Guy Fawkes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af Guy Fawkes eftir George Cruikshank.

Guy Fawkes (13. apríl 1570 – 31. janúar 1606) eða Guido Fawkes var enskur kaþólikki sem tók þátt í hinu misheppnaða púðursamsæri árið 1605.

Fawkes fæddist og stundaði nám í York. Faðir hans dó þegar Fawkes var átta ára gamall og móðir hans giftist í kjölfarið kaþólskum manni sem hafnaði valdi ensku biskupakirkjunnar. Fawkes tók kaþólska trú og flutti á meginlandið, þar sem hann barðist í áttatíu ára stríðinu með kaþólskum Spánverjum gegn siðbótarsinnuðum Hollendingum. Hann ferðaðist til Spánar og reyndi að afla stuðnings fyrir kaþólskri uppreisn í Englandi en án árangurs. Hann hitti síðar Thomas Wintour og sneri með honum aftur til Englands.

Wintour kynnti Fawkes fyrir Robert Catesby, sem lagði á ráðin um að koma Jakob 1. Englandskonungi fyrir kattarnef og reisa kaþólskan einvald á konungsstól. Samsærismennirnir nýttu sér hvelfingu undir lávarðadeild breska þingsins og Fawkes var falið að sjá um byssupúður sem þeir komu þar fyrir. Eftir nafnlausa ábendingu gerðu yfirvöld húsleit í Westminsterhöll snemma dags þann 5. nóvember og fundu Fawkes í kjallaranum með sprengiefnið. Næstu daga var Fawkes yfirheyrður og pyntaður þar til hann viðurkenndi allt. Þegar taka átti Fawkes af lífi þann 31. janúar árið eftir hrasaði hann af pallinum þar sem átti að hengja hann og hálsbrotnaði, og slapp þar með við grimmilegar limlestingar sem hann hefði annars mátt sæta.

Fawkes er vel þekktur fyrir tengsl sín við púðursamsærið. Afstýringu samsærisins er fagnað á Guy Fawkes-nótt þann 5. nóvember á ári hverju. Þar er brúða í líki Guy Fawkes brennd á báli, oft ásamt flugeldasýningu.

Stundum er skálað fyrir Guy Fawkes og hann kallaður „síðasti maðurinn sem gekk inn á þingið með heiðarlegan ásetning“.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sharpe, J. A. (2005), Remember, Remember: A Cultural History of Guy Fawkes Day (illustrated ed.), Harvard University Press, bls. 6.