Litín
Vetni | |||||||||||||||||||||||||
Litín | Beryllín | ||||||||||||||||||||||||
Natrín | |||||||||||||||||||||||||
|
Litín (stundum nefnt liþíum, liþín eða litíum[1]; frá gríska orðinu λίθος, liþos sem merkir „steinn“) er frumefni með efnatáknið Li og sætistöluna 3 í lotukerfinu. Í hreinu formi er litín mjúkur, silfurgrár málmur sem tærist og missir gljáann við snertingu við loft eða vatn. Það er léttasta fasta efnið og er aðallega notað í varmaflutningsefnum, í rafhlöðum og í geðstillandi efnasamböndum.
Almenn einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Litín er léttast allra málma og hefur hálfan eðlismassa vatns. Það er silfraður málmur og svo mjúkt að hægt er að skera það með beittum hníf. Eins og allir alkalímálmar hefur litín einungis eina gildisrafeind. Það tapar þeirri rafeind auðveldlega og breytist þá í jákvætt hlaðna jón með ysta rafeindahvelið tómt. Sökum þess hvarfast litín auðveldlega í vatni og finnst því ekki eitt og sér í náttúrunni. Þrátt fyrir það er það ekki jafn hvarfgjarnt og hið efnafræðilega svipaða frumefni natrín.
Þegar því er haldið yfir eldi, gefur það frá sér áberandi fagurrauðan lit, en þegar það brennur kröftuglega verður það skínandi hvítt. Ef það kemst í snertingu við vatn eða loft kviknar í því. Þetta er eini málmurinn sem hvarfast við nitur við stofuhita. Litín hefur mikla eðlisvarmarýmd, 3582 J/(kg·K), og vítt hitastigssvið í vökvaformi sem veldur því að það er mjög nytsamlegt efni.
Notkun
[breyta | breyta frumkóða]Vegna mikillar eðlisvarmarýmdar er litín notað við varmaflutning. Það er einnig mikilvægt efni í forskaut rafhlaðna sökum hás rafefnamættis. Litínrafhlöður eru ekki aðeins léttari en venjulegar þurrhlöður, heldur framleiða þær líka hærri spennu (3 volt á móti 1,5 voltum). Önnur not:
- Litínsölt eins og til dæmis litínkarbónat (Li2CO3), litínsítrat og litínórótat eru geðstillandi efni. Þau eru notuð við meðferð á geðhvarfasýki, því ólíkt öðrum geðstillandi efnum, vinna þau bæði á geðhæð og þunglyndi. Litín er einnig notað til að auka áhrif annarra geðdeyfðarlyfja. Til þess að litín gagnist í þessum tilgangi þarf magn þess að vera það mikið að það jaðrar við eituráhrif og því þarf að fylgjast vel með styrk þess í blóði á meðan á meðferð stendur.
- Litínklóríð og litínbrómíð eru gríðarlega vökvasækin og eru iðulega notuð sem þurrkefni.
- Litínstearat er algengt háhitasmurefni til hvers kyns nota.
- Litín er notað sem málmblendisþáttur við efnasmíði lífrænna efnasambanda.
- Það er notað sem bráð til að flýta sambræðslu málma í rafsuðu og lóðningu. Það kemur einnig í veg fyrir myndun oxíða á meðan á suðu stendur með því að gleypa í sig óhreinindi. Þessi bræðsluhæfileiki er einnig mikilvægur sem bráð í framleiðslu á leirmunum, glerung, og gleri.
- Litínhýdroxíð er notað til að vinna koltvísýring úr lofti í geimförum og kafbátum. Hvaða alkalíhýdroxíð sem er gleypir í sig CO2 en litínhýdroxíð er tilvalið sökum lítils eðlismassa.
- málmblöndur litíns og áls, kadmíns, kopars og mangans eru notaðar í álagsþolna hluti í flugvélum.
Varúðarráðstafanir
[breyta | breyta frumkóða]Litín í hreinu formi er gríðarlega eldfimt og stafar af því nokkur sprengihætta þegar það kemst í snertingu við loft og ekki síður vatn. Erfitt er að slökkva litínelda, til þess þarf sérstök efni sem hönnuð eru til þess að slökkva þá. Litín er einnig tærandi og fara þarf með það á sérstakan hátt til að koma í veg fyrir að það snerti húð. Geyma skyldi litín í óhvarfgjörnu efnasambandi eins og til dæmis nafta eða kolvatnsefni. Litínefnasambönd gegna engu líffræðilegu hlutverki og eru talin örlítið eitruð. Þegar efnið er notað sem lyf, verður að fylgjast mjög vandlega með styrk Li+ í blóði.