Maurice Hilleman
Maurice Ralph Hilleman | |
---|---|
Fæddur | 30. ágúst 1919 |
Dáinn | 4. nóvember 2005 (86 ára) |
Dánarorsök | Krabbamein |
Þjóðerni | Bandarískur |
Menntun | Montana State University |
Störf | Örverufræðingur |
Þekktur fyrir | Einn merkasti vísindamaður 20. aldar. Þróaði fjölda mikilvægra bóluefna. |
Maki | Thelma Mason (g. 1943; d. 1963) – Lorraine Witmer (g.1964) |
Börn | 2 |
Maurice Ralph Hilleman (30. ágúst 1919 - 11. apríl 2005) var bandarískur örverufræðingur sem sérhæfði sig í bólusetningum. Hann þróaði yfir 36 bóluefni, meira en nokkur annar vísindamaður.[1] [2] Hann þróaði átta af þeim 14 bóluefnum sem nú er mælt með. Þau eru fyrir mislinga, hettusótt, lifrarbólgu A, lifrarbólgu B, hlaupabólu, heilahimnubólgu , lungnabólgu og Haemophilus influenza bakteríur. Hann gegndi einnig hlutverki við uppgötvun adenóvírusa (e. Adenoviridae) sem mynda kvef, lifrarbólguveirurnar og krabbamein -veirunnar SV40.
Hilleman er af mörgum sagður einn merkasti vísindamaður 20. aldarinnar. Hann er talinn hafa bjargað fleiri mannslífum en nokkur annar vísindamaður á 20. öld.[3][4][5][6]
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Hilleman fæddist á bóndabæ nálægt Miles City á sléttum Montana í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru Anna Uelsmann og Gustav Hillemann og var hann áttunda barn þeirra og það yngsta. Tvíburasystir hans lést við fæðingu og móðir hans dó tveimur dögum síðar. Hann var alinn upp á nærliggjandi heimili frænda síns, Robert Hilleman, og starfaði í æsku á fjölskyldubúinu. Síðar rakti hann hluta af velgengni sinni til starfa sem drengur við umsjá kjúklinga, en á þriðja áratug síðustu aldar voru frjósöm kjúklingaegg oft verið notuð til að rækta vírusa fyrir bóluefni.
Fjölskylda hans var Lúterstrúar. Þegar hann var í áttunda bekk uppgötvaði hann bækur Charles Darwin og var gripinn við að lesa um uppruna og þróun lífvera í kirkjunni. Hann rétt komst til háskólanáms vegna fátæktar. Elsti bróðir hans hafði forystu um að Hilleman færi í háskólanám. Með fjölskylduaðstoð og styrkjum útskrifaðist Hilleman árið 1941 frá Ríkisháskólann í Montana með afburðarpróf. Hann fékk rannsóknarstöðu við Chicago-háskóla og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í örverufræði árið 1944.
Doktorsritgerð hans fjallaði um klamydíusýkingar, sem þá voru taldar stafa af vírusum. Í doktorsritgerð sinni sýndi Hilleman fram á að klamydíusýkingarnar væri ekki vegna vírusa heldur af völdum bakteríutegundar (Chlamydia trachomatis) sem vex inni í frumum. Það væri því hægt að lækna klamydíu með pensilíngjöf.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að hafa gengið til liðs við bandaríska lyfjafyrirtækið ER Squibb & Sons (nú Bristol-Myers Squibb) þróaði Hilleman bóluefni gegn japanskri heilabólgu, sjúkdómi sem ógnaði bandarískum hermönnum í Kyrrahafsstríði Seinni heimsstyrjaldarinnar. Sem yfirmaður deildar öndunarfærasjúkdóma við hersjúkrahúsið í Washington, D.C. frá 1948 til 1957, uppgötvaði Hilleman erfðafræðilega breytingar sem eiga sér stað þegar inflúensu veira stökkbreytist, nú þekkt sem vakastökk (e. antigenic shift) og vakaflökt (e. antigenic shift). Niðurstaða hans var að þörf væri á bólusetningu gegn inflúensu á hverju ári.
