Lesja Úkrajínka
Lesja Úkrajínka Леся Українка | |
---|---|
Fædd | 25. febrúar 1871 |
Dáin | 1. ágúst 1913 (42 ára) |
Þjóðerni | Úkraínsk |
Störf | Skáld, rithöfundur |
Maki | Klyment Kvítka |
Undirskrift | |
Lesja Úkrajínka (úkraínska: Леся Українка), fædd undir nafninu Larysa Petrívna Kosasj (úkraínska: Лариса Петрівна Косач; 25. febrúar 1871 – 1. ágúst 1913) var úkraínskur rithöfundur, gagnrýnandi og skáld.
Hún var jafnframt virk í femínísku og pólitísku félagsstarfi og átti í slagtogi við marxista og jafnaðarmenn.[1]
Þekktasta verk hennar er leikritið Skógarsöngurinn (Лісова пісня). Lesja Úkrajínka var gift tónlistarfræðingnum Klyment Kvítka.[2]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Lesja Úkrajínka fæddist árið 1871 í Úkraínu. Móðir hennar var rithöfundurinn og ritstýran Olha Drahomanova-Kosasj (síðar þekkt undir nafninu Olena Ptsjílka) og faðir hennar var Petro Antonovytsj Kosasj.
Foreldrar Lesju voru tengd ýmsum mektarmönnum þessa tíma, meðal annars tónskáldinu Mykola Lysenko og skáldinu og leikskáldinu Mykhajlo Starytskyj. Móðurbróðir Lesju, Mykhajlo Drahomanov, var þekktur vísindamaður og sagnfræðingur og hann er talinn andlegur lærifaðir hennar.
Lesja orti fyrsta ljóð sitt, Vonina, þegar hún var níu ára, þegar rússneska keisarastjórnin gerði frænku hennar útlæga til Síberíu vegna þátttöku hennar í úkraínsku sjálfstæðishreyfingunni. Í ljóðinu fjallaði Lesja um þá von að geta snúið aftur til Úkraínu og barið Dnjepr augum.
Lesja nam í heimahúsum þar sem berklasýki sem hún þjáðist af kom í veg fyrir að hún gæti gengið í skóla. Auk móðurmáls síns, úkraínsku, kunni hún ensku, frönsku, þýsku, ítölsku, pólsku, rússnesku og búlgörsku. Hún las og þýddi ýmsar erlendar heimsbókmenntir, meðal annars verk eftir Byron, Mickiewicz, Gogol, Heine og Hugo.[3] Hún þýddi jafnframt Kommúnistaávarpið og önnur rit marxista á úkraínsku.
Tungumálakunnátta Lesju auðveldaði henni að ferðast til margra landa, meðal annars til Egyptalands, Ítalíu, Þýskalands, Austurríkis-Ungverjalands og Búlgaríu, auk þess sem hún ferðaðist til ýmissa hluta rússneska keisaradæmisins (þ. á m. Krímskaga og Georgíu) til að dveljast á heilsuhælum vegna veikinda sinna.
Ættjarðarást Lesju og nýjungagirni hennar gagnvart erlendum menningarheimum gáfu henni þá hugmynd að stofna „Alheimsbókasafn“ fyrir úkraínska lesendur sem ætti að gera þeim kleift að kynnast menningararfi heimsins. Lesja Úkrajínka átti í nánu sambandi við Ívan Franko, sem bar hana saman við úkraínska þjóðskáldið Taras Sjevtsjenko. Hún tileinkaði honum ljóðið Tár-perlur árið 1891.
Úkrajínka gaf út ljóðasafnið Þrælasöngva árið 1895. Í verkinu jókst samfélagslegur undirtónn í textasmíð hennar og fór að jaðra við byltingarákall.[4]
Lesja Úkrajínka var handtekin árið 1907 og var þaðan í frá undir eftirliti keisaralögreglunnar.[1]
Úkrajínka lést úr berklum á meðan hún dvaldi í Súramí árið 1913 og var jarðsett í Bajkove-kirkjugarðinum í Kænugarði. Húsið þar sem hún dvaldi í Súramí er í dag safn til minningar um hana.[5]
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Minnismerki um Lesju Úkrajínku eftir myndhöggvarann Mykhajlo Tsjeresjnovskyj í High Park í Toronto í Kanada. Undir styttunni stendur: „Хто визволиться сам, той буде вільний, хто визволить кого, в неволю візьме“ („Sá verður frjáls sem frelsar sjálfan sig, en sá áfram fanginn sem er frelsaður af öðrum“).
-
Lesja Úkrajínka ásamt Aríödnu Drahomanov árið 1894.
-
Lesja Úkrajínka á úkraínskum 200 hrinju peningaseðli.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Larousse « Dictionnaire mondial des littératures », article « Laryssa Petrivna Kossatch, dite Lessia Ukrainka »“. larousse.fr (franska).
- ↑ Æviágrip Lesju Úkrajínku og Klyment Kvítka.
- ↑ https://www.universalis.fr/encyclopedie/ukrainka-larissa-petrovna-kossatch-kvitka-dite-lessia/
- ↑ Jean-Claude Polet, ritstj.; Claude Pichois, form. (1992). Patrimoine littéraire européen : [archive] anthologie en langue française, Volume 12 : xixe – xxe siècle : 1885-1922. París: De Boeck Université, cop.
- ↑ „Музей Леси Украинки в городе Сурами“. what.in.ua (rússneska). Sótt 23. mars 2023.