Fara í innihald

Lúðvík hinn frómi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lúðvík frómi)
Samtímamynd af Lúðvík guðhrædda frá árinu 826 sem miles Christi (hermaður Krists) með ljóð eftir Rabanus Maurus í forgrunni. Vatikanið, Biblioteca Apostolica Vaticana, Codex Reg. lat 124, f.4v.

Lúðvík hinn frómi (77820. júní 840) eða Lúðvík guðhræddi var konungur Frankaveldis og meðkeisari hins heilaga rómverska ríkis (sem Lúðvík 1.) ásamt föður sínum Karlamagnúsi frá árinu 813. Hann var einnig konungur Akvitaníu frá árinu 781.

Sem eini eftirlifandi fullorðni sonur Karlamagnúsar og Hildigerðar konu hans varð Lúðvík eini leiðtogi Franka eftir dauða föður síns árið 814 og hélt þeirri stöðu til dauðadags að undanskyldu tímabili á árunum 833–34 þar sem honum var komið frá völdum.

Á valdatíð sinni í Akvitanínu var Lúðvík falið að verja suðausturlandamæri veldisins. Hann lagði undir sig Barselóna frá múslimum árið 801 og kom Pamplona og Baskalandi undir vald Franka árið 812. Sem keisari gaf Lúðvík sonum sínum, Lóþari, Pippín og Lúðvík, sæti í ríkisstórninni og reyndi að undirbúa skiptingu veldisins á milli þeirra. Fyrsti áratugur valdatíðar Lúðvíks einkenndist af harmleik og niðurlægingu, sér í lagi misþyrmingar á frænda hans, Bernarði af Ítalíu, sem Lúðvík bætti fyrir með því að svívirða sjálfan sig á almannafæri.

Á fjórða áratug 9. aldar skall á borgarastyrjöld milli sona Lúðvíks. Lúðvík bætti gráu ofan á svart með því að reyna að gera ráð fyrir syni sínum með annarri konu sinni, Karli sköllótta, í erfðaröðinni. Valdatíð Lúðvíks lauk farsællega, en eftir að hann lést tóku við þrjú ár borgarastyrjaldar. Lúðvík þykir yfirleitt koma illa út í samanburði við föður sinn, en áskoranirnar sem hann þurfti að kljást við sig á valdatíð sinni voru ekki af sama toga.