George Armstrong Custer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
George Armstrong Custer
Custer í kringum árið 1865.
Fæddur5. desember 1839
Dáinn25. júní 1876 (36 ára)
Little Bighorn, Montana, Bandaríkjunum
StörfHermaður
MakiElizabeth Bacon Custer
Undirskrift

George Armstrong Custer (5. desember 1839 – 25. júní 1876) var bandarískur herforingi og riddaraliðsforingi sem barðist í þrælastríðinu og Indíánastríðunum. Custer ólst upp í Michigan og Ohio og gekk í bandaríska hernaðarháskólann í West Point árið 1857. Hann útskrifaðist þaðan með lægstu einkunn í sínum bekk árið 1861. Þegar þrælastríðið braust út var Custer kvaddur í sambandsher norðurríkjanna.

Custer gat sér góðan orðstír í stríðinu. Hann tók þátt í fyrsta meiriháttar bardaganum, fyrstu orrustunni við Bull Run, þann 21. júlí árið 1861, nærri Washington. Custer komst í kynni við marga mikilvægustu foringja stríðsins og sannaði að hann var mjög hæfur riddaraliðsforingi. Custer var gerður að fylkishershöfðingja þegar hann var 23 ára, tæpri viku fyrir orrustuna við Gettysburg, þar sem Custer leiddi sjálfur riddaraliðssveitir sem komu í veg fyrir að riddaraliðssveitir Suðurríkjanna kæmu aftan að sambandshernum.[1] Custer særðist í orrustunni við Culpeper-dómshúsið í Virginíu þann 13. september 1863. Árið 1864 var Custer sæmdur annarri stjörnu og gerður stórhershöfðingi. Í lok Appomatox-herfararinnar var Custer viðstaddur þegar Robert E. Lee hershöfðingi gafst upp fyrir Ulysses S. Grant hershöfðingja sambandshersins þann 9. apríl 1865.

Eftir þrælastríðið var Custer áfram hershöfðingi í sjálfboðaher Bandaríkjanna þar til hann var leystur upp í febrúar 1866. Hann gerðist kapteinn í hernum á ný en var sæmdur tign lautinant-ofursta í sjöundu riddaraliðssveitinni í júlí árið 1866. Árið 1867 var Custer sendur vestur á bóginn til að berjast í bandarísku Indíánastríðunum. Þann 25. júní árið 1876 barðist Custer í orrustunni við Little Bighorn gegn bandalagi Indíána undir stjórn höfðingjanna Sitjandi Tarfs og Æra Fáks. Í orrustunni bað Custer afgerandi ósigur og var drepinn ásamt öllu herliði sínu, þar á meðal tveimur bræðrum sínum. Orrustan varð fræg í bandarískri menningu og þjóðarvitund og er oft kölluð „síðasta barátta Custers“ (Custer's Last Stand) í daglegu tali.

Eftir dauða sinn var Custer lofsamaður og lyft upp á stall sem þjóðhetju sem lét lífið fyrir föðurland sitt. Í seinni tíð hefur farið að bera meira á gagnrýni á aðferðir Custers og bent hefur verið á fjölmörg meint hernaðarmistök sem hann gerði í aðdraganda orrustunnar við Little Bighorn.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Tom Carhart, Lost Triumph: Lee's Real Plan at Gettysburg and Why It Failed. (New York: G. P. Putnam & Sons, 2003), bls. 240.