Árið 1957 gekk Hilleman til liðs við alþjóðlega lyfjafyrirtækið Merck & Co. sem yfirmaður nýrrar rannsóknadeildar í vírus- og frumulíffræði í West Point í Pennsylvaníu. Þar þróaði Hilleman flest þeirra tilrauna- og leyfisbóluefna fyrir dýr og menn sem hann varð þekktur fyrir.[8]
Hilleman starfaði í fjölda innlendra og alþjóðlegra ráðgjafarnefnda á sviði örverufræða bæði fyrir stjórnvöld, mennta- og vísindastofnanir, sem og einkaaðila. Til að mynda var hann ráðgjafi við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna um mat á áætlun á sviði alnæmisrannsókna og sat í ráðgjafarnefnd Bandaríkjastjórnar um ónæmisaðferðir. Þá var hann ráðgjafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Asíuflensufaraldurinn
[breyta | breyta frumkóða]Hilleman var með þeim fyrstu sem áttuði sig á að inflúensufaraldur sem kom upp í Hong Kong árið 1957 gæti orðið að miklum heimsfaraldri. Hann fann ásamt samstarfsmönnum sínum nýtt afbrigði af inflúensustofn sem gæti drepið milljónir.[10] Hann beitti sér fyrir því að fjörutíu milljónir skammta af bóluefnum voru útbúin og dreift um Bandaríkin. Þrátt fyrir að 69.000 Bandaríkjamenn hafi látist úr þessari inflúensu er talið að heimsfaraldurinn hefði geta þýtt mun fleiri dauðsföll í Bandaríkjunum. Fyrir þetta afrek og uppgvötun var Hilleman sæmdur heiðursmerki Bandaríska hersins. Talið er að bóluefni hans hafi bjargað hundruðum þúsunda mannslífa.
Aftur, nú árið 1968, þróaði Hilleman og teymi hans bóluefni við flensufaraldri frá Hong Kong. Framleiddir voru níu milljónir skammta gegn inflúensunni.
Veiran SV40
[breyta | breyta frumkóða]Hilleman var einn þeirra frumherja við þróun bóluefna sem vöruðu við því að simian vírusar gætu mengað bóluefni. Þekktust þessara veira er SV40, sem er apaveira er valdið getur æxlisvexti og hefur um árabil verið notuð til tilrauna, sem meðal annars miða að rannsókn á eðli æxlisvaxtar og krabbameins. Hilleman uppgötvaði að SV40 veiran, ættuð úr nýrum Grænapa, hafði spillt frumuvefjum, sem voru í ræktun.[11] Veirumengun í bóluefni gegn lömunarveiki, leiddi til þess að bóluefni sem kennt var við Jonas Salk var innkallað árið 1961 og því var skipt út fyrir annað bóluefni sem kennt er við vísindamanninn Albert Sabin.[12][13]
Bóluefni gegn hettusótt
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1963 fékk dóttir Hilleman, Jeryl Lynn, hettusótt. Hann ræktaði efni frá dóttur sinni og notaði það sem grunn að bóluefni gegn þessum skæða sjúkdómi.[14] Þessi „Jeryl Lynn stofn“ af hettusóttabóluefninu er enn notaður í dag. Hann er nú notaður gegn þrennu (svokallað þrígilt bóluefni): mislingum, hettusótt og rauðum hundum.
Annað þrígilt bóluefni sem hann þróaði, svokallað MMR bóluefni,[15] var fyrsta samþykkta bóluefnið sem innihélt marga lifandi vírusstofna. Í dag nota öll ríki Evrópu þetta þrígilta bóluefni þ.e. bóluefni í einni sprautu gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt (MMR).[16]
Bóluefni fyrir Lifrarbólgu B
[breyta | breyta frumkóða]Hilleman og samstarfsmenn fundu upp bóluefni við lifrarbólgu B með því að meðhöndla blóðsermi með ensíminu pepsíni (úr útdráttarlausn úr magaslímhúð),[17] þvagefni og formaldehýði (litlaus gastegund og er notað í vatnsupplausn til sótthreinsunar). Lifrabólga B er alvarlegur sjúkdómur sem smitast með blóði sýktu af völdum lifrarbólguveiru B, venjulega við kynmök, stungur eða blóðgjafir.[18]
Þetta bóluefni var framleitt árið 1981 en var afturkallað árið 1986 í Bandaríkjunum, í stað bóluefnis sem framleitt var í geri. Það bóluefni er enn í notkun í dag. Árið 2003 voru 150 lönd að nota bóluefnið og tíðni Lifrabólgu B í Bandaríkjunum hjá ungu fólki hefur lækkað um 95 prósent. Hilleman taldi þetta bóluefni vera sitt stærsta afrek.
