Fara í innihald

Ngô Đình Diệm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ngô Đình Diệm
Ngô Đình Diệm árið 1956.
Forseti Suður-Víetnams
Í embætti
26. október 1955 – 2. nóvember 1963
VaraforsetiNguyễn Ngọc Thơ
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurDương Văn Minh
Forsætisráðherra Suður-Víetnams
Í embætti
16. júní 1954 – 26. október 1955
ÞjóðhöfðingiBảo Đại
ForveriBửu Lộc
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. janúar 1901
Đại Phong Lộc, Quảng Bình, Annam, franska Indókína
Látinn2. nóvember 1963 (62 ára) Saígon, Suður-Víetnam
DánarorsökSkotinn til bana
StjórnmálaflokkurCần Lao
HáskóliMichigan-háskóli
Undirskrift

Ngô Đình Diệm (3. janúar 1901 – 2. nóvember 1963) var víetnamskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra (1954–1955) og síðan fyrsti forseti Suður-Víetnams (Lýðveldisins Víetnams) frá árinu 1955 til dauðadags árið 1963.

Diệm leiddi Suður-Víetnam á fyrstu árum Víetnamstríðsins. Hann naut framan af stuðnings Bandaríkjanna í stríðinu en glataði trausti bæði þeirra og suður-víetnamskra herforingja smám saman, einkum vegna ofsókna sinna gegn búddistum innanlands. Diệm var handtekinn og tekinn af lífi árið 1963 í valdaráni sem stutt var af bandarísku leyniþjónustunni CIA.

Diệm er umdeild persóna í sögu Víetnams. Sumir sagnfræðingar hafa útmálað hann strengjabrúðu Bandaríkjamanna en aðrir hafa sett hann í hlutverk verndara gamalla víetnamskra hefða. Þegar Diệm var drepinn var almennt litið á hann sem spilltan einræðisherra.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ngô Đình Diệm var sonur háttsetts embættismanns í Annam, eins hinna þriggja ríkja sem síðar mynduðu Víetnam. Hann var kaþólskrar trúar og honum var innrætt mikil trúrækni í æsku. Eftir að hafa náð góðum námsárangri hóf Diệm störf hjá ríkinu og náði skjótum frama. Hann var gerður innanríkisráðherra Annam þegar hann var 29 ára gamall en baðst lausnar eftir fáeina mánuði, að eigin sögn þar sem honum mislíkaði yfirgangur frönsku nýlendustjórnarinnar og klíkuskapur í stjórnkerfinu. Diệm dvaldist um skeið í Japan á næstu árum og var áberandi í víetnömsku sjálfstæðishreyfingunni.[1]

Þegar Japanir hertóku Víetnam í seinni heimsstyrjöldinni buðu þeir Diệm stöðu í leppstjórn sinni en hann hafnaði henni. Í stríðslok lýsti Hồ Chí Minh yfir stofnun hins kommúníska Alþýðulýðveldis Víetnams í norðurhluta landsins og bauð Diệm sæti í stjórn sinni en Diệm afþakkaði það sömuleiðis þar sem hann var sannfærður andkommúnisti. Stuttu eftir þetta drápu kommúnistar einn af bræðrum Diệms.[1]

Í ágúst 1949 buðu Frakkar og Bảo Đại keisari Diệm að mynda stjórn en hann setti það skilyrði að Víetnam hlyti fullt sjálfstæði. Þegar þessum kröfum var hafnað útilokaði Diệm samstarf við Frakka og við keisarann. Hann yfirgaf Víetnam í kjölfarið og ferðaðist um Japan, Bandaríkjunum og í Evrópu. Hann hitti ýmsa forystumenn kaþólsku kirkjuna og dvaldist um skeið í munkaklaustri í Belgíu. Bảo Đại og Frakkar buðu honum margsinnis að taka að sér stjórnarmyndun þar sem Diệm þótti vel til þess fallinn að fylkja víetnömskum andkommúnistum að baki sér. Diệm féllst loksins á að mynda stjórn að veittum tilteknum skilyrðum árið 1954 og sneri því aftur til Víetnams.[1]

