Mary Kingsley

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mary Kingsley
Mary Kingsley um 1890.
Fædd13. október 1862
Islington, London, Englandi
Dáin3. júní 1900 (37 ára)
Simon's Town, Suður-Afríku
StörfLandkönnuður, rithöfundur, mannfræðingur
Þekkt fyrirFerðir og skrif um Vestur-Afríku
ForeldrarGeorge Kingsley og Mary Bailey

Mary Henrietta Kingsley (13. október 18623. júní 1900) var enskur mannfræðingur, rithöfundur og landkönnuður. Ferðir hennar um Vestur-Afríku og skrif hennar um þær höfðu áhrif á hugmyndir Evrópubúa um menningu Afríku og mótun breskrar heimsvaldastefnu.

Fjölskylda og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Kingsley fæddist í London 13. október 1862. Hún var dóttir og elsta barn læknisins, ferðamannsins og rithöfundarins George Kingsley[1] og Mary Bailey. Hún kom úr fjölskyldu rithöfunda, þar sem hún var líka frænka skáldsagnahöfundanna Charles Kingsley og Henry Kingsley. Fjölskyldan flutti til Highgate innan við ári eftir fæðingu hennar, sem var sama heimili og bróðir hennar Charles George R. („Charley“) Kingsley fæddist í árið 1866. Árið 1881 bjuggu þau í Southwood House, í Bexley í Kent.

Faðir hennar var læknir og starfaði hjá George Herbert, 13. jarli af Pembroke og öðrum aðalsmönnum og var oft að heiman í skoðunarferðum sínum. Í þessum ferðum safnaði hann gögnum fyrir rannsóknir sínar. Kingsley fylgdi Dunraven lávarði í ferð til Norður-Ameríku 1870–1875. Í þeirri ferð var honum boðið að fylgja með leiðangri bandaríska hersins undir stjórn George Armstrong Custer gegn Sioux-indíánum. Fréttir um drápin á liði Custers skelfdu Kingsley-fjölskylduna en þeim létti þegar þau fréttu að slæmt veður hefði komið í veg fyrir að Kingsley læknir gengi til liðs við Custer. Hugsanlega áttu skoðanir föður hennar á því óréttlæti sem frumbyggjar Ameríku voru beittir þátt í að móta skoðanir Mary á menningarlegri heimsvaldastefnu Breta í Vestur-Afríku.[2]

Kingsley hlaut litla formlega skólagöngu samanborið við bróður sinn, fyrir utan þýskukennslu á unga aldri.[3] Á þeim tíma var menntun ekki talin nauðsynleg stúlku af hennar stigum.[4] Hún hafði hins vegar aðgang að stóru bókasafni föður síns og elskaði að heyra sögur hans um framandi lönd.[2] Hún hafði ekki gaman af skáldsögum sem þóttu heppilegri fyrir ungar konur þess tíma, eins og bókum eftir Jane Austen eða Charlotte Brontë, heldur valdi bækur um vísindi og endurminningar landkönnuða. Árið 1886 komst bróðir hennar Charley inn í lögfræði við Christ's College í Cambridge; það gerði Mary kleift að kynnast fræðimönnum og eignast þar vini.

Fátt bendir til þess að Kingsley hafi verið alin upp við kristni. Hún lýsti sjálf trú sinni þannig, „dregið saman með eigin orðum [...]„fullkominni trú á guð““ og tók meira að segja sterklega undir það sem var kallað „afrísk trúarbrögð“.[3] Hún var þekkt fyrir að gagnrýna kristniboða og störf þeirra fyrir að útrýma afrískri menningu án þess að það fæli í sér neinn ávinning.[5]

Í manntalinu frá 1891 í Englandi eru móðir Mary og tvö börn hennar búsett á Mortimer Road 7 í Cambridge, þar sem Charles er skráður sem BA-nemi í lögfræði og Mary sem læknanemi. Á efri árum veiktist móðir þeirra og Mary var ætlað að hjúkra henni. Hún gat ekki farið frá móður sinni sem dró úr möguleikum hennar til ferðalaga. Fljótlega var faðir hennar einnig rúmliggjandi með gigtarsótt eftir ferðalag. Kingsley læknir lést í febrúar 1892 og frú Kingsley fylgdi á eftir nokkrum mánuðum síðar í apríl sama ár. Mary Kingsley var nú laus undan ábyrgð sinni á fjölskyldunni og átti 8.600 punda arf sem skiptist jafnt með henni og bróður hennar. Hún gat nú ferðast eins og hana hafði alltaf dreymt um.[2] Mary ákvað að heimsækja Afríku, að sagt var til að klára að safna efni fyrir bók um afríska menningu sem faðir hennar hafði byrjað á.