Undir lok starfsævinnar
[breyta | breyta frumkóða]Undir lok starfsævinnar var Hilleman ráðgjafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hann lét af störfum hjá rannsóknarstofum Merck lyfjafyrirtækisins árið 1984 á lögboðnum eftirlaunaaldri 65 ára.
Hann stýrði síðan hinni nýstofnuðu Merck-stofnun fyrir bólusetningar, þar sem hann starfaði næstu tuttugu árin. Þar vann hann að rannsóknum á bóluefnum fyrir 20 sjúkdóma, þar á meðal alnæmi.[19]
Þegar hann andaðist 11. apríl 2005, 85 ára að aldri, var hann aðjunkt í barnalækningum við Pennsylvaníu háskóla í Philadelphia í Bandaríkjunum.
Arfleifð
[breyta | breyta frumkóða]Hilleman hlaut fjölda viðurkenninga sem brautryðjandi í vísindum. Hann var meðlimur í Bandarísku vísindaakademíunni, Læknastofnun Bandaríkjanna og Bandaríska heimspekifélaginu. Hann var heiðraður árið 1988 af Ronald Reagan forseta Bandaríkjanna með Þjóðarorðu Bandaríkjanna í vísindum, sem talinn er æðsti vísindaheiður þjóðarinnar. Hann hlaut sérstök verðlaun fyrir starfsævina frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Árið 1975 hlaut Hilleman „Gullna skjöldinn“ sem eru verðlaun Bandarísku afreksakademíunnar.
Í grein tímaritsins Economist árið 2005 sem fjallaði um ævistörf Hilleman var bent á að hann hefði ekki fengið Nóbelsverðlaun. Skýringarinnar væri að leita í því að líklegra sé að verðlaunahafar Nóbels vinni við grunnvísindi fremur en hagnýtar rannsóknir. Tímaritið benti jafnfram á að jafningjar segja Hillman hafa gert meira fyrir fyrirbyggjandi lyf en nokkur maður frá dögum Louis Pasteur.[20]
Í mars 2005 tilkynnti barnadeild læknadeildar Pennsylvaníu háskóla og Barnaspítalinn Fíladelfíu, í samstarfi við lyfjafyrirtækið Merck Company Foundation, um sérstaka bólusetningarstofnun sem kennd er við Maurice Hilleman.
Árið 2005 sagði Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, að umfangsmikið framlag Hilleman væri „best geymda leyndarmál leikmanna. Ef þú horfir á allt svið bólusetninga var enginn áhrifameiri,“ sagði Fauci og bætti við að Hilleman hafi verið „hinn eini sanni risi vísinda, lækninga og lýðheilsu á 20. öld. Það væru ekki ýkjur að Maurice hafi breytt heiminum“.
Árið 2007 skrifaði Anthony S. Fauci í ævisögulegri minningargrein um Hilleman:
Maurice var ef til vill áhrifamesti lýðheilsufræðingur tuttugustu aldar ef litið er til þeirra milljóna mannslífa sem bjargað var og óteljandi einstaklinga sem var hlíft við þjáningum vegna starfa hans. Á ferlinum þróuðu Maurice og samstarfsmenn hans meira en fjörutíu bóluefni. Af þeim fjórtán bóluefnum sem nú er mælt með í Bandaríkjunum þróaði Maurice átta.
Árið 2016 kom út heimildarmynd um Hilleman sem bar titlinn A Perilous Quest to Save the World's Children, sem fjallar um ævi og feril vísindamannsins, framleidd af Medical History Pictures, Inc. Hún hefur verið sýnd meðal annars á sjónvarpsstöðinni Curiosity Stream.[21][22]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Örverufræði
- Útvarpsþáttur Ríkisútvarpsins: Í ljósi sögunnar: Maurice Hilleman[óvirkur tengill].