Eftir ósigur franska nýlenduhersins gegn kommúnistum í orrustunni við Điện Biên Phủ árið 1954 var fallist á það eftir friðarráðstefnu í Genf að Víetnam myndi hljóta sjálfstæði en að ríkinu yrði tímabundið skipt í tvennt, í Alþýðulýðveldið Víetnam og Lýðveldið Víetnam (Suður-Víetnam). Áætlað var að ríkin tvö myndu sameinast eftir kosningar árið 1956. Árið 1956 steypti Ngô Đình Diệm keisaranum Bảo Đại hins vegar af stóli í Suður-Víetnam með stuðningi Bandaríkjamanna og varð sjálfur forseti. Í kjölfarið neitaði Ngô Đình Diệm að fara eftir ákvæðum Genfarsáttmálans um að halda kosningar sem ættu að undirbúa endursameiningu landsins.[2]

Við valdatöku sína hóf Ngô Đình Diệm markvissar ofsóknir bæði gegn vinstrimönnum, þar á meðal verkalýðsleiðtogum, og gegn ýmsum þjóðfélagshópum sem hann taldi ógna valdagrundvelli sínum, þar á meðal sjálfstæðum trúarhreyfingum búddista. Víetnamstríðið hófst í kringum árið 1960 þegar Þjóðfrelsisfylking Suður-Víetnams (Víet Kong) hóf andspyrnu gegn stjórn Diệms. Fjöldi bandarískra hermanna og herráðgjafa kom til Suður-Víetnams á næstu árum til að aðstoða stjórnina.[2]

Stjórn Diệms varð þekkt fyrir mikla spillingu og frændhygli þar sem margt frændfólk Diệms var skipað í ábyrgðarstöður og hlaut einkaleyfi til verslunar. Stjórnin studdi kaþólsku kirkjuna í landinu jafnframt ríkulega, sem leiddi til tilfinningar meðal suður-víetnamskra búddista um að þeim væri mismunað. Þann 8. maí 1963 brutust út átök í höfuðborginni Saígon þegar stjórnvöld bönnuðu búddistum að halda fjöldasamkomur í tilefni af fæðingardegi Búdda og beittu hervaldi til þess að tvístra mannfjöldanum þegar fólk óhlýðnaðist. Þann 3. júní sama ár beitti herlið stjórnvalda eiturgasi til að stöðva mótmælagöngu búddista í borginni Huế.[3]

Búddamunkar gripu til þess að kveikja í sjálfum sér til þess að mótmæla stjórn Diệms.[3] Sá fyrsti var Thích Quảng Đức, sem brenndi sjálfan sig lifandi þann 11. júní 1963.[4] Mágkona Diệms, Frú Nhu, sem var talin áhrifamikil innan stjórnarinnar, vakti enn frekari reiði landsmanna með því að gera gys að sjálfsíkveikjunum.[5]

Vegna óeirðanna setti Diệm herlög og lét hefja árásir á bænahús búddista um allt landið. Vaxandi óvinsældir Diệms leiddu til þess að hann glataði stuðningi Bandaríkjamanna, sem vildu umfram allt forðast að Suður-Víetnam félli í hendur kommúnista. Ríkisstjórn Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta gaf suður-víetnömskum herforingjum því grænt ljós á að gera byltingu gegn Diệm.[6] Þann 2. nóvember 1963 gerði suður-víetnamski herinn uppreisn gegn stjórn Diệms, meðal annars með árásum á forsetahöllina í Saígon. Diệm og bróðir hans, lögreglumálaráðherrann Ngô Đình Nhu, flúðu höllina eftir leynigöngum og leituðu sér skjóls í kaþólskri kirkju en voru þar handsamaðir og skotnir til bana af uppreisnarmönnum úr hernum.[7]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Ngo Dinh Diem“. Tíminn. 1. júlí 1954. bls. 5.
  2. 2,0 2,1 Andri Ísaksson (7. maí 1975). „Um hjarta okkar þvert“. Ný þjóðmál. bls. 4-5.
  3. 3,0 3,1 Þorsteinn Thorarensen (23. ágúst 1963). „Eldstólpar á götum Saigon“. Vísir. bls. 9.
  4. „Ný hætta í S-Víetnam“. Vísir. 26. júlí 1963. bls. 8; 13.
  5. „„Ég trúi því ekki, að maðurinn minn sé dáinn". Alþýðublaðið. 4. september 1964. bls. 6-7.
  6. „Byltingin gegn Diem“. Morgunblaðið. 1. ágúst 1979. bls. 30; 20.
  7. „Byltingin í Suður-Víetnam“. Vísir. 12. nóvember 1963. bls. 4.