Fara í innihald

Litín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
  Vetni  
Litín Beryllín
  Natrín  
Efnatákn Li
Sætistala 3
Efnaflokkur Alkalímálmur
Eðlismassi 535,0 kg/
Harka 0,6
Atómmassi 6,941 g/mól
Bræðslumark 453,69 K
Suðumark 1615,0 K
Efnisástand
(við staðalaðstæður)
Málmur
Lotukerfið

Litín (stundum nefnt liþíum, liþín eða litíum[1]; frá gríska orðinu λίθος, liþos sem merkir „steinn“) er frumefni með efnatáknið Li og sætistöluna 3 í lotukerfinu. Í hreinu formi er litín mjúkur, silfurgrár málmur sem tærist og missir gljáann við snertingu við loft eða vatn. Það er léttasta fasta efnið og er aðallega notað í varmaflutningsefnum, í rafhlöðum og í geðstillandi efnasamböndum.

Almenn einkenni

[breyta | breyta frumkóða]

Litín er léttast allra málma og hefur hálfan eðlismassa vatns. Það er silfraður málmur og svo mjúkt að hægt er að skera það með beittum hníf. Eins og allir alkalímálmar hefur litín einungis eina gildisrafeind. Það tapar þeirri rafeind auðveldlega og breytist þá í jákvætt hlaðna jón með ysta rafeindahvelið tómt. Sökum þess hvarfast litín auðveldlega í vatni og finnst því ekki eitt og sér í náttúrunni. Þrátt fyrir það er það ekki jafn hvarfgjarnt og hið efnafræðilega svipaða frumefni natrín.

Lithium rafhlaða

Þegar því er haldið yfir eldi, gefur það frá sér áberandi fagurrauðan lit, en þegar það brennur kröftuglega verður það skínandi hvítt. Ef það kemst í snertingu við vatn eða loft kviknar í því. Þetta er eini málmurinn sem hvarfast við nitur við stofuhita. Litín hefur mikla eðlisvarmarýmd, 3582 J/(kg·K), og vítt hitastigssvið í vökvaformi sem veldur því að það er mjög nytsamlegt efni.

Vegna mikillar eðlisvarmarýmdar er litín notað við varmaflutning. Það er einnig mikilvægt efni í forskaut rafhlaðna sökum hás rafefnamættis. Litínrafhlöður eru ekki aðeins léttari en venjulegar þurrhlöður, heldur framleiða þær líka hærri spennu (3 volt á móti 1,5 voltum). Önnur not:

Varúðarráðstafanir

[breyta | breyta frumkóða]

Litín í hreinu formi er gríðarlega eldfimt og stafar af því nokkur sprengihætta þegar það kemst í snertingu við loft og ekki síður vatn. Erfitt er að slökkva litínelda, til þess þarf sérstök efni sem hönnuð eru til þess að slökkva þá. Litín er einnig tærandi og fara þarf með það á sérstakan hátt til að koma í veg fyrir að það snerti húð. Geyma skyldi litín í óhvarfgjörnu efnasambandi eins og til dæmis nafta eða kolvatnsefni. Litínefnasambönd gegna engu líffræðilegu hlutverki og eru talin örlítið eitruð. Þegar efnið er notað sem lyf, verður að fylgjast mjög vandlega með styrk Li+ í blóði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Litín“. Málið.is.
  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.