Maríu Stúart.
Foringi samsærisins var Robert Catesby en undirbúningur og framkvæmd sprengingarinnar var í höndum Guy Fawkes sem tókst að fela 36 tunnur af byssupúðri undir eldiviðarstafla í kjallara Westminster. Hefðu tunnurnar sprungið hefði stærstur hluti hallarinnar að öllum líkindum hrunið.
Upp komst um samsærið þar sem einn samsærismanna skrifaði mági sínum William Parker, Monteagle lávarði, viðvörunarbréf 26. október sem hann lét í hendur ríkisritarans, Robert Cecil, jarli af Salisbury. Samsærismennirnir fréttu af þessu en ákváðu að halda áfram eftir að Fawkes hafði skoðað kjallarann og komist að því að allt var óhreyft.
Kvöldið 4. nóvember fór hópur varðmanna í kjallarann vegna bréfsins. Þar fundu þeir Guy Fawkes með knippi af kveikiþráðum, eldspýtur og vasaúr. Fawkes gekkst strax við öllu saman. Hann var fluttur til Tower of London þar sem hann var pyntaður til sagna. Aðrir samsærismenn voru gripnir á flótta í Midlands. Catesby lést í skotbardaga við menn sýslumanns í Holbeach House í Staffordskíri 8. nóvember.
Púðursamsærisins er enn minnst í Bretlandi með bálköstum og flugeldum á Guy Fawkes-nótt, 5. nóvember hvert ár.