Inflúensa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flensuveirur séðar í smásjá

Inflúensa, eða flensa, er smitsjúkdómur sem leggst á fugla og spendýr. Í spendýrum koma helstu einkenni fram í efri öndunarfærum og í lungum. Sjúkdóminn má rekja til RNA veiru (af Orthomyxoviridae fjölskyldunni).

Algengustu einkenni í mönnum eru sótthiti, hálsbólga og eymsli í hálsi, höfuðverkur, vöðvaverkir, hósti og þreyta. Einnig getur niðurgangur fylgt í kjölfarið á þessum einkennum ef veikindin eru orðin langvarandi.

Þótt ýmsir öndunarfærasjúkdómar séu í daglegu tali nefndir flensa er raunveruleg inflúensa talsvert frábrugðin venjulegu kvefi, og mun alvarlegri. Einstaklingar sem smitast af inflúensu þjást oft af miklum sótthita í eina til tvær vikur, og ef ekki er brugðist rétt við, eða ef einstaklingurinn er veikburða fyrir, getur sjúkdómurinn leitt til dauða.

Inflúensa er bráðsmitandi og berst um heiminn í árvissum flensufaröldrum. Þegar flensufaraldur geisar látast alla jafna milljónir af völdum sjúkdómsins, en í hefðbundnu árferði nemur tala látinna hundruðum þúsunda á ári. Á 20. öldinni hafa þrír flensufaraldrar geisað, í öll skiptin í kjölfar stökkbreytingar á veirunni sem dró úr getu fólks til að berjast við sjúkdóminn.

Sú tegund inflúensu, sem á undanförnum árum hefur þótt líklegust til að breytast í alvarlegan alheimsfaraldur er H5N1, en þessi influensutegund er betur þekkt sem fuglaflensa. Nú (sumar 2009) óttast menn þó meira H1N1, sem er kölluð svínaflensa. Hún er talin hafa borist upphaflega úr svínum í menn í Mexíkó, en nú er hún farin að smitast frá manni til manns.