Fara í innihald

Kosningaréttur kvenna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kosningaréttur kvenna
13 af þeim 19 þingkonum sem kosnar voru á þing í Finnlandi árið 1907
Kvenfrelsisdagurinn í Reykjavík árið 1919.

Kosningaréttur kvenna vísar til þeirra réttinda kvenna að geta boðið sig fram og kosið til embættis. Uppruna baráttunnar fyrir kosningarétti kvenna má rekja til 18. aldar í Frakklandi. Hann má einnig tengja baráttunni fyrir afnámi þrælahalds.

Alþjóðleg kvenréttindahreyfing

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf hinnar alþjóðlegu kvenréttindahreyfingar er gjarnan rakin til fundar sem haldinn var í Seneca Falls í Bandaríkjunum árið 1848. Árið 1866 lagði John Stuart Mill sem þá sat á þingi í Bretlandi fram undirskriftir 1499 þekktra kvenna þar sem farið var fram á kosningarétt fyrir konur og árið 1868 var lagður fram undirskriftalisti með um 50 þúsund undirskriftum. En ekki var tekið undir kröfurnar.[1] Konur fengu fyrst kosningarétt árið 1893 í Nýja-Sjálandi sem þá var nýlenda Breta. Árið 1895 fengu konur í Suður-Ástralíu einnig kosningarétt og urðu um leið kjörgengar til þings. Í Finnlandi var stofnað kvenréttindafélag árið 1883 upp úr leshring sem nokkrar konur stofnuðu til þess að ræða bókina Kúgun kvenna.[2] Finnland varð því fyrsta Evrópulandið til að leyfa konum að kjósa árið 1907 og voru konur kosnar til þings í fyrsta skiptið þá. Konur í Sviss fengu fyrst að kjósa 1971.

Kosningaréttur íslenskra kvenna

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskar konur fengu fyrst takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakosninga árið 1882 sem var víkkaður út árið 1908 og varð kosningaréttur kynjanna til sveitastjórna þá jafn. Árið 1895 stóð Hið íslenska kvenfélag fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings almenns kosningaréttar kvenna. Um 2.348 skrifuðu undir. Árið 1907 hóf Hið íslenska kvenfélag undirskrifasöfnun á ný og skrifuðu 11.381 kona undir, úr nær öllum hreppum landsins, þar af 1.956 úr Reykjavík. Árið 1907 töldust konur 15 ára og eldri vera 28.640 talsins þannig að ljóst er að víðtækur stuðningur fyrir kosningarétti hefur verið meðal kvenna.[3] Árið 1911 samþykkti Alþingi frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna til Alþingis en dönsk stjórnvöld vildu ekki samþykkja það fremur en önnur frumvörp um breytingar á stjórnskipun Íslands þetta ár.

Árið 1913 samþykkti Alþingi nýtt frumvarp um kosningarétt kvenna og vinnuhjúa en þá var sett inn ákvæði um 40 ára aldurstakmark sem átti svo að lækka smátt og smátt og mun það hafa verið vegna þess að þingmenn töldu að það yrði of mikil röskun að því að fjölga kjósendum í einu vetfangi um tvo þriðju og því væri betra að fjölgunin kæmi í smáskömmtum. Einnig kemur fram bæði í umræðum á Alþingi og í blaðagreinum að sumir óttuðust sérframboð kvenna. Slíkt aldursákvæði var ekki sett í lög í neinu öðru evrópsku landi nema Bretlandi 1918 en þar var miðað við 30 ára aldur.[4]

Ný stjórnarskrá með ákvæði um að konur og vinnuhjú eldri en 40 ára fengju kosningarétt og kjörgengi til þingkosninga árið 1915[5]. Átti að lækka aldurstakmarkið í skrefum um eitt ár á ári hverju þar til það væri komið niður í 25 ár til jafns við þann rétt sem karlmenn sem voru fjár síns ráðandi höfðu. Það takmark hefði náðst árið 1931 að óbreyttri stjórnarskrá. Frá þessu var fallið árið 1920 og kosningaréttur karla og kvenna gerður jafn.

2015 var 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi fagnað.

Ljósmyndir frá Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Mill, John Stuart. Kúgun kvenna. bls 30-31
  2. Mill, John Stuart. Kúgun kvenna. bls 26-27
  3. Hagstofa Íslands - Mannfjöldi eftir kyni og aldri 1841-2011
  4. Sérstaða Íslands. Geymt 12 nóvember 2011 í Wayback Machine Á vef Kvennasögusafns Íslands, www.kvennasogusafn.is, skoðað 19. júní 2011.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2022. Sótt 9. febrúar 2016.