Fara í innihald

Karl 1. Austurríkiskeisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Habsburg-Lothringen-ætt Keisari Austurríkis
Konungur Ungverjalands
Habsburg-Lothringen-ætt
Karl 1. Austurríkiskeisari
Karl 1. & 4.
Ríkisár 21. nóvember 191611. nóvember 1918
SkírnarnafnKarl Franz Jósef Loðvík Hubert Georg Otto Maria
Fæddur17. ágúst 1887
 Persenbeug-höll, Persenbeug-Gottsdorf, Neðra Austurríki, Austurríki-Ungverjalandi
Dáinn1. apríl 1922 (34 ára)
 Madeiraeyjum, Portúgal
GröfIgreja Nossa Senhora do Monte, Madeiraeyjum
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Ottó erkihertogi
Móðir María Jósefa af Saxlandi
KeisaraynjaZita af Bourbon-Parma
Börn8, þ. á m. Otto von Habsburg

Karl 1. (fæddur Karl Franz Jósef Loðvík Hubert Georg Otto Maria; 17. ágúst 1887 – 1. apríl 1922) var síðasti leiðtogi austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Hann var síðasti keisari Austurríkis, síðasti konungur Ungverjalands (sem Karl 4.)[1] og síðasti einvaldurinn af Habsborg-Lorraine-konungsættinni. Eftir að frændi hans, Frans Ferdinand erkihertogi, var myrtur árið 1914 varð Karl erfingi Frans Jósefs keisara. Karl tók við af Frans Jósef eftir dauða hans í miðri heimsstyrjöldinni árið 1916 og ríkti til loka hennar árið 1918, en þá „frábað hann sér þátttöku“ í stjórnmálum en sagði aldrei formlega af sér. Hann reyndi að endurreisa einveldið til dauðadags árið 1922. Árið 2004 gerði kaþólska kirkjan Karl að dýrlingi og er hann því oft kallaður Karl helgi af Austurríki.[2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Karl var elsti sonur bróðursonar Frans Jósefs Austurríkiskeisara, Ottó erkihertoga, og konu hans, Maríu Jósefu af Saxlandi. Hann var jafnframt bróðursonur Frans Ferdinands erkihertoga. Árið 1911 trúlofaðist Karl Zitu af Bourbon-Parma og giftist henni þann 21. október sama ár í kastalanum Schloss Schwarzau í Neðra Austurríki. Hjónin áttu eftir að eignast átta börn, meðal annars Evrópuþingmanninn Otto von Habsburg.

Eftir að Frans Ferdinand var myrtur í Sarajevó árið 1914 varð Karl erfingi að austurrísk-ungversku keisarakrúnunni.

Keisaratíð[breyta | breyta frumkóða]

Frans Jósef keisari lést árið 1916 og Karl settist í hans stað á keisarastól í miðri fyrri heimsstyrjöldinni. Karl reyndi að semja um frið við Frakkland og Bretland án aðkomu Þýskalands en hafði ekki erindi sem erfiði. Karl var eini stríðsleiðtoginn sem studdi friðartillögur Benedikts 15. páfa árin 1916 og 1917. Karl var friðarsinni og reyndi því árið 1917 að draga Austurríki-Ungverjaland út úr styrjöldinni með því að gera leynilega samninga við bandamenn með milligöngu tengdabróður síns, Sixtusar prins af Bourbon-Parma. Þessar friðarumleitanir mistókust einnig, sér í lagi vegna þess að keisarinn neitaði að láta af hendi austurrískt landsvæði til Ítalíu. Þegar orðrómar fóru að spyrjast út um leynimakk Karls neitaði hann öllu, en bandamenn opinberuðu bréfaskipti hans við þá í mars árið 1918. Þar sem Karl hafði stutt tilkall Frakka til umdeildu héraðanna Alsace-Lorraine bað orðstír hans hnekki bæði í Þýskalandi og heima fyrir.

Þrátt fyrir mjög erfiðar kringumstæður hleypti Karl á stjórnartíð sinni af stokkunum ýmsum samfélagslöggjöfum sem einkenndust af kristinni félagshyggju.

Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar neyddist Karl til þess að segja af sér sem keisari. Árið 1921 reyndi hann tvívegis að snúa aftur til Ungverjalands og endurheimta konungskrúnu sína þar. Miklós Horthy, sem var þá orðinn ríkisstjóri yfir Ungverjalandi, lét vísa Karli burt frá landinu til þess að geta sjálfur haldið í völdin, enda óttaðist hann að nágrannaríkin myndu gera innrás ef tilraun yrði gerð til að endurreisa Habsborgaraveldið með því að eftirláta Karli krúnu sína.

Eftir misheppnaðar tilraunir sínar til að endurheimta krúnuna ferðaðist Karl með bresku skipi í útlegð til Madeiraeyja í Portúgal. Hann lést þar fáeinum mánuðum eftir komu sína, aðeins 34 ára gamall.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Encyclopædia Britannica, Encyclopædia Britannica Online, sótt 18. júlí 2017
  2. http://www.emperorcharles.org


Fyrirrennari:
Frans Jósef 1.
Keisari Austurríkis
(21. nóvember 1916 – 11. nóvember 1918)
Eftirmaður:
Enginn; keisaraveldið leyst upp
Karl Seitz gerist þjóðhöfðingi sem forseti Austurríkis