Fara í innihald

Heimanmundur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þýskur brúðarskápur með brúðarlíni og öðru góssi.

Heimanmundur eða heimanfylgja er verðmæti (peningar, munir, jarðeignir eða annað) sem kona færir við giftingu með sér inn í hjónabandið.

Heimanmundur var alsiða frá ómunatíð og fram á 19. og 20. öld á Vesturlöndum og tíðkast enn víða um heim. Í sumum þjóðfélögum er þessu þó öfugt farið, þar borgar brúðguminn foreldrum brúðarinnar brúðarverð.

Í mörgum þjóðfélögum var litið á heimanmund sem fyrirframgreiddan arf sem átti að hjálpa ungu hjónunum að stofna heimili. Fyrr á öldum réð eiginmaðurinn yfirleitt yfir þeim heimanmundi sem konan hafði fært í búið, eins og öðrum eignum, þótt hann teldist sameign. Þó gilti yfirleitt sú regla að ef hjónabandinu var slitið með skilnaði eða ógildingu átti hann að skila heimanmundinum og ef hjónin dóu barnlaus gekk heimanmundurinn gjarna aftur til ættingja konunnar.

Í konungs- og aðalsfjölskyldum Evrópu fyrr á öldum var heimanmundurinn oft víðáttumiklar jarðeignir, jafnvel heil héruð eða landshlutar. Hjá almenningi var vitaskuld um minni verðmæti að ræða og þá fólst hluti heimanfylgjunnar oft í vefnaðarvöru og öðrum munum sem brúðurin hafði unnið og safnað allt frá barnsaldri í brúðarkistuna sína eða brúðarskápinn.

Morgungjöf eða tilgjöf er aftur á móti verðmæti sem brúðguminn lagði fram og gaf brúðinni. Morgungjöfin var séreign hennar og átti að tryggja framfærslu hennar ef hann félli frá. Eiginmaðurinn mátti ekki ráðstafa morgungjöfinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]