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin Upplýsingar Rauða hunda]
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin Upplýsingar um Lifrabólgu B]
- Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin Upplýsingar um mislinga]
- Rannsóknarstofnun kennd við Hilleman: Hilleman Laboratories]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Maurice Hilleman“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. mars 2021.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Dove, A. (2005). „Maurice Hilleman“. Nature Medicine 11, S2 (2005). Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Newman, Laura (2005-04-30) (28. apríl 2005). „Obituaries: Maurice Hilleman“. BMJ : British Medical Journal. 330 (7498): 1028. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Lawrence K. Altman (12. apríl 2005). „Maurice Hilleman, Master in Creating Vaccines, Dies at 85“. The New York Times-April 12, 2005, Section A, Page 1 of the National edition. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Johnson LA (2005-04-12) (4. desember 2005). „Maurice Hilleman, at 85; was pioneer in vaccine research“. Associated Press. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ The Economist (23. apríl 2005). „Obituary: Maurice Hilleman, pioneer of preventive medicine, died on April 11th, aged 85“. The Economist. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Theodore H. Tulchinsky (30. mars 2018). „Maurice Hilleman: Creator of Vaccines That Changed the World“. Case Studies in Public Health, 2018, Pages 443-470, Published online 2018 Mar 30. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Sullivan P (13. apríl 2005). „Maurice R. Hilleman Dies; Created Vaccines“. The Washington Post. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið - 75. tölublað (30.03.1963) (30. mars 1963). „Utan úr heimi: Öndunarfærasjúkdómar eru amalegasti óvinurinn“. Morgunblaðið/Árvakur. bls. 14. Sótt 21. mars 2021.
- ↑ Landlæknir (Maí 2018). „Farsóttaskýrsla 2017: Tilkynningarskyldir sjúkdómar, farsóttagreining, og sögulegar upplýsingar“ (PDF). Landlæknir. bls. 9-10. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið - 159. tölublað (19.07.1957) (19. júlí 1957). „Asíuinflúenzan er væg og ólíklegt að hún geti orðið hœttulegur faraldur“. Morgunblaðið / Árvakur. bls. 2. Sótt 21. mars 2021.
- ↑ Vikan - 31. Tölublað (30.07.1964) (30. júlí 1964). „Valda veirur krabbameini?“. Vikan. bls. 21. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Sigurður B. Þorsteinsson (22. júní 2000). „„Hvernig byrjaði alnæmi?"“. Vísindavefur Háskóla Íslands. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Heilbrigðismál - 4. Tölublað (01.12.1978) (1. desember 1978). „Nóbelsverðlaun i læknisfræði: Grundvallarrannsóknir í sameindaerfðafræði“. Heilbrigðismál. bls. 4-7. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið - 78. tölublað (19.04.1968) (19. apríl 1968). „Bólusetning gegn rauðum hundum“. Morgunblaðið / Árvakur. bls. 2. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Ritstjórn Hvatans (4. desember 2019). „Áhrif mislinga á ónæmiskerfið- Hvað er MMR bóluefnið?“. Stundin. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Landlæknisembættið. „Rauðir hundar (Rubella)“. Landlæknisembættið. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Hörður Filippusson (14. desember 2001). „Hvað er ensím?“. Vísindavefur Háskóla Íslands. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Haraldur Briem (1. september 1988). „Smitandi lifrarbólga Utbreiddur sjúkdómur sem getur haft alvarlegar afleiðingar“. Heilbrigðismál - 3. Tölublað (01.09.1988). bls. 6-8. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Lawrence K. Altman (12. apríl 2005). „Maurice Hilleman, Master in Creating Vaccines, Dies at 85“. The New York Times-April 12, 2005, Section A, Page 1 of the National edition. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ The Economist (23. apríl 2005). „Obituary: Maurice Hilleman, pioneer of preventive medicine, died on April 11th, aged 85“. The Economist. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Medical History Pictures, Inc. (2016). „Hilleman: A Perilous Quest to Save the World's Children“. First Run Features. Sótt 20. mars 2021.
- ↑ Medical History Pictures, Inc. (2016). „Hilleman: A Perilous Quest to Save the World's Children“. First Run Features. Sótt 19. mars 2021.