Fara í innihald

Miklós Horthy

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Miklós Horthy
Miklós Horthy á fjórða áratugnum.
Ríkisstjóri Ungverjalands
Í embætti
1. mars 1920 – 15. október 1944
ÞjóðhöfðingiEnginn
Forsætisráðherra
ForveriKároly Huszár
(sem þjóðhöfðingi til bráðabirgða)
EftirmaðurFerenc Szálasi
(sem „leiðtogi þjóðarinnar“)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. júní 1868
Kenderes, Austurríki-Ungverjalandi
Látinn9. febrúar 1957 (88 ára) Estoril, Portúgal
MakiMagdolna Purgly (g. 1901)
BörnMagdolna, Paula, István og Miklós
StarfFlotaforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

Miklós Horthy de Nagybánya (18. júní 1868 – 9. febrúar 1957) var ungverskur flotaforingi og stjórnmálamaður sem ríkti sem ríkisstjóri yfir ungverska konungdæminu frá 1920 til 1944. Titill hans var „hans æruverðuga hátign, ríkisstjóri konungsríkisins Ungverjalands“ (ungverska: Ő Főméltósága a Magyar Királyság Kormányzója).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Horthy fæddist til ungverskrar aðalsfjölskyldu í bænum Kenderes í Ungverjalandi. Hann stundaði nám í háskólanum í Sopron og sjóliðsháskólanum í Fiume.[1]

Horthy hóf hernaðarferil sinn sem undirliðsforingi í austurrísk-ungverska sjóhernum árið 1896. Hann var kallaður til embættisstarfa við austurrísk-ungversku hirðina árið 1909 og varð þar ráðunautur Frans Jósefs keisara.[1] Horthy var orðinn undirflotaforingi árið 1918 og tók þátt í orrustunni við Otranto-sund árið 1917 í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem hann særðist alvarlega. Horthy varð hæstráðandi austurrísk-ungverska sjóhersins á síðasta ári heimsstyrjaldarinnar eftir að Karl 1. Austurríkiskeisari leysti forvera hans frá störfum í kjölfar uppreisna innan flotans.

Þegar byltingar brutust út í Ungverjalandi árið 1919 sneri Horthy heim til Búdapest ásamt þjóðarhernum og tók þátt í því að berja niður nýja kommúníska stjórn byltingarmannsins Béla Kun, sem hafði stofnað ungverskt sovétlýðveldi í suðvesturhluta landsins. Það var rúmenski herinn sem kom kommúnistunum frá völdum í Ungverjalandi, en Horthy tókst þó að vinna sér hylli sem nokkurs konar frelsishetja landsins.[2] Eftir að kommúnistastjórnin hafði verið felld tók við tveggja ára tímabil ógnarstjórnar þar sem liðsmenn Horthy handtóku og pyntuðu tugþúsundir grunaðra kommúnista og myrtu að minnsta kosti 1000 manns, aðallega Gyðinga.[3]

Horthy var í kjölfarið boðið að gerast ríkisstjóri konungsríkisins af ungverska þinginu. Að nafninu til var Ungverjaland því enn konungsríki á stjórnartíð Horthy og Horthy átti einungis að standa vörð um hásætið þar til konungurinn gæti snúið aftur.[4] Karl keisari, sem hafði jafnframt verið konungur Ungverjalands undir nafninu Karl 4., reyndi tvisvar að endurheimta krúnu sína í Ungverjalandi en árið 1921 lét Horthy vísa honum úr landi að áeggjan bandamanna. Horthy hlaut talsverða gagnrýni af hálfu konungssinna fyrir að hleypa Karli ekki aftur á valdastól, en óttast var að það myndi leiða til stríðs við nágrannaríkin ef reynt yrði þannig að endurreisa Habsborgaraveldið.[1]

Horthy leiddi þjóðernissinnaða íhaldsstjórn á millistríðsárunum og bannaði bæði ungverska kommúnistaflokkinn og fasíska Örvakrossflokkinn. Opinber stefna Horthy var að endurheimta landsvæði sem Ungverjaland hafði látið af hendi til Rúmeníu, Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu og Austurríkis með friðarsáttmála sínum við bandamenn árið 1920.

Seint á fjórða áratuginum gekk Horthy í bandalag við Þýskaland gegn Sovétríkjunum til að freista þess að ná fram markmiðum sínum í utanríkismálum. Með stuðningi Adolfs Hitler tókst Horthy að endurheimta sum af landsvæðunum sem bandamenn höfðu haft af Ungverjalandi. Stjórn Horthy veitti flóttamönnum frá Póllandi hæli árið 1939 og aðstoðaði Öxulveldin bæði í innrásinni í Sovétríkin árið 1941 og innrás Þjóðverja í Júgóslavíu sama ár. Með stuðningi sínum við Þjóðverja fékk Horthy að innlima lönd sem Júgóslavía hafði haft af Ungverjalandi eftir fyrra stríð.

Samstarf Horthy og Hitlers varð smám saman stirðara þar sem Horthy var tregur til þess að aðstoða Þjóðverja í stríðsrekstrinum í seinni heimsstyrjöldinni og við framkvæmd helfararinnar. Horthy neitaði að afhenda Þjóðverjum fleiri en 600.000 af þeim 825.000 Gyðingum sem bjuggu í Ungverjalandi og þegar ljóst þótti að Þjóðverjar myndu tapa styrjöldinni fór hann að ráðgera að semja um frið við bandamenn fyrir hönd Ungverjalands án samráðs við Þjóðverja. Vegna þessara ágreiningsmála ákváðu Þjóðverjar að gera innrás í og hertaka Ungverjaland í mars árið 1944. Í október sama ár lýsti Horthy því yfir að Ungverjaland hefði sagt sig úr Öxulveldunum og samið um frið við bandamenn. Í kjölfarið neyddu Þjóðverjar hann til að segja af sér, handtóku hann og sendu hann í fangelsi til Bæjaralands. Eftir að bandamenn hertóku Þýskaland árið 1945 var Horthy framseldur í varðhald bandarískra hermanna.

Horthy bar vitni í Nürnberg-réttarhöldunum árið 1948. Síðan settist hann að í Portúgal og bjó þar í útlegð til æviloka. Hann gaf út endurminningar sínar undir titlinum Ein Leben für Ungarn (íslenska: Líf fyrir Ungverjaland) árið 1953. Horthy er í dag mjög umdeildur í sögu Ungverjalands. Hann er sér í lagi vinsæll meðal meðlima öfgahægrihreyfingarinnar Jobbik.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Nicholas Horthy“. Vísir Sunnudagsblað. 18. september 1938. Sótt 6. febrúar 2019.
  2. H. C. Taussig (24. júní 1942). „Hættulegur leikur Ungverjalands“. Vísir Sunnudagsblað. Sótt 6. febrúar 2019.
  3. Bodo, Bela, Paramilitary Violence in Hungary After the First World War, East European Quarterly, 22. júní, 2004.
  4. „Nicolaus Horthy ríkisstjóri“. Nýja dagblaðið. 7. ágúst 1938. Sótt 6. febrúar 2019.
  5. Márton Dunai (3. nóvember 2013). „Hungarian far-right sparks protests as it commemorates wartime leader“ (enska). Reuters UK. Sótt 6. febrúar 2019.


Fyrirrennari:
Károly Huszár
(sem þjóðhöfðingi til bráðabirgða)
Ríkisstjóri Ungverjalands
(1. mars 192015. október 1944)
Eftirmaður:
Ferenc Szálasi
(sem „leiðtogi þjóðarinnar“)