Ævintýri í Afríku[breyta | breyta frumkóða]

Eftir fyrstu heimsókn sína til Kanaríeyja ákvað Kingsley að ferðast til vesturstrandar Afríku. Oftast voru þær konur sem ekki voru frá Afríku sem fóru í (oft hættulegar) ferðir þangað, eiginkonur trúboða, embættismanna eða landkönnuða. Landkönnun og ævintýri voru ekki álitin viðeigandi fyrir enskar konur. Þetta var þó að breytast vegna verka frægra landkönnuða eins og Isabellu Bird og Marianne North. Afrískar konur undruðust að kona á aldur við Kingsley væri á ferðalagi án karlmanns og hún var oft spurð hvers vegna eiginmaður hennar fylgdi henni ekki.

Kingsley lenti í Síerra Leóne 17. ágúst 1893 og ferðaðist þaðan til Lúanda í Angóla. Hún bjó hjá heimafólki sem kenndi henni að lifa af í óbyggðum og ráðlagði henni. Oft fór hún ein á hættuleg svæði. Menntun hennar sem hjúkrunarfræðingur á Kaiserswerther Diakonie hafði búið hana undir lítilsháttar meiðsli og frumskógarsjúkdóma sem hún átti eftir að lenda í. Kingsley sneri aftur til Englands í desember 1893.

Þegar hún kom aftur tryggði Kingsley sér stuðning og aðstoð frá Albert Günther, sem var frægur dýrafræðingur við British Museum, auk útgáfusamnings við George Macmillan, því hún hugðist gefa út frásagnir af ferðum sínum.

Hún sneri aftur til Afríku 23. desember 1894 með meira fjármagn og vistir frá Englandi, og aukið sjálfstraust. Hana langaði að rannsaka „mannætur“ og hefðbundin trúarbrögð í kringum það sem almennt var nefnt „skurðgoðadýrkun“ á Viktoríutímanum. Í apríl kynntist hún skoska trúboðanum Mary Slessor, annarri evrópskri konu sem bjó meðal innfæddra Afríkubúa með lítinn félagsskap og engan eiginmann. Það var á fundi þeirra Slessor sem Kingsley kynntist tvíburamorðum, sið sem Slessor var staðráðin í að uppræta. Innfæddir töldu að annar tvíburanna væri afkvæmi djöfulsins sem hefði leynilega haft mök við móðurina, og þar sem ómögulegt var að greina hvort barnið væri saklaust, þá voru þau bæði drepin og móðirin oft drepin líka fyrir að leyfa djöflinum að barna sig. Kingsley kom til húss Slessors skömmu eftir að hún hafði tekið við nýbakaðri tvíburamóður ásamt eftirlifandi barni hennar.[2]

Síðar í Gabon sigldi Kingsley kanó upp Ogooué-ána, þar sem hún safnaði sýnum af fiskitegundum sem voru ókunn vestrænum vísindamönnum, en þrjár þeirra voru síðar nefndar eftir henni. Eftir að hafa hitt Fang-þjóðina og ferðast um ókannað yfirráðasvæði þeirra, fór hún upp 4.040 metra hátt Kamerúnfjall eftir slóð sem enginn Evrópumaður hafði áður farið. Hún geymdi bát sinn í Donguila.[6]

Aftur til Englands[breyta | breyta frumkóða]

Þegar hún kom heim í nóvember 1895 tóku blaðamenn á móti Kingsley og vildu ólmir taka viðtöl við hana. Fréttirnar sem birtust um ferðalag hennar ollu henni hins vegar vonbrigðum þar sem blöðin lýstu henni sem „hinni nýju konu“, ímynd sem hún gekkst ekki við. Kingsley hafnaði tengingu við feminískar hreyfingar og hélt því fram að kosningaréttur kvenna væri „minniháttar spurning; meðan stór hluti karla væri án kosningaréttar gætu konur beðið“.[7] Þessi skortur á tengingu við kvenréttindahreyfingar má rekja til margra þátta, meðal annars viðleitni hennar til að tryggja að starfi hennar væri vel tekið. Sumir halda því raunar fram að þetta gæti verið bein vísun í trú hennar á mikilvægi þess að tryggja breskum kaupmönnum réttindi í Vestur-Afríku.[7]

Næstu þrjú árin ferðaðist hún um England og hélt fyrirlestra um lífið í Afríku fyrir fjölda áhorfenda. Hún var fyrsta konan sem ávarpaði verslunarráðin í Liverpool og Manchester.[8]

Kingsley olli uppnámi í ensku kirkjunni þegar hún gagnrýndi trúboða fyrir að reyna að breyta íbúum Afríku og spilla trú þeirra. Í þessu sambandi fjallaði hún um marga þætti í afrísku lífi sem Englendingum þóttu hneykslanlegir, þar á meðal fjölkvæni, sem hún hélt fram að væri stundað af nauðsyn.[5] Eftir að hafa búið með afrísku fólki varð Kingsley meðvitaðri um hvernig samfélag þeirra virkaði og hvernig bann við siðum eins og fjölkvæni myndi skaða lífshætti þeirra. Hún vissi að dæmigerðar afrískar eiginkonur höfðu of mörg verkefni til að ráða við þau einar. Trúboðar í Afríku kröfðust þess oft að trúaðir karlmenn yfirgæfu allar eiginkonur sínar nema eina og skildu þá hinar konurnar og börnin eftir án stuðnings; og sköpuðu þannig mörg félagsleg og efnahagsleg vandamál.[2]

Hugmyndir Kingsley um menningarlega og efnahagslega heimsvaldastefnu eru flóknar og umdeildar. Þótt hún hafi annars vegar litið svo á að menningu íbúa Afríku þyrfti að varðveita[5] trúði hún líka á nauðsyn breskra efnahagslegra og tæknilegra áhrifa og á óbein yfirráð. Hún var sannfærð um að tiltekin verkefni í Vestur-Afríku yrðu hvítir menn að vinna.[5] Samt sem áður skrifaði hún í West African Studies: „Þó að ég sé darwinisti í grunninn, þá efast ég um að þróun í snyrtilegri og snyrtilegri hornréttri línu, með skurðgoðadýrkun á botninum og kristni efst, sé hið sanna ástand mála.“[9] Önnur, ásættanlegri viðhorf hennar voru tekin og notuð í Vestur-Evrópu; af kaupmönnum, heimsvaldasinnum, kvenréttindafrömuðum og fleirum; og áttu þátt í að móta vinsælar hugmyndir um „Afríkubúann“ og land „hans“.

Skrif[breyta | breyta frumkóða]

Kingsley skrifaði tvær bækur um reynslu sína: Travels in West Africa (1897), sem varð strax metsölubók og West African Studies (1899), sem báðar öfluðu henni virðingar og álits innan fræðasamfélagsins. Sum dagblöð neituðu hins vegar að birta umsagnir um verk hennar, svo sem Times þar sem heimsvaldasinninn Flora Shaw ritstýrði nýlenduumfjöllun. Þrátt fyrir að sumir haldi því fram að þetta hafi líklega verið af því skoðanir hennar hafi farið gegn heimsvaldastefnu breska heimsveldisins og hugmyndinni um að Afríkubúar væru óæðra fólk, þá er ólíklegt að það sé eina skýringin á því hve slæmar móttökur skrif hennar fengu stundum, vegna þess að hún studdi breska kaupmenn og óbein yfirráð Breta í Afríku.[7][3]

Árangur bókarinnar Travels in West Africa stafaði ekki síst af kraftinum og yfirvegaða húmornum í frásögninni sem hvikar aldrei frá yfirlýstum tilgangi sínum - að ljúka verkinu sem faðir hennar hafði hafið. Milli þess að sýna húmor á yfirborðinu og undirliggjandi greiningu, byggir Kingsley upp í myndum „... ekki mynd listamanns, heldur ljósmynd, ofhlaðna smáatriðum, í litlausri útgáfu“[9] - ljóðræna hugsun; sem oft er rakin í skrifum Walter Benjamin. Um aðferð sína sagði hún: „Það er hæfileiki minn til að draga fram samferðafólk mitt, hvítt eða svart, dyggðir þeirra þannig að það sé þeim til virðingar og mér til gæfu.“ [9] Um tilgang sinn segir hún: „Hvati minn til að fara til Vestur-Afríku var rannsókn. Þessi rannsókn snerist um hugmyndir innfæddra og trúarlegar og lagalegar siðvenjur. Ástæða þess að ég hóf þessa rannsókn var löngun mín til að klára frábæra bók sem faðir minn, George Kingsley, hafði skilið eftir við andlát sitt.“ [9] Um föður sinn segir hún: „Verkið sem hann vann virtist lofa mikilli snilld og frægð - sem því miður var aldrei að fullu uppfyllt.“[10] Sannleikurinn var að George Kingsley hafði aðeins skrifað nokkur sundurlaus brot og ekkert af þeim rataði inn í hina miklu bók Mary Kingsley. Það er frekar með texta dótturinnar - sem var fyrirrennari Claude Lévi-Strauss og bókar hans Regnskógabeltið raunamædda[11] - að draumur föðurins var loksins uppfylltur og vegur fjölskyldunnar aukinn.

Andlát[breyta | breyta frumkóða]

Þegar seinna Búastríðið braust út ferðaðist Kingsley til Höfðaborgar á SS Moor í mars 1900 og bauð sig fram sem hjúkrunarkona. Hún fékk stöðu á sjúkrahúsi í Simon's Town þar sem hún meðhöndlaði stríðsfanga úr röðum Búa. Eftir að hafa hjúkrað sjúklingum í um tvo mánuði fékk hún taugaveiki og lést 3. júní 1900. Sjónarvottur sagði: „Hún barðist í stuttan tíma en áttaði sig svo á því að hún var að fara. Hún bað um að fá að deyja ein og sagði að hún vildi ekki að neinn sæi hana í veikleika sínum. Dýr fóru í burtu til að deyja ein, sagði hún.“[12] Í samræmi við óskir hennar fór útför hennar fram á sjó.[8] „Þetta voru held ég einu forréttindin sem hún bað um fyrir sjálfa sig; og þau voru í samræmi við allar aðstæður og orðspor hennar ... Hópur í frá West Yorkshire-sveitinni, með hljómsveit á undan, dró kistuna frá sjúkrahúsinu á byssuvagni að bryggjunni ... Tundurskeytabátur nr. 29 lagði frá bryggju og sigldi fyrir Höfðaskaga, og sendi hana þangað sem hún hafði kosið að hvíla.“[12] „Kynlegt atvik, sem hefði „skemmt“ Kingsley sjálfri, var þegar kistan neitaði að sökkva og þurfti að draga hana aftur um borð og varpa henni síðan aftur útbyrðis, að þessu sinni með akkeri sem sökku.“[2]

Arfleifð[breyta | breyta frumkóða]

Sögur Kingsley um lífið í Afríku hjálpuðu til að vekja athygli á breskri heimsvaldastefnu erlendis og siðum innfæddra Afríkubúa sem áður höfðu fengið litla umfjöllun og voru misskildir af Evrópumönnum. Fair Commerce Party var stofnaður fljótlega eftir andlát hennar og þrýsti á um bættar aðstæður fyrir frumbyggja breskra nýlendna. Ýmis umbótasamtök voru stofnuð henni til heiðurs sem knúðu á um breytingar á stjórnháttum. Liverpool School of Tropical Medicine stofnaði heiðursmerki í hennar nafni. Í Síerra Leóne var Mary Kingsley Auditorium við Institute of African Studies, Fourah Bay College (Háskólinn í Síerra Leóne), kennt við hana.

Birt verk[breyta | breyta frumkóða]

  • „Travels on the western coast of equatorial Africa“. Scottish Geographical Magazine. 12 (3): 113–124. 1896. doi:10.1080/00369229608732860. ISSN 0036-9225. 1430411.
  • Travels in West Africa. BookRix. 2015 [1897]. ISBN 978-3-7368-0451-7.
  • Travels in West Africa. Washington DC: National Geographic. 2002 [1897]. ISBN 9780792266389. with an Introduction by Anthony Brandt
  • West African Studies (Second, expanded. útgáfa). London: MacMillan. 1901 [1899].

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]