Staðgengilsbrúðkaup
Staðgengilsbrúðkaup er brúðkaup þar sem annaðhvort brúður eða brúðgumi, hugsanlega bæði, eru fjarstödd en staðgengill svarar fyrir þann fjarstadda. Slík hjónabönd eru þó ekki lagalega bindandi nú á tímum nema í fáeinum löndum.
Fyrr á öldum voru staðgengilsbrúðkaup algeng hjá konungs- og aðalsættum Evrópu. Þegar konungsdóttir eða hefðarjómfrú giftist til fjarlægs lands eða héraðs sendi brúðguminn oft fulltrúa sinn sem giftist brúðinni sem staðgengill hans og flutti hana svo til nýrra heimkynna, þar sem önnur giftingarathöfn fór yfirleitt fram. Stundum leið þó alllangur tími þar til brúðhjónin hittust. Þannig giftist til dæmis Katrín af Aragóníu Arthúr prinsi af Wales 19. maí 1499 en þau sáust fyrst 4. nóvember 1501 og var giftingarathöfn haldin tíu dögum síðar. Eitt þekktasta dæmið á síðari öldum er brúðkaup Napóleons Bónaparte og Maríu Lovísu, síðari konu hans, en hún giftist staðgengli keisarans 11. mars 1810 og síðan honum sjálfum 1. apríl sama ár.
Hjónabandið taldist þó ekki fullkomið fyrr en hjónin höfðu haft kynmök og þótt staðgengisbrúðkaup væri lagalega bindandi var yfirleitt auðveldara að ógilda slík hjónabönd en önnur og stundum var ekki einu sinni hirt um það. Anna hertogaynja af Bretagne giftist Maxímilían 1. af Austurríki 1490 með staðgengli en þau höfðu enn aldrei hist þegar Karl 8. Frakkakonungur þvingaði hana til að giftast sér ári síðar og Innósentíus VIII páfi lýsti svo hjónaband þeirra löglegt þar sem hjónaband Önnu og Maxímilíans hefði aldrei verið fullkomnað.
Staðgengilsbrúðkaup tíðkast enn sumstaðar, oftast vegna þess að annað hjónanna getur ekki verið viðstatt vegna herþjónustu, fangelsisvistar, farbanns eða af öðrum gildum ástæðum. Lagalegt gildi þeirra er þó misjafnt. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna geta hermenn í þjónustu erlendis þó notað staðgengil til að giftast maka sínum löglega. Rússneski geimfarinn Júríj Malechenko giftist Ekaterínu Dmitrievu með staðgengli 10. ágúst 2003. Hann var þá í geimstöð á sporbaug um jörðu en hún í Texas.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Proxy marriage“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. nóvember 